30.04.1976
Sameinað þing: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3392 í B-deild Alþingistíðinda. (2816)

Varamaður tekur þingsæti

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram, þá hefur það vakið athygli að Alþýðusamband Íslands hefur talið sig til þess knúið að gefa út sérstakan upplýsingabækling um þá þróun verðlagsmála sem átt hefur sér stað síðan síðustu kjarasamningar voru undirritaðir. Menn hljóta að velta því fyrir sér hvers vegna slíkt er gert, hvers vegna er ráðist í slíkt af alþýðusamtökunum. Það er augljóslega vegna þess að allt frá því að samningar voru gerðir hafa dunið á landslýð verðhækkanir, miklu meiri en upplýsingar voru um gefnar þeim aðilum, sem samningana gerðu, og verðhækkanir sem koma miklum mun fyrr en gert var ráð fyrir þegar þessir samningar voru gerðir, og ekki síður hitt, að allur áróður hæstv. ríkisstj. og málgagna hennar hefur einvörðungu beinst að því að láta líta svo út að orsaka þessarar verðlagsþróunar sé fyrst og fremst að leita til þeirra kjarasamninga sem gerðir voru. Þó held ég að allir, sem um þessi mál hafa fjallað, hafi verið nokkuð sammála um það að hér var samningum mjög í hóf stillt síðast þegar þeir voru gerðir. Það er því ekki að ástæðulausu að heildarsamtökin sjái ástæðu til þess að gera a.m.k. tilraun til að upplýsa það sanna í þessu máli, Verið er með slíkum áróðri sem beitt hefur verið að vega að rótum verkalýðsbaráttunnar, koma því inn hjá verkalýðshreyfingunni að tilgangslaus sé sú barátta, sem uppi er höfð með þessum hætti, og í raun og veru sé verr af stað farið en heima setið þegar slíkt liggi fyrir tiltölulega um leið og staðið er upp frá samningaborði. Og þetta er auðvitað mergurinn málsins.

Mér vitanlega hefur þessum upplýsingum Alþýðusambands Íslands um þróun verðlagsmála, frá því að samningar voru gerðir, hvergi verið mótmælt. A.m.k. hef ég ekki séð slíkt, og ég er ekki í neinum vafa um að niðurstöður þeirrar könnunar, sem Alþýðusambandið lét gera, eru réttar. Það er aðeins lítið brot af þeim verðhækkunum, sem átt hafa sér stað, sem hægt er að rekja til samningagerðarinnar, eins og segir í upplýsingabæklingnum aðeins 1.3% af 7.3% hækkun. Annað, eða um 6%, er vegna aðgerða stjórnvalda. Dettur nokkrum lífandi manni í hug að það sé aðeins tilviljun ein að svo stór hluti af þessum hækkunum verður rakinn til aðgerða stjórnvalda? Ég held ekki. Hér er augljóslega um að ræða skipulagðar hefndarráðstafanir þeirra afla innan stjórnarflokkanna sem vilja koma því á framfæri með einhverjum hætti að verkalýðsbarátta, eins og hún hefur verið háð, sé nú búin að renna sítt skeið og sé í raun og veru tilgangslaus.

En það eru ekki bara forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar sem standa undrandi frammi fyrir þessari þróun. Þar er einnig um að ræða forsvarsmenn vinnuveitendasamtakanna. Þeir standa einnig undrandi frammi fyrir því sem gerst hefur, miðað við þær upplýsingar sem þeir fengu í hendur þegar samningar voru gerðir. Ég minnist þess a.m.k. að formaður Vinnuveitendasambands Íslands hafði þau orð í sjónvarpsviðtali ekki alls fyrir löngu að hér væri um að ræða töluvert meiri verðhækkanir sem kæmu fyrr en þær upplýsingar, sem þeir höfðu í höndum þegar samningar voru gerðir, gerðu ráð fyrir. Ég held að það sé því augljóst mál að hér er vitandi vits staðið að þessu máli með þeim hætti sem nú hefur sýnt sig, og það er enginn vafi á því að bæði þm. og almenningur í landinu bíður eftir því að heyra svör hæstv. ríkisstj. við þessu.

Mér dettur ekki í hug að halda, eins og ég sagði áðan, að það sé um annað að ræða heldur en hér séu réttar upplýsingar á ferðinni af hálfu verkalýðssamtakanna. Og ég eins og aðrir bíð eftir því í ofvæni að vita hver svör eða rök hæstv. ríkisstj. kunna að verða við þessari þróun, með hliðsjón af því sem áður hefur verið upplýst og staðið var að að meira eða minna leyti í samhengi við þær upplýsingar og spár sem fyrir lágu frá hendi þeirra aðila sem um þau mál fjölluðu þegar gengið var frá kjarasamningum. Ég vænti þess, að hæstv. forsrh. geti hér gefið þær upplýsingar sem a.m.k. menn taka að svo stöddu máli trúanlegar En ég er ekki í neinum vafa um að það verður á engan hátt hrakið, það meginefni sem þessi upplýsingabæklingur Alþýðusambands Íslands inniheldur. Þetta eru að mínu viti þær staðreyndir sem við blasa, og orsaka þeirra er að leita til óvinveittrar stefnu hæstv. ríkisstj. í garð verkalýðshreyfingarinnar.