30.04.1976
Sameinað þing: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3394 í B-deild Alþingistíðinda. (2817)

Varamaður tekur þingsæti

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Vitnað er til þess af ræðumönnum að það hafi ekki gerst áður að Alþýðusamband Íslands telji sig knúið til að koma upplýsingum á framfæri sem þeim er það hefur gert með útgáfu bæklings þess er útbýtt hefur verið á borð þm. Ég skal ekkert um það segja. Ég vil aðeins taka það fram og ætla mér ekki að standa í deilum við Alþýðusamband Íslands eða forsvarsmenn þess, að í mínum huga býr enginn efi um að Alþýðusamband Íslands hefði getað komið þessum upplýsingum á framfæri í fjölmiðlum landsins, bæði blöðum, tímaritum og ríkisútvarpi, hljóðvarpi og sjónvarpi, meðlimum sínum að kostnaðarlausu. Það er því fremur gagnrýnisvert að það eyðir fjármunum sínum í útgáfustarfsemi sem þessa. Það mætti líkja því við það að ríkisstj. gæfi út bækling sem fæli í sér gagnrýni á stjórnarandstöðuna. Ég held að það yrði gagnrýnt hér af stjórnarandstöðunni og talið að ríkisstj. ætti ekki að verja fjármunum almennings í þessu skyni. Innan Alþýðusambands Íslands eru áreiðanlega margir sem telja slíka bæklingsútgáfu ekki eiga rétt á sér kostnaðarins vegna. En látum slíkt vera og látum það liggja milli hluta. Það er málefni samtakanna sjálfra og þeirra sem í þeim eru, og skal ég láta það kyrrt liggja.

En efnislega er hér spurt af hv. þm. hvort ríkisstj. viðurkenni þær staðreyndir sem Alþýðusamband Íslands leggur hér á borðið, eins og hv. 4. landsk. þm. komst að orði. Ég tel að hér sé ekki um staðreyndir að ræða. Hér er um að ræða ályktanir af upplýsingum, og þær eru byggðar á forsendum sem orka tvímælis og leggja má út af með mismunandi hætti. Því er slegið föstu að verðhækkanir fyrstu tvo mánuðina hafi verið 7.3%, og það er nærri sanni. Því er slegið föstu að af þeim verðhækkunum eigi nýgerðir kjarasamningar eingöngu þátt í 1.3%. Ég vil gera þá aths. við þá staðhæfingu, að það sé mjög erfitt að greina ljóslega á milli hvaða þátt nýgerðir kjarasamningar eigi í þessum verðhækkunum og hvað ekki. Ég held, almennt talað, að það sé erfitt að skilgreina nákvæmlega hvaða orsakir liggja til verðhækkana, aðskilja kaupþáttinn alveg frá öðrum verðhækkunarástæðum, því að kaupþátturinn kemur fram með margvíslegum hætti, bæði beinum og óbeinum, og a.m.k. er þarna ekki rætt um þann óbeina þátt.

Til viðbótar þessu er hér byggt á því að nýgerðir kjarasamningar hafi eingöngu haft í för með sér 6% kauphækkun. Það er fjarri sanni. Í hinum fjölmennustu launþegahópum var fyrsti áfangi kauphækkananna 10%, og til viðbótar kom það, að gengið var til móts við ýmsar sérkröfur sem auðvitað höfðu til kostnaðarhækkun í för með sér og þar af leiðandi verðhækkunaráhrif. Enn fremur er þess að geta, að þarna er einnig um hækkanir að ræða af völdum fyrri kauphækkana, eins og t.d. 3% kauphækkunar 1. okt. s.l., 0.6% kauphækkunar 1. des. s.l., þótt ekki sé farið lengra aftur í tímann. Það er kunnara en frá þurfi að segja að eftir að búið var að sitja á hækkunarástæðum og tilkostnaðarhækkunum, eins og kauphækkanir óneitanlega eru oftast, verður ekki á móti þeim staðið þegar ný tilefni gefast.

Þá er hér sagt að starfsmenn Hagstofu og Þjóðhagsstofnunar hafi metið, hvaða verðhækkanir væru fram undan, og verðhækkanir hafi í reynd orðið mun meiri en hæstu spár gerðu ráð fyrir. Það er rétt, að fulltrúar þessara stofnana, einkum hagstofustjóri og hagrannsóknastjóri, mátu líklega verðlagsþróun á árinu og ræddu hana við fulltrúa aðila vinnumarkaðarins. Í því sambandi er rétt að skoða, hverju munar á þeim upplýsingum og raunveruleikanum, eins og hann er fyrirsjáanlegur.

Eins og kunnugt er voru sett svokölluð rauð strik í kjarasamningana, og eins og kom fram hjá einum hv. ræðumanni áðan, var gert ráð fyrir verðhækkunum, miðað víð hvernig rauðu strikin voru sett, sem námu 10% fram til 1. júní n.k. Það er líklegt, eins og nú horfa sakir, að það verði farið um eða yfir 2 prósentustig í þeirri áætlun, þ.e.a.s. það, sem skeikar þarna, er að í staðinn fyrir 10% verðhækkun á þessu tímabili komi 12–13% verðhækkun. Þannig hafa verðhækkanirnar orðið meiri en gert var ráð fyrir að þessu leyti, en skakkar þó ekki meiru en raun ber vitni.

Ég vil þessu næst víkja að því að ríkisstj. er sökuð um að gefa embættismönnum sínum rangar forsendur. Ég vil mótmæla þessu alfarið, bæði fyrir hönd ríkisstj. og eins fyrir hönd þeirra grandvöru og góðu embættismanna sem þarna eiga hlut að máli, hagstofustjóra og hagrannsóknastjóra, vegna þess að hér er um að ræða stofnanir og embættismenn sem eiga sjálfstætt að meta forsendur og starfa sjálfstætt að þessu leyti, án fyrirmæla eða leiðbeininga frá ríkisstj. Báðir embættismennirnir byggja áætlanir sinar á þeim forsendum sem þeir sjálfir setja sér, og að væna þá um annað er ekki réttmætt, fullkomlega ósanngjarnt og á sér ekki stað í raunveruleikanum. Þar með er líka fallið brott að ríkisstj. hafi gefið embættismönnum sínum rangar forsendur.

Ég vil til viðbótar þessu taka fram, að bæði hafa þessir embættismenn svo og fulltrúar aðila vinnumarkaðarins tjáð mér að þessar verðlagsáætlanir hafi verið settar fram og ræddar með öllum fyrirvörum. Það var meira að segja ekki talað um áætlanir um verðhækkanir á árinu, það var jafnvel ekki talað um spár um verðhækkanir á árinu, heldur var talað um ágiskun. Ástæðurnar fyrir þessu voru hve mikil óvissa ríkti í þessum málum og ýmis gögn og forsendur til þess að byggja á hugmyndir um líklega þróun þessara mála voru óljósar og gátu ekki öðruvísi verið á þeim tíma sem þessar umr. fóru fram. Þegar af þeirri ástæðu að verðlagshækkanirnar eru þó væntanlega ekki nema rúmlega 2 prósentustigum hærri en þau 10%, sem ráð var fyrir gert, og vegna þeirrar óvissu sem ríkti í þessum málum, þá er ekki tilefni til þess fjaðrafoks sem hv. ræðumenn hafa efnt til hér í sölum Alþ. og reyndar hefur verið gerð tilraun til utan Alþ. einnig.

Þá er hér rætt um einstakar hækkanir fyrirtækja og þá ekki síst opinberra fyrirtækja. Ég vil gjarnan gera grein fyrir þeim í eins stuttu máli og unnt er. Eitt af þeim fyrirtækjum, sem hér er rætt um, er Hitaveita Reykjavíkur sem hafði hækkað gjaldskrá um 27%, en gert hafði verið ráð fyrir 15–20% hækkun þegar kjarasamningarnir stóðu yfir. Þá lá fyrir beiðni frá Hitaveitu Reykjavíkur um 15+16% eða rúmlega 30% hækkun, og raunar lá í loftinu, að þetta væri beiðni um 40 eða yfir 40% hækkun á hitaveitugjöldum. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti beiðni þar að lútandi, en ríkisstj. féllst á 25% hækkun. Og vegna hvers féllst ríkisstj. á 25% hækkun? Vegna þess að m.a. nágrannasveitarfélög Reykjavíkurborgar beindu tilmælum og áskorunum sínum til ríkisstj. um að veita alfarið umbeðna hækkun vegna þess að ella mundu Hitaveituframkvæmdir tefjast og bar með mundu margar þúsundir manna ekki verða aðnjótandi þeirra gæða að greiða innan við 30% fyrir kyndingu á híbýlum sínum, miðað við það sem þeir greiða nú. Í því er fólgin kjarabót fyrir umræddar margar þúsundir manna sem ríkisstj. vildi ekki af þeim taka. Til viðbótar liggja þær upplýsingar fyrir varðandi Hitaveituna, að ef umbeðin hækkun yrði ekki veitt núna og markaðurinn þar með stækkaður og stofnkostnaði dreift á fleiri herðar, þá mundu einnig þeir, sem nú njóta Hitaveitunnar, verða að sæta því að borga meira fyrir heita vatnið og kyndingu híbýla sinna eftir sem áður. Ríkisstj. samþykkti þetta þess vegna til þess að koma í veg fyrir kjaraskerðingu ótalinna þúsunda manna hér á höfuðborgarsvæðinu.

Næst er til að taka að fundið er að því að hljóðvarp og sjónvarp hafi hækkað um 31% og strætisvagnafargjöld hafi hækkað um 25%. Ég held að það hafi verið gert ráð fyrir allverulegri hækkun í verðlagsspám í báðum tilvikum og jafnvel meiri hækkun en 25% hvað strætisvagna áhrærir, í spám Hagstofu og Þjóðhagsstofnunar. Mig minnir að það hafi verið 35%. En ríkisstj. féllst ekki nema á 25% hvað strætisvagnana snertir, og í stað yfir 40% hækkunar sem sjónvarp og hljóðvarp fór fram á samþykkti ríkisstj. sem svaraði 30 eða 31% hækkun. Gjaldskrár þessara opinberu fyrirtækja voru síðast hreyfðar fyrir ári eða um það bil, 1. mars 1975. Frá þeim tíma hefur Dagsbrúnarkaup hækkað um milli 25 og 30% áður en til nýgerðra kjarasamninga kom, þannig að í þessum hækkunum eiga þátt aðrar kauphækkanir en felast í nýgerðum kjarasamningum. Og til viðbótar má nefna að olíukostnaður strætisvagnanna t.d. hefur hækkað um 50% frá því í apríl 1975 eða frá því að síðasta hækkun átti sér stað, þ.e.a.s. þegar kaup hækkar um 35–10% og eldsneytiskostnaður um 50%, þá hækka fargjöldin um 25%. Það er sagt, að Póstur og sími hækki um 24% og hafi ekla verið gert ráð fyrir þeirri hækkun, og það er rétt. Síðasta hækkun Pósts og síma var s.l. haust, og það var von ríkisstj. að þurfa ekki að hreyfa þá gjaldskrá nema tiltölulega lítið. En hér er sérstakt vandamál á ferðinni, nefnilega það að á undanförnum árum hefur Póstur og sími ekki fengið gjaldskrárhækkanir til þess að standa undir rekstrarkostnaði og fjárfestingum sem m.a. alþm. hafa viljað að þessi stofnun legði út í. Af því hefur leitt að þessi stofnun hefur gripið til fjármagns sem felst í orlofsgreiðslum sem hún hefur í vörslu sinni, en á að standa skil á þegar til útborgunar orlofsfjár kemur. Þetta var óviðunandi ástand, að einhver vafi lægi á því að unnt væri að greiða út orlofsfé á tilsettum tíma. Þess vegna tók ríkisstj. þá afstöðu að semja við Seðlabankann um lánsfjárútvegun til handa Pósti og síma allt að 1000 millj. kr. til þess að hafa þetta orlofsfé í sérstökum sjóði og ávallt tiltækt, en gerandi ráð fyrir því að Póstur og sími endurgreiddi þetta lán á nokkrum árum, að því er mig minnir 4–5 árum. Til þess þurfti Póstur og sími á þessari hækkun að halda, og því er þetta hækkunartilefni samansafnað á mörgum árum.

Þá er loks rætt um hækkun búvöru. Ég vil gjarnan gera grein fyrir því hér varðandi hækkanir búvara, að ekki hefur verið um að ræða hækkanir á verðlagsgrundvelli, sem fram koma í útsöluverði, frá því s.l. haust. En frá hausti og til loka marsmánaðar eru hækkunartilefnin hlutfallslega þessi, að launaliðurinn er orsök að tæpum 70% af hækkun á grundvallarverði, en hækkun á fóðurbæti og öðrum aðföngum til búrekstrar er tilefni til rúmlega 30% hækkunar grundvallarverðsins. Hér er rétt að fram komi í sambandi við síðustu hækkun, ef við ræðum sérstaklega t.d. mjólkina, þá er launaliðurinn um það bil 30% tilefni af hækkuninni, fóðurbætirinn og annað um 12–13% og niðurgreiðslulækkun úr ríkissjóði um 30%. Aðilum vinnumarkaðarins var gerð grein fyrir því að ríkisstj. hygðist lækka niðurgreiðslur á búvörum og fór það ekki heldur á milli mála gagnvart alþm. við undirbúning fjárlaga. Til viðbótar þessum hækkunartilefnum er rétt að það komi fram, að hækkun á vinnslu- og dreifingarkostnaði nemur um 34%, en til frádráttar kemur að niður er fellt launajöfnunarálag, 5% á launalið, og fáum við þá 100 út frá þessari samlagningu og frádrætti.

Það er rétt að hækkun á vinnslu- og dreifingarkostnaði var hærri en ráð var fyrir gert og sömuleiðis hækkun á fóðurbætinum, og veldur það þeim mismun sem varð á áætlunum um hækkun búvöru og því sem í raun varð.

Í sambandi við búvöruverð vil ég að tvennt komi fram: annars vegar það, að Alþýðusamband Íslands tók fyrir mörgum árum þá ákvörðun að draga til baka fulltrúa sinn í sexmannanefnd og í stað hans var skipaður annar ágætur maður sem ég dreg ekki í efa að hafi ávallt í starfi sínu borið mjög fyrir brjósti hag launþega og meðlima Alþýðusambands Íslands. En engu að síður hef ég oftsinnis fært í tal við forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands að ég harmaði það mjög að þeir skipuðu ekki að nýju fulltrúa í sexmannanefnd, þannig að þeir gætu fylgst með frá fyrstu hendi, hvernig að verðlagningu væri staðið, og staðið á móti eða gert ágreining þegar hækkun væri af tilefni sem ekki hefði við rök að styðjast. Því miður hefur Alþýðusamband Íslands ekki séð sér fært að skipa þennan fulltrúa. En þrátt fyrir allt hygg ég að það hefði verið mjög gagnlegt bæði fyrir Alþýðusambandið og meðlimi þess svo og almennt fyrir neytendur og reyndar bændur og framleiðendur líka að Alþýðusambandið hefði fylgst nákvæmlega með starfi sexmannanefndar, þótt ég viti það og geri mér grein fyrir að starfi þeirrar n. eru skorður settar vegna ákveðinna starfsreglna sem sú n. verður að taka tillit til og m.a. viðurkenna ákveðin hækkunartilefni: útsöluverði landbúnaðarvara.

Hitt atriðið, sem ég vildi nefna í þessu sambandi, er að ríkisstj. hefur ákveðið og landbrh. mun þessa dagana vera að ganga frá nefndarskipun sem á að fjalla um endurskoðun á verðlagi landbúnaðarvara. Í þá n. hefur Alþýðusamband Íslands m.a. tilnefnt fulltrúa, og við skulum vona að starf þeirrar n. beri árangur og m. a. þann að eyða tortryggni á milli framleiðenda og neytenda og endurbæta verðlagskerfi landbúnaðarvara, gera það einfaldara og auðskildara en það nú er öllum almenningi.

Hv. 7. þm. Reykv. taldi, að markmið síðustu kjarasamninga hefði verið að halda óbreyttum þeim meðalkaupmætti sem var á s l. ári, og vitnaði til þess, að það væri það sem fram hefði komið í stefnuræðu minni í okt. s.l. Ef ég rifja það upp, þá var það, hygg ég, í stuttu máli á þá leið að ríkisstj. legði áherslu á að vernda þann kaupmátt sem þá væri til staðar, þ.e.a.s. á síðasta ársfjórðungi síðasta árs, og því miður mun hann hafa verið heldur lægri en meðalkaupmáttur ársins í heild, þó þannig, að lögð væri áhersla á það í kjarasamningum að fara hægara í kauphækkanir fyrst á samningstímabilinu og reyna að vinna síðan upp kaupmáttinn síðar á samningstímabilinu. Fyrir þetta hlaut ég gagnrýni hér í ræðum stjórnarandstæðinga. En þetta var sagt með tilliti til þess að með þeim hætti væri betur unnt að vinna gegn verðbólgunni. Ég segi þetta ekki vegna þess að ég hafi út af fyrir sig áfellst verkalýðsfélögin fyrir nýgerða kjarasamninga, og sannast best að segja kannast ég ekki við að af ríkisstj. hálfu hafi með einum eða neinum hætti verið gerð árás á verkalýðsfélögin vegna þeirra kjarasamninga eða uppi hafður áróður gegn þeim, eins og hv. þm. komst því miður að orði. Hitt er annað mál, að einmitt þetta, að kauphækkanirnar voru í hærra lagi fyrst á samningstímanum fremur en síðast á honum, er til þess fallið að verðlagshreyfingarnar eru meiri fyrri hluta samningstímabilsins en seinni hluta hans. Og ég er nú svo bjartsýnn, þótt sú bjartsýni sé með öllum fyrirvörum, að lita svo á að von sé til að að svo miklu leyti sem verðhækkanirnar hafi verið meiri fyrri hluta samningstímabilsins en ráð var fyrir gert, þá verði það unnið upp með minni verðhækkunum á seinni hluta samningstímabilsins.

Það er alveg rétt, sem hv. 7. þm. Reykv. ræddi um, að af allra hálfu hafi í raun og veru verið lögð á það áhersla og það sett fram sem æskilegt markmið, að samningar gætu verið til langs tíma, og minnti hann í því sambandi á samningana í febr. 1974 sem hefðu ekki verið nema 7 mánaða gamlir þegar verkalýðsfélögin töldu sig til knúin að þeim yrði sagt upp. Þetta er rétt frá skýrt, og reyndar vildi ég við það bæta, að þeir voru ekki einu sinni 7 mánaða gamlir, heldur var það strax eftir tvo mánuði að það þurfti að taka vísitöluuppbæturnar úr sambandi vegna verðlagsþróunar. Ég rifja þetta upp í því skyni að við sameinumst nú um það, öll þjóðfélagsöfl, að sjá svo um að sagan endurtaki sig ekki og það verði unnt að fóta sig á grundvelli núverandi kjarasamninga til áframhaldandi baráttu gegn verðbólgu. Það er að vísu svo að í stað þeirrar 15–17% verðhækkunar, sem spáð var, þá má búast við að verðhækkanir frá ársbyrjun 1976 til ársloka verði milli 22 og 25%. En þótt við náum ekki því markmiði að komast niður í verðbólguvöxt sem nemi um það bil 15%, sem raunar er of mikið miðað við nágrannalönd okkar, þá skulum við ekki missa sjónar af takmarkinu og minnast þó þess að árið 1974 var verðbólguvöxturinn frá ársbyrjun til ársloka um 53%, árið 1975 frá ársbyrjun til ársloka 37%, og nú skulum við reyna að halda honum sem lægstum og alla vega ekki meiri en nemur þeim spám sem nú liggja fyrir, 22–25%.

Ég vil taka vara við því, ef menn álíta að stjórnvöld geti í rann og veru til lengdar stjórnað verðlagi í landinu. Ef við lítum á hina ýmsu vöruflokka og hvaða áhrif verðlag þeirra hefur á heildarverðlag í landinu, þá er það svo að verðlag búvöru mun eiga um 40% þátt í almennu verðlagi og verðlag annarra almennra neysluvara um önnur 40% og verðlag opinberrar þjónustu um 20%.

Ég er þeirrar skoðunar hvað verðlag opinberrar þjónustu snertir að því sé best fyrir komið í höndum þeirra stjórnvalda sem þar um fjalla, og þá á ég við að sveitarstjórnir eigi að bera ábyrgð á verðlagi sinna fyrirtækja og standa reikningsskap gerða sinna gagnvart kjósendum sínum, þegar til kosninga kemur, fyrir þá stjórn. Með sama hætti á ríkisvaldið að standa gagnvart ríkisfyrirtækjum. Í þessum efnum er að vísu við vandamál að glíma, vegna þess að í alflestum tilvikum er hér um að ræða fyrirtæki sem ekki verða að sæta samkeppni nema með óbeinum hætti og þess vegna fæst ekki eins og skyldi mælikvarði á hagkvæmni í stjórn þeirra. Úr þessu hefur verið reynt að bæta í mörgum tilvikum með skipun stjórnarnefnda viðkomandi stofnana. En það er ekki algilt að það hafi haft bætt áhrif, heldur hafa þessar stjórnarnefndir á stundum talið það sitt sérstaka hlutverk að gerast málsvarar viðkomandi fyrirtækja og berjast fyrir verðhækkunum og tekjuhækkunum þeim til handa. Það er út af fyrir sig skiljanlegt. Í opinberum rekstri þurfum við auðvitað að beita meira aðhaldi og meiri sparnaði, en í raun og þegar til lengdar lætur verður hver stofnun að bera ábyrgð á sínum málum og hljóta gagnrýni fyrir. bæði vegna gjaldtöku og þjónustu.

Hvað snertir búvöruverðlag, þá hef ég þegar sagt frá því að fyrirkomulag þeirra mála væri í endurskoðun og skal því ekki fjölyrða um það frekar. Það er viðkvæmt mál, en engu að síður er nauðsynlegt að takast á við lausn þess og gera það skýrara, greinilegra og einfaldara í framkvæmd og um leið að fá fram skilyrði til þess að búrekstur verði ávallt rekinn með hagkvæmara móti, bæði framleiðendum, bændum sjálfum, til hagsbóta og neytendum um leið.

Hvað þriðja þáttinn snertir, hið almenna verðlag, þá vil ég vekja athygli á því, að þótt e.t.v. skorti að einhverju leyti á tilskilda og nauðsynlega samkeppni á því sviði, þá er ég í engum vafa um að frjáls samkeppni tryggir lægsta vöruverðið neytendum til handa, og í því sambandi hygg ég að framtíðarmarkmiðið eigi að vera að afnema ákveðin verðlagsákvæði, þótt verðlagseftirlit haldist, og bendi á það að verðlagsstjóri hefur t.d. tekið upp könnun á vöruverði í verslunum í Reykjavík og veitt verslunareigendum og atvinnurekendum þannig aðhald, en ekki síst neytendum mikilvægar upplýsingar sem eru til þess fallnar að efla verðskyn almennings. Á grundvelli slíkra kannana og verðlagseftirlits tel ég að frjáls samkeppni tryggi best lægst vöruverð neytendum til handa. Hér er verkefni sem liggur fyrir stjórnvöldum að fjalla um á næstunni.

Ég vil svo aðeins segja bað, að auðvitað getur aukin krónutala kaups ekki haft í för með sér aukinn kaupmátt nema um sé að ræða aukna framleiðni innanlands, sem t.d. er fólgin í meiri afla eða aukinni hagkvæmni í vinnubrögðum, og á stundum geta kaupkröfur verkalýðsfélaga einmitt verið til þess fallnar að skapa atvinnurekendum aðhald í því að ná fram aukinni hagkvæmni. En ef þess er ekki gætt að kauphækkunin sé í samræmi við aukna framleiðni og hagkvæmni, þá er ekki von til þess að kaupmáttur aukist, nema að viðskiptakjör landsins út á við batni, þ.e.a.s. verðlag útflutningsafurða hækki eða innflutningsvara lækki. Ef þessi skilyrði eru ekki fyrir hendi, þá hljóta kauphækkanir að koma út í verðlagið í einu eða öðru formi.

Það er að vísu eitt sem ég hef ekki getið um, og það er að unnt sé að taka kauphækkanir af gróða atvinnuveganna og atvinnufyrirtækjanna. Stundum er því svo farið. En við gerð síðustu kjarasamninga held ég að báðir og allir aðilar vinnumarkaðarins hafi gert sér grein fyrir því að því var þá ekki til að dreifa. Um það ber vitni ein höfuðkrafa, sem báðir þessir aðilar settu fram, um aukið lánsfé til atvinnuveganna og lægri vexti. Þessi krafa er eðlileg frá sjónarmiði vinnuveitenda á öllum tímum, vegna þess að auðvitað vilja vinnuveitendur og atvinnufyrirtæki fá aukið lánsfé og greiða lægri vexti fyrir það. Einhverjir hefðu einhvern tíma sagt að þarna væri verið að reka erindi skuldakónga. En frá sjónarmiði verkalýðsfélaga er þessi ósk ekki eðlileg nema undir þeim kringumstæðum að það sé viðurkennt af þeim að það sé enginn gróði, engar fyrningar í vörslu atvinnufyrirtækja til að greiða hærra kaupgjald. Nú er um að það ræða að við höfum á allra síðustu vikum, sem betur fer, fengið fréttir um og raunar fengið í okkar hlut hærra verð fyrir okkar útflutningsafurðir margar eða jafnvel flestar hverjar, og því er von til þess að atvinnuvegirnir geti betur borið þær kauphækkanir, sem um var samið, en ella og minni tilfærslu þurfi til atvinnuveganna en ella, annaðhvort í formi skatta á almenning og uppbóta til atvinnuveganna eða þá einhvers konar gengissigi. En á móti kemur að við höfum orðið fyrir aflabresti og þurfum að takmarka fiskveiðar okkar, og þess vegna skiptir nú mestu máli að við leitum allra úrræða til þess að finna nýjar leiðir til þess að veiða fisktegundir sem ekki eru í hættu. Um það munum við væntanlega ræða nánar næstu daga.

Herra forseti. Ég hef gerst nokkuð langorður, enda voru það þrír hv. þm. sem kvöddu sér hljóðs og báru fram nokkrar spurningar sem ég vona, þó að þær hafi e.t.v. ekki verið allar jafnskýrt orðaðar, að ég hafi í höfuðatriðum svarað með orðum mínum.