29.04.1976
Neðri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3379 í B-deild Alþingistíðinda. (2812)

250. mál, stjórnmálaflokkar

Flm. (Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Frv. það um stjórnmálaflokka, sem ég hef flutt og er 250. mál þingsins, mun vera fjórða málið flutt á þessu þingi sem fjallar um starf og skipan stjórnmálaflokka og þá alveg sérstaklega um fjármál stjórnmálaflokka. Snemma á þinginu flutti formaður Alþb., hv. 5. þm. Norðurl. v., ásamt öðrum þm. till. sem snertu mjög starfsemi stjórnmálaflokkanna. Litlu síðar flutti hv. 4. þm. Norðurl. v., Eyjólfur K. Jónsson, tvö frv. sem einnig snertu fjármál stjórnmálaflokkanna.

Þetta frv. er í beinu framhaldi af þeim umr. sem fram hafa farið um málið, og ber því að líta á það í því samhengi. Í þessu frv. eru ýmsar hugmyndir sem fram hafa komið í umr. og við meðferð hinna fyrri mála á þessu þingi um meðferð stjórnmálaflokkanna, og er það von mín að með því að flytja hér frv. um heildarlöggjöf um stjórnmálaflokka örvist þessar umr. enn og til þess komi að gerð verði alvarleg tilraun til þess að ná sem viðtækustu samkomulagi um aðgerðir er gætu orðið til þess að auka traust þjóðarinnar á stjórnmálaflokkunum og skilning á hlutverki þeirra.

Undanfarin ár hefur komið fram mjög hörð gagnrýni á það valdakerfi sem íslenska þjóðin býr nú við, og hafa Alþ. og stjórnmálaflokkarnir sérstaklega orðið fyrir barðinu á þeirri gagnrýni, en flokkarnir hafa tíðum verið kenndir við ýmiss konar misrétti, misbeiting valds, samtryggingu hagsmuna, annarlega fjáröflun og yfirleitt lélega frammistöðu við það meginhlutverk að stjórna landinu. Oft hefur það viðkvæði heyrst í slíkum umr. að nauðsynlegt sé að setja sérstaka löggjöf um stjórnmálaflokka, og hafa jafnvel ýmsir af forustumönnum flokkanna tekið undir það.

Með því frv. að heildarlöggjöf um stjórnmálaflokka, sem hér er flutt, er stefnt að því að lögfesta ákvæði um eftirtalin meginatriði:

1. Um skilgreiningu á stjórnmálaflokkum, þar sem einnig komi fram hlutverk þeirra í stjórnkerfinu og megineinkenni á lýðræðislegu flokksskipulagi.

2. Ætlunin er að sett verði ákvæði til að tryggja jafnrétti allra flokksmanna, sérstaklega við val frambjóðenda til opinberra starfa, t.d. við kosningar til Alþ. og við aðra ákvarðanatöku innan flokkanna.

3. Þá eru hér drög að lagaákvæðum um val frambjóðenda við alþingiskosningar sem er eitt meginhlutverk stjórnmálaflokkanna. Hér er ekki að þessu eða öðru leyti fjallað um annað en alþingiskosningar því að frv. fer viljandi ekki inn á svið forsetakosninga og sveitarstjórnarkosninga eða annarra kosninga.

4. Þá er gert ráð fyrir því að stjórnmálaflokkunum verði gert að skyldu að skrá sig hjá dómsmrn.

5. Gert er ráð fyrir að stjórnmálaflokkar eða önnur samtök, sem kunna að standa að framboðum lista í þingkosningum verði gerð bókhaldsskyld og þeim gert skylt að birta reikninga sina opinberlega.

6. Gert er ráð fyrir því að stjórnmálaflokkum verði veitt ýmiss konar bein og óbein aðstoð ríkisvaldsins við starfsemi þeirra. Er það réttlætt fyrst og fremst á þeim grundvelli að opinber aðstoð eigi að verða til þess að flokkarnir séu síður háðir fjárframlögum einstaklinga, stofnana eða fyrirtækja sem hugsanlegt er að vilji fá einhver áhríf fyrir það fé, sem þeir leggja fram.

7. Gert er ráð fyrir stofnun nýrra flokka, því að lýðræðislega er að sjálfsögðu óverjandi að setja lög sem hægt er að segja að festi núverandi flokkaskipan.

Þegar samið er frv. til l. um stjórnmálaflokka eins og hér hefur verið gert og í ljósi þeirrar gagnrýni sem haldið hefur verið uppi undanfarin ár, vakna ýmsar spurningar sem þarf að hugleiða í sambandi við slíka lagasetningu: Eru stjóramálaflokkar nauðsynlegir, og ef svo er, hvert er hlutverk þeirra í stjórnskipan lýðveldisins? Eru lýðræðislegar starfsaðferðir hafðar í heiðri innan flokkana, t.d. við val forustumanna og frambjóðenda til Alþingis, sveitarstjórna eða annarra ábyrgðarstarfa? Og loks það sem hvað mest er deilt um: hvar fá flokkarnir fé til að standa straum af dýrum rekstri og áróðri, ekki síst kostnaði við kosningabaráttu? Hvernig hafa flokkarnir farið að því að komast yfir stóreignir, sem vitað er að þeir eiga, t.d. húseignir? Hafa þeir notað völd sin í þágu þeirra sem lagt hafa þeim til fé? Geta þeir, sem hafa fjármuni á lausu í landi okkar, tryggt sér fyrir fjárgjafir einhvers konar opinbera fyrirgreiðslu? Þessum og fleiri slíkum spurningum verður að svara, og í þessum spurningum felst mikið af þeirri tortryggni gagnvart stjórnkerfinu og þá alveg sérstaklega Alþ. og stjórnmálaflokkunum sem mikið ber á og í raun og veru er að verða að hættulegri meinsemd í þjóðfélagi okkar. Þess vegna verður að taka tillit til þessarar gagnrýni og ræða í fullri alvöru hvort rétt er að gera einhverjar þær skipulagshreytingar á stjórnkerfinu sem gætu með tímanum eytt þessari gagnrýni og komið á trausti milli þjóðarinnar og forustumanna hennar, — trausti sem hverju bjóðfélagi hlýtur að vera nauðsynlegt að sé fyrir bendi.

Ég hygg að ekki þurfi að ræða frekar, hve nútímaþjóðfélögum er brýn þörf á því að hafa stjórnmálaflokka, ef ekki er um það að ræða að vopnaður her eða sérstaklega heilsteypt valdastétt sé fyrir hendi og geti stutt við ríkisstjórnir svo að þær geti stjórnað landi. Stjórnmálaflokkar eiga að vera tengiliðir milli valdhafa og fólksins. Þeir eina að halda uppi fræðslustarfsemi og upplýsingastarfsemi um opinber mál. Þeir eiga að verja ráðamenn og gagnrýna þá, veita þeim aðhald. Þeir eiga að velja fólk til framboða til endurnýjunar í valdastöðum, og halda saman stuðningshópum ríkisstj. og stjórnarandstöðu.

Þrátt fyrir þessi þýðingarmiklu verkefni stjórnmálaflokka er yfirleitt ekki minnst á þá einu orði í stjórnarskrám hinna eldri lýðræðisríkja og sárafá lönd hafa sett sérstök lög um flokkana. Þó hefur þetta verið að breytast á hinum síðari árum, og má segja að stjórnkerfin hafi verið að gangast við flokkunum, en lengi vel voru þeir eins konar feimnismál.

Þegar frjálsar kosningar komu til sögunnar varð að sjálfsögðu að setja ítarleg lög um það hvernig kosningar skyldu fara fram, og varð þá ekki komist hjá því að nefna stjórnmálaflokkana. Þannig er þessu varið hér á landi. Flokkarnir munu ekki vera nefndir í stjórnarskránni, en þeir koma mjög víða við sögu í kosningalögunum. Á hinum Norðurlöndunum er þetta eins og a.m.k. Noregur, Danmörk og Svíþjóð hafa tekið upp þá reglu að skylda stjórnmálaflokka til þess að láta skrá sig hjá hinu opinbera áður en þeir geta tekið þátt í framboðum til opinberra starfa.

Eftir síðari heimsstyrjöldina þurftu nokkur nágrannaríki okkar hér í Vestur-Evrópu að setja sér nýjar stjórnarskrár, og tóku þau flest, ef ekki öll, upp þann hátt að geta stjórnmálaflokkanna í sjálfum stjórnarskránum. Er þetta nýlunda. Þannig var það að vestur-þjóðverjar, sem sömdu nýja stjórnarskrá og afgreiddu hana 1949, settu inn ákvæði um að stjórnmálaflokkar stuðli að þróun hins pólitíska vilja fólksins og það skuli vera frjálst að stofna þá. Ítalir og frakkar hafa gert hið sama og selt stutt ákvæði í stjórnarskrána um flokkana. Hins vegar er mér aðeins kunnugt um eina þjóð sem hefur gengið skrefi lengra og sett sér ítarlega löggjöf um starfsemi stjórnmálaflokka, en það eru vestur-þjóðverjar. Var af augljósum ástæðum sérstök þörf á því fyrir þá að setja slíka löggjöf, þar eð sú þjóð þurfti að byggja upp lýðræðislegt flokkakerfi frá grunni að heita má eftir stjórnartímabil nasista og heimsófriðinn. Aðrar þjóðir hafa sumar hverjar sett lög um fjárhagslegan stuðning við stjórnmálaflokka, eins og t.d. hér og í Svíþjóð, eða þá flokkarnir hafa komið við sögu í ýmiss konar löggjöf sem varðar einstaka þætti þess starfs sem þeir taka þátt í.

Fróðlegt er að kynna sér þróun þessara mála í Svíþjóð. Þar var á árunum 1950–1951 mikið rætt um hvort setja ætli ítarleg lagaákvæði um stjórnmálaflokka eða ekki. Deilan snerist nálega eingöngu um hvort ástæða væri til að skylda alla þá, sem leggja fé til stjórnmálaflokka, til að skýra frá því opinberlega eða þá skylda flokkana til þess að veita opinberlega upplýsingar um það frá hverjum þeir hafi fengið fjárhagslegan stuðning og hve mikið frá hverjum. Þetta sama hefur verið deilumál í mörgum öðrum löndum. Í Svíþjóð varð niðurstaðan sú, að ekkert slíkt var lögfest. Komust svíar að þeirri niðurstöðu að það jaðraði við stjórnarskrárbrot að birta slíkar upplýsingar, vegna þess að stjórnarskráin tryggi einstaklingum rétt til þátttöku í leynilegum kosningum. Einnig komu fram þau sjónarmið að ef birtar væru upplýsingar, nöfn og upphæðir varðandi styrki ýmissa aðila til stjórnmálaflokka, þá mundu margir þessara aðila hætta slíkum stuðningi með öllu. Hins vegar væri rík ástæða til að ætla að einmitt þeir aðilar, sem telja má líklegt að ætli sér að fá eitthvað í aðra bönd fyrir fjárhagsstuðning við stjórnmálaflokka, einhvers konar fyrirgreiðslu, mundu verða manna líklegastir til þess að finna einhverja krókaleið til að koma fénu til flokkanna eða koma flokkunum að sambærilegu gagni og geta þannig heimtað þau hlunnindi sem þeir ætla sér að fá. Svíar komust því að þeirri niðurstöðu að birting á slíkum upplýsingum mundi aðeins verða til þess að þeir, sem gefa fé til stjórnmálaflokka af heiðarlegum áhuga og án þess að því fylgi nokkrar kvaðir, mundu hætta fjárgjöfunum, en hinir, sem gefa fé á vafasaman hátt, af því að þeir ætlast til greiða í staðinn, mundu sennilega halda iðju sinni áfram.

Svipuð hefur niðurstaðan orðið viðast hvar nema í Bandaríkjunum og e.t.v. öðrum ríkjum í Vesturheimi. Hvergi hefur fjármögnun á framboðum bæði einstaklinga og stjórnmálaflokka verið eins mikið vandamál og í Bandaríkjunum og er af því löng og mikil saga. En skemmst er þar frá að segja, að þar hefur verið farið inn á þá braut að krefjast þess að þeir, sem gefa fé til stjórnmálaflokka. geri það á opinberan hátt og það sé opinbert mál hverjir þeir eru.

Og nú fyrir ekki löngu hefur verið tekið upp það kerfi, að frambjóðendur, sem keppa um framboð flokkanna í forsetakosningum, geti fengið mótframlög frá ríkinu ef þeir sýni fram á að tiltekinn fjöldi einstaklinga hafi styrkt þá með smáframlögum. En þeir fá ekki mótframlög ef fyrirtæki t.d. veita þeim stórupphæðir. Það er raunar takmarkað mjög með lögum, hve miklar heimildir fyrirtæki hafa til slíkrar styrktarstarfsemi, og er þess skemmst að minnast að ýmsar slíkar upplýsingar vöktu athygli er þær komu fram í sambandi við Watergatehneykslið.

Hér á landi hafa stjórnmálaflokkar haldið uppi margvíslegri fjáröflun umfram það sem flokksfólk greiðir í félagsgjöld. Happdrætti og skemmtanahald hefur lengi verið notað meira eða minna í því skyni. Mest hygg ég þó að muni um fjárgjafir sem flokkarnir fá Frá ýmsum gefendum, og eru það vafalaust einstaklingar, fyrirtæki, samtök og e.t.v. fleiri aðilar sem hlut eiga að máli. Um þessa hlið er ekkert gert opinbert nema þegar upp kemst um einstök mál þar sem dregið er í efa að um eðlilega fjárstyrki hafi verið að ræða. Hér er komið að einu þýðingarmesta atriði í starfi stjórnmálaflokkanna, og hef ég í þessu frv. farið sömu leið og svíar og raunar allar aðrar Vestur-Evrópuþjóðir.

Ég hef ekki lagt til að gera það að skyldu að birtar verði upplýsingar um nöfn þeirra aðila sem styrkja stjórnmálaflokkana eða hve mikið flokkarnir fái frá þeim. Tel ég að rökstuðningur fyrir þessari niðurstöðu sé hinn sami sem kom fram í umr. um þetta í Svíþjóð, eins og ég lýsti rétt áðan. Hins vegar eru í þessu frv. sett mjög ströng ákv. um bókhaldsskyldu stjórnmálaflokkanna og um birtingu á reikningum þeirra. Tekið er fram að þessi skylda um bókhald og birtingu reikninga nái ekki aðeins til flokkanna sjálfra, heldur til hinna ýmsu flokkdeilda sem starfandi eru og hafa eitthvert fé umleikis, svo og til sjóða, stofnana, félaga og annarra aðila sem starfa í þágu stjórnmálaflokkanna eða eru nátengdir þeim. Hygg ég að kunnugir muni viðurkenna að það sé tilgangslaust að krefjast birtingar á reikningum stjórnmálaflokkanna hér á Íslandi ef hinir ýmsu aðilar, sem gegna einstökum hlutverkum á vegum flokkanna og í meiri eða minni tengslum við þá, verða ekki bundnir sömu skyldu. Það er ekkert óeðlilegt við það, þó að flokkarnir stofni sérstök félög, t.d. til þess að vinna að húsbyggingarmálum, til að vinna að happdrætti, til að vinna að fræðslustarfi og fleiri einstökum verkefnum. Í þessu getur falist dreifing á valdi og vinnu, sem er mjög eðlileg í stjórnmálaflokkum. En það ber að viðurkenna þessa skiptingu með því að fella reikninga allra slíkra aðila inn í heildarreikninga flokkanna.

Þá eru gerðar kröfur til þess að sérstakt reikningshald sé fyrir þingkosningar og væri auðvitað eðlilegt að setja sams konar ákvæði um bæjar- eða sveitarstjórnarkosningar, svo og að sérstakir reikningar fyrir kosningarnar verði birtir innan tiltekins tíma, eftir að kosningum lýkur. Kosningabaráttan er sérstaklega í smásjá og veldur oft margvíslegri tortryggni. Menn eru þá á ferð og flugi við að keppast um hylli kjósenda og er því sérstök ástæða til þess að hafa strangar reglur hér eins og rannar annars staðar um fjármál viðkomandi kosningabaráttunni.

Ég mun nú fara fljótt yfir greinar frv. og nefna meginatriðin sem fram eru sett í hverri fyrir sig.

Í 1. gr. eru tvö meginatriði. Fyrst er yfirlýsing um að fólki sé frjálst að mynda stjórnmálaflokka, og byggist sú yfirlýsing á almennu ákvæði í stjórnarskránni um að mönnum sé rétt að stofna með sér félög. Í öðru lagi er lýst meginhlutverki stjórnmálaflokka í stjórnskipun landsins, og eru þar talin þrjú atriði: að standa að framboðum í kosningum til opinberra starfa, að efla skoðanamyndun þjóðarinnar varðandi opinber mál og að hafa áhrif á framvindu þjóðmála. Sjálfsagt má tala langt mál um það hvert hlutverk stjórnmálaflokkanna sé og hvað telja beri hér upp. En í mörgu því, sem ég hef lesið um stjórnmálaflokka annars staðar, kemur fram að þessi meginatriði eru í flestum frjálsum löndum talin vera megineinkenni eða meginhlutverk stjórnmálaflokka.

Í 2. gr. eru tiltekin þrjú meginatriði sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að samtök manna geti talist stjórnmálaflokkur á Íslandi. Nefni ég þá fyrst að þetta þurfi að vera samtök íslenskra ríkisborgara. Erlendir ríkisborgarar, sem hér geta dvalist langdvölum, eiga ekki að koma við þá sögu. Í öðru lagi verður að gera þá grundvallarkröfu að slík samtök séu lýðræðisleg ef þau eigi að geta talist stjórnmálaflokkur, og er komið að því í seinni greinum að skilgreina hvað átt er við með því orði í þessu sambandi. Loks er tiltekið að samtök verði að bjóða fram í a.m.k. fjórum kjördæmum landsins til þess að teljast stjórnmálaflokkur. Um þetta má að sjálfsögðu deila, en ég vil benda á það grundvallarsjónarmið, að það er ekki æskilegt að hér rísi upp flokkar, sem eru staðbundnir, t.d. flokkar sem eiga allt sitt fylgi í aðeins einu kjördæmi, en það er mjög vel hugsanlegt miðað við allar aðstæður, heldur er nauðsynlegt að flokkarnir eigi fótfestu á fleiri stöðum á landinu. Tel ég því eðlilegt að krefjast þess að þeir hafi boðið fram í a.m.k. fjórum kjördæmum.

Í 3. gr. er ákvæði um að stjórnmálaflokkar skuli tilkynna dómsmrn. stofnun sina og störf, eins og frekar er mælt fyrir í síðari greinum. Hvers vegna er ástæða til þess að stjórnmálaflokkar láti skrá sig hjá opinberum aðila? Ég tel að sú nauðsyn mundi vera fyrir hendi ef sett væri heildarlöggjöf svipuð því sem hér er fjallað um, vegna þess að samkv. slíkri löggjöf hljóta flokkarnir ýmiss konar rétt og verða að taka á sig ýmiss konar skyldur, og til þess að flokkarnir hljóti þau hlunnindi sem af réttinum leiðir, þarf einhver opinber aðili að ganga úr skugga um að þeir gegni þeim skyldum sem á þá eru lagðar. Og það tel ég eðlilegast að sé dómsmrn. Ég hef valið það rn. vegna þess að það fjallar um kosningar samkv. þeim kosningalögum sem hér eru í gildi.

Í 4. gr. er fjallað um hvað þurfi að koma til skjalanna til þess að stjórnmálaflokkur geti talist hafa lýðræðislega skipan. Samkv. okkar stjórnarskrá kemur að sjálfsögðu ekki til greina að viðurkenna aðra stjórnmálaflokka en þá sem eru lýðræðislega upp byggðir, en til þess að sannreyna það er hér bent á sex atriði:

Í fyrsta lagi að flokkarnir séu opnir öllum landsmönnum sem ekki eru félagar í einhverjum öðrum stjórnmálasamtökum, hvar sem þeir eiga heima á landinu. Það ætti að vera augljóst að flokkar, sem hafa þröng inntökuskilyrði, geta ekki talist almennir stjórnmálaflokkar í lýðræðislandi.

Annað atriði: Allt flokksfólk skal eiga kost á því að kjósa með jöfnum atkvæðisrétti fulltrúa til þings eða landsfundar sem fer með æðsta vald innan flokksins. Hér er aðeins gerð sama krafa og er í stjórnkerfinu öllu varðandi þá sem kosningarrétt hafa, og ætti að vera augljóst að fólk, sem skipar sér í raðir stjórnmálaflokks, njóti þess hins sama réttar innan flokksins. Þó hygg ég að ef vandlega er skoðuð starfsemi stjórnmálaflokkanna á Íslandi nú og eins og hún hefur verið, þá mundu ýmsir verða til þess að draga í efa að allir einstakir flokksmenn hafi jafnan rétt að þessu leyti og er því full ástæða til þess að hafa slíkt ákvæði í grein sem þessari.

Í þriðja lagi er tekið fram að þing eða landsfundur flokks skuli setja honum lög, móta stefnu hans og kjósa æðstu stjórn hans. M.ö.o.: þessi stofnun, sem flokksfólkið á að velja sér með jöfnum atkvæðisrétti, fari með raunveruleg völd í flokknum.

Í fjórða lagi er sett það skilyrði að frambjóðendur flokks í hverju kjördæmi séu annaðhvort valdir í beinum kosningum af flokksfólki og þá e.t.v. óflokksbundnu fólki eða af fulltrúum kosnum af því. Fyrra atriðið, beinar kosningar, er prófkjör sem ýmsir íslensku flokkanna hafa reynt og þ. á m. hefur a.m.k. einn flokkur, Sjálfstfl., heimilað óflokksbundnu stuðningsfólki að taka þátt í slíkri kosningu, svo að hér er ekki um nýmæli að ræða. Þá segir í þessum lið að endanleg kosning frambjóðenda skuli vera leynileg. Þetta er því veigamikið atriði vegna þess að oft berjast flokksmenn hart um sæti á framboðslistum og ætti flokksfólk að njóta þeirra hlunninda að fá að velja frambjóðendur með leynilegri kosningu, en þurfi ekki að gera það með handauppréttingu eða á annan hátt fyrir augum þeirra manna sem keppa um þessi hlunnindi, en ákvörðun um framboð er varðandi mikinn hluta Alþingis raunverulega ákvörðun um það hverjir muni skipa þingið.

Í fimmta lagi eru ákvæði um að bæði lög flokksins, meginstefna hans og stefnumarkandi ákvarðanir verði birt opinberlega. Það er að sjálfsögðu óhugsandi að meginatriði eins og skipan flokksins og það,fyrir hverju hann berst, sé ekki opinbert mál. Ætti ekki að þurfa að taka slíkt fram, en þó er rétt að gera það að mínu áliti.

Síðasta atriðið varðandi lýðræðislega skipan stjórnmálaflokkanna er varðandi reikninga þeirra. Segir að þeir skuli bæði endurskoðaðir af kjörnum endurskoðendum og samþykktir af æðstu stjórnstofnun flokksins og birtir.

Þá er 5. gr. um skráningu stjórnmálaflokka hjá dómsmrn., eins og áður hefur verið getið. Þá þurfa nýir flokkar, sem ætla sér að bjóða fram, að sjálfsögðu einnig að láta skrá sig og er þá eðlilegt að þeir verði, ef þeir hafa ekki boðið fram áður og fylgi þeirra hefur þar af leiðandi aldrei verið sannreynt, að leggja fram einhvers konar lista yfir meðmælendur eða flokksfólk. Hér er aðeins gert ráð fyrir því að það sé jafnmargt um meðmælendur í fjórum kjördæmum til að hafa samræmi við áður umrætt ákvæði um það að flokkar skuli bjóða fram í minnst fjórum kjördæmum. Þetta eru þó aðeins um 500 manns ef framboðin eru utan Reykjavíkur, og má deila um hvort ekki á að setja strangari kröfur gagnvart nýjum flokkum. Í Noregi gildir sú regla að nýr flokkur verður að láta fylgja nöfn 1000 meðmælenda til að fá skráningu hjá innanríkisráðuneytinu þar. En einmitt þetta er nú til umr. í Noregi og hafa komið fram till. um að hækka töluna úr 1000 í 2–3 þús. Í Danmörku er þessi tala miklu hærri, miðuð við 1/175 af kjósendum á kjörskrá, en þm. eru þar 175 og mun þurfa 17–18 þús. meðmælendur til þess að nýr flokkur geti skráð síg í Danmörku. Ýmis fleiri ákvæði eru viða sett, flest þeirra til að torvelda stofnun nýrra flokka.

Það má að sjálfsögðu viðurkenna það sjónarmið að lýðræðisríki þurfi að tryggja að lýðræðiskerfi leiði til stjórnhæfrar ríkisstj. með því að torvelda á einhvern hátt óhóflega stofnun smáflokka. En slíkar takmarkanir mega ekki vera svo miklar að hægt sé að segja að með þeim sé gildandi flokkakerfi algerlega lögfest.

6. gr. fjallar um nafn stjórnmálaflokka og listabókstafi og þarf ekki frekari skýringa.

Í 7. gr. er frekar fjallað um jafnrétti flokksfólksins innan flokksins í öllum störfum og við töku ákvarðana flokksins. Þá eru þar ákvæði um að flokksfólkið megi aðeins hafa áhrif á val frambjóðenda í því kjördæmi þar sem það er sjálft á kjörskrá, og enn fremur ákvæði sem hindrar að flokksmaður geti haft áhrif á val frambjóðenda í fleiri en einu kjördæmi, en það mun vera vandalaust eða vandalítið, eins og flokkarnir eru nú uppbyggðir.

Ákvæði, sem vísa til hegningarlaganna, þýða það að ýmiss konar brot gegn því að kosningar fari fram á eðlilegan, frjálsan og lýðræðislegan hátt, sem eiga við alþingískosningar, skuli einnig geta átt við prófkjör ef það fer fram hjá flokkunum.

Í 8. gr. er eins konar barnavernd, því að hún kveður svo á að unglingar innan 16 ára aldurs eða sjálfræðisaldurs skuli ekki mega vera í félögum innan stjórnmálaflokkanna og flokkarnir megi ekki beina áróðri vísvitandi sérstaklega til barna og unglinga sem eru innan þessa aldurs. Þetta kann að verða umdeilt, því að viða halda stjórnmálaflokkar uppi barna- og unglingasamtökum. En ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög óeðlilegt að halda pólitískum skoðunum að börnum á unga aldri og það eigi að hlífa þeim við slíku fram að þeim aldri þegar þau byrja að læra um félagsmál og fá betri aðstöðu til þess að gera sér sjálfstæða grein fyrir þeim.

Í 9. gr. er fjallað um bókhaldsskylduna sem ég hef þegar gert að umræðuefni og er ekki ástæða til þess að ræða það atriði frekar.

Í 10. gr. er aðeins sagt að stjórnmálaflokkar séu skattfrjálsir og kemur að sjálfsögðu til greina að skilgreina það nánar. Auðvitað er ekki átt við það að þeir þurfi ekki að borga söluskatta og ýmis slík gjöld, en meginskattstofnar eiga ekki að ná til þeirra.

Í 11. og 12. gr. kemur að því hvaða hlunnindi stjórnmálaflokkarnir eigi að fá, ef þeir taka á sig þær skyldur, sem nú hefur verið lýst, og fylgja þeim kvöðum, sem fram koma í fyrstu níu greinunum. Fyrir utan skattfrelsið, sem getur verið mikils virði, er hér ákvæði um að stjórnmálaflokkar, sem uppfylla skilyrði þessara laga, skuli fá styrk úr ríkissjóði til starfseminnar þegar Alþ. veitir til þess fé á fjárlögum.

Ég vil benda mönnum á að það er ekki með þessu frv. beinlínis sagt að það skuli veita styrki á fjárl. til flokkanna, heldur að þeir skuli styrktir þegar Alþ. veitir til þess fé. Morgunblaðið skýrði frá þessu frv., og kom fram í þeirri frásögn að blaðið taldi að þessi grein um fjárhagsstyrk til stjórnmálaflokkanna mundi vafalaust vekja mesta athygli og verða umdeildust, og er það sennilega rétt. En ég vil taka það mjög skýrt fram, að ég hugsa þetta frv. sem heild og það er ekki ætlun mín að stjórnmálaflokkar fái opinbera fjárstyrki nema þeir gangist undir þær kvaðir, sem í þessu frv. koma fram, eða einhverjar sambærilegar. Og ég legg ríka áherslu á að þetta fylgist að, þess vegna hafði ég orðalagið í 11. gr. ekki sterkara en þar er. Kæmi hins vegar að því að samkomulag næðist um að setja einhverja slíka löggjöf, þá þyrfti að ræða hvort ekki er ástæða til þess að ákveða það með föstu orðalagi að Alþ. skuli veita fé til að styrkja stjórnmálaflokkana.

Þá eru hér settar upp nokkrar reglur um hvernig skipta eigi því fé sem kann að verða veitt til stjórnmálaflokka. Er sett fram sú meginregla sem fylgt er alls staðar þar sem ég þekki til. en hún er að flokkarnir fái styrk í beinu samræmi við þingstyrk sinn. Víðast hvar fer það eftir atkvæðatölu, en sums staðar þó, eins og í Svíþjóð, eftir þingmannatölu, og eru til um það ýmsar formúlur. Hér er lagt til að fylgja hreinlega atkvæðatölum. Þá er hér formúla um að hægt sé að dreifa þessum styrk á a.m.k. tvö ár fyrir kosningar, og er sú formúla, sem hér er fylgt, gerð eftir fyrirmynd sem er í þýsku lögunum og virðist vera góður grundvöllur til umr. hvað þetta atriði snertir. Enn er hér gert ráð fyrir því að nýr flokkur, sem ekki hefur boðið fram áður, njóti sama réttar og stjórnmálaflokkar hvað þetta snertir, og er hér formúla um hvernig hægt sé að veita slíkum flokki styrk til kosningabaráttu.

Hugmyndin um að opinberir aðilar, ríkissjóður eða héraðssjóðir, greiði beina styrki til stjórnmálaflokka er alls ekki ný af nálinni og verður engan veginn talin róttæk hugmynd, miðað við það sem nú þegar er gert í fjöldamörgum frjálsum löndum. Ég hygg að slíkir styrkir séu nú og hafi verið um árabil í allflestum löndum Vestur-Evrópu, a.m.k. Norðurlöndunum, Þýskalandi, Niðurlöndum og víðar, en í Bretlandi er nú opinber n. að kanna þetta mál, Þar hefur þó tíðkast alllengi að stjórnarandstöðuflokkur njóti sérstakra fjárhagshlunninda á þingi, og er hugmyndin á bak við það hin sama og liggur að baki öllu þessu máli, að skapa stjórnarandstöðuflokkunum svipaða baráttuaðstöðu sem stjórnarflokkar hafa.

Í Svíþjóð eru sérstök lög í gildi um opinberan styrk til stjórnmálaflokka. En slíkir styrkir eru einnig á hinum Norðurlöndunum. Í Noregi skiptast þeir t.d. á milli styrks frá ríkissjóði varðandi þingkosningar og styrkja frá héraðssjóðum. Í Þýskalandi er einnig um að ræða tvöfalt kerfi þar sem sambandsstjórnin greiðir stórfé í styrki til flokkanna, en sambandsríkin greiða einnig til þeirra styrki.

Nú er svo komið að þýsku flokkarnir, sem að sjálfsögðu eru stórfyrirtæki, fá rúmlega 1/3 af útgjöldum sínum beint frá ríkinu. Mér virðist, að ekki séu lengur ýkjamiklar umr. um grundvallaratriði þessa máls. Í Þýskalandi var gengið í gegnum alllanga þróun og reyndi ýmis atriði, t.d. að gera gjafir til flokkanna skattfrjálsar, en það var dæmt ógilt af stjórnarskrárréttinum í Karlsruhe, og fleira slíkt. Niðurstaðan varð sem sagt þessi, að taka upp kerfi allviðtækra fjárstyrkja til flokkanna. Þegar jafnvel bandaríkjamenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að slík opinber aðstoð sé eðlileg og nauðsynleg, þá er varla við því að búast að margir haldi uppi andstöðu gegn grundvallaratriðum þeirra hugmynda sem um er að ræða.

Ég hygg að engir haldi því fram að menn megi hafa mismunandi aðstöðu til áhrifa á stjórnmál eftir því hversu mikil fjárráð þeir hafa. Þvert á móti hygg ég að allir lýðræðissinnaðir flokkar hafi afneitað slíku kerfi, og það, sem ég hef rætt um í sambandi við fjáröflun stjórnmálaflokka, beinist allt að því að hlífa flokkunum við því að þurfa að leita eftir fjárstuðningi hjá hinum og þessum aðilum þjóðfélagsins og lenda þannig í þeirri hættu að kunna að þurfa að taka á sig einhverjar kvaðir til þess að fá það fé sem þeir telja sig þurfa, svo sem í kosningabaráttu.

Í 12. gr. eru talin upp ýmis hlunnindi sem opinberir aðilar á Íslandi ýmist veita nú þegar eða gætu hæglega veitt flokkunum og mundu teljast allverulegur styrkur. Landssími Íslands útvarpar yfirleitt frá fundum eða sérstökum útvarpsumr. úr kjördæmunum eftir ósk frambjóðenda, að sjálfsögðu með samþykki Ríkisútvarpsins. Þetta útvarp kostar stórfé, ekki síst í hinum viðlendu kjördæmum þar sem frambjóðendur hafa farið inn á þá leið að láta útvarpa 3–4 fundum. Jafnstór stofnun og Landssími Íslands ætti að geta veitt þessa þjónustu án þess að þurfa að knýja út úr peningalausum stjórnmálaflokkum stórfé fyrir það.

Ákvæði er um að Hagstofan veiti flokkunum endurgjaldslaust nokkur eintök af kjörskránni. Það mun hún þegar hafa gert þó að það sé talið hér upp.

Þá er gert ráð fyrir því, sem tíðkast í mörgum öðrum löndum, að fyrir alþingiskosningar skuli hver framboðslisti eiga rétt á því að senda endurgjaldslaust a.m.k. eitt bréf í pósti til hvers kjósanda í kjördæminu. Og einnig er gert ráð fyrir því að Landssími Íslands veiti framboðslistum ókeypis afnot af nokkrum símum í einn mánuð fyrir kosningar.

Að lokum eru hér ákvæði, sem snerta hugsanleg brot á þessum lögum. Er þar bæði vísað í önnur lög, hegningarlögin, eins og ég hef áður getið, og kafla í kosningalögunum þar sem rætt er um óleyfilegan kosningaáróður eða kosningaspjöll. Ef flokkur verður uppvís að því að brjóta þýðingarmikil atriði þessara laga, þá á að vera hægt að svipta hann öllum frekari stuðningi við þær kosningar og — ef um mjög alvarleg brot er að ræða — við næstu kosningar á eftir.

Ég hef nú gert lauslega grein fyrir þessu frv. Ég vil ítreka það sem ég sagði í upphafi, að líta ber á þetta frv. sem líð í þeim umr. sem fram hafa farið, bæði hér í þingsölum og í enn ríkara mæli utan þingsala, hér í þinginu og meðal stjórnmálaflokka svo og áhugamanna um stjórnmál. Þetta frv. hefur verið samið og er flutt í þeirri von að það muni færa umr. um þessi mál á raunhæfara stig, þannig að hægt sé að ræða einstök atriði, menn þurfi ekki að halda lengi áfram að ræða almenn atriði, heldur geti gert sér nákvæma grein fyrir því hvernig þau mundu líta út í framkvæmd. Ég er sannfærður um að verði sett lög eitthvað svipuð þessu frv., þá mundu þau opna stjórnmálaflokkana, tryggja lýðræðislega starfshætti þeirra og jafnrétti alls flokksfólksins. Slík lög ættu í framkvæmd að draga mjög úr tortryggni í garð stjórnmálaflokkanna og gera þá hæfari til þess að gegna hinu mikilvæga hlutverki þeirra í stjórnskipun lýðveldisins.

Herra forseti. Ég legg svo til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.