30.04.1976
Sameinað þing: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3389 í B-deild Alþingistíðinda. (2814)

Varamaður tekur þingsæti

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hér hljóðs utan dagskrár til þess að bera fram örstutta fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. Ég tel eðli þessarar fyrirspurnar vera þann veg farið, ef svar við henni fæst, að hún eigi erindi til alþm. allra og þá um leið þjóðarinnar allrar.

Svo sem kunnugt er hefur Alþýðusamband Íslands fyrir nokkrum dögum sent frá sér opinbera fregn varðandi síðustu kjarasamninga og þær verðlagsbreytingar sem síðan hafa átt sér stað. Það hefur ekki gerst áður að stjórn stærstu launþegasamtakanna á Íslandi teldi sig til þess knúða að koma slíkri yfirlýsingu eða upplýsingum á framfæri í því formi sem hér er nú gert. Eitthvað sérstakt hlýtur því að vera á ferðinni þegar þannig fer. Alþýðusambandið vekur athygli á því að frá því 1. febr. til 1. apríl hefur almennt verðlag hækkað um 7.3%. Alþýðusambandið staðhæfir að' aðeins 1.3% þessarar hækkunar megi rekja til kjarasamninganna 1. mars, en hvorki meira né minna en 6% til innlendra ástæðna.

Það, sem hlýtur því að vekja athygli og það sérstaka athygli í þessu sambandi, er að áður en kjarasamningarnir voru gerðir var samningsaðilum skýrt frá því hvernig starfsmenn Hagstofu Íslands og Þjóðhagsstofnunar mætu þær verðhækkanir sem í vændum væru. Ekki þarf að efa að dregið hefur á einn eða annan hátt úr þeim við þessar upplýsingar. En það, sem mesta athygli vekur í þessu sambandi, er að nú hefur reynst sýnt að verðhækkanirnar hafa verið meiri en upplýsingar fengust um meðan á samningaviðræðum stóð. Póstur og sími hafa hækkað um 24%, en við samningaborðið var tekið trúanlegt að engin hækkun yrði. Vænst var 15% hækkunar hitaveitu, en í reynd hefur hún orðið 27%. Áfengi og tóbak hækkuðu strax. Búvörur hækkuðu helmingi meira en búist var við í samningaviðræðum. Fullnægjandi skýringar þurfa því að fást á því hvernig slíkt hefur getað gerst. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki enn andmælt staðhæfingum Alþýðusambandsins, sem legið hafa á borðum alþm., þeirri fregn, sem það ber á okkar borð. Þá er spurningin sú: Má líta svo á að ríkisstj. hafi viðurkennt þær staðreyndir sem Alþýðusambandið leggur fram?

Hér er um svo mikilvægt atriði að ræða að nauðsynlegt er að ríkisstj. upplýsi í hverju þessi mismunur felst. Sé svo, að ríkisstj. viðurkenni umræddar upplýsingar Alþýðusambandsins sem nú í fyrsta sinni hefur í starfi hjá sér sérstaka sérfræðinga til að fjalla um þessi efni, þá er nauðsynlegt að alþjóð fái um það að vita og alþm. þá ekki síst. Ég ber því fram þessa fyrirspurn: Er ríkisstj. sammála upplýsingum Alþýðusambandsins um að hér hafi verið svikist aftan að verkalýðssamtökunum með þeim upplýsingum, sem þeim voru gefnar við samningaborðið, og miðað við þær staðreyndir, sem nú blasa við?