30.04.1976
Sameinað þing: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3413 í B-deild Alþingistíðinda. (2821)

Varamaður tekur þingsæti

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hygg að við stjórnarandstæðingar höfum ekki talað þennan fundartíma meira en góðu hófi gegnir, en ég skal verða við óskum forseta um að vera ekki langorður. Ég hygg að það hafi verið heldur stjórnarliðarnir og þá sér í lagi ráðh., hæstv. forsrh. og viðskrh., sem til þessa hafa haldið hér lengstar ræður. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. afsökunar á því, ég nefndi hvorki stjórn né stjórnarandstæðinga í þessu efni, það á jafnt við alla).

Ég vil hefja mál mitt með því að þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans, en að meginefni voru þau að andmæla þeim fullyrðingum og ég álít staðreyndum sem fram koma í bæklingi Alþýðusambands Íslands um mun örari verðlagshækkanir, sem orðið hafa á þessum stutta tíma, heldur en gert var ráð fyrir og, verkalýðsfélögunum var sagt meðan á samningum stóð.

Hæstv. forsrh. reyndi í ræðu sinni að hrekja þær staðreyndir sem þarna eru fram færðar. Ekkert af þessu tókst honum. Þær standa því enn óhraktar. Svo bættist ofan á að hæstv. viðskrh. kom upp á eftir, viðurkenndi meginefni þessa bæklings og sagði að það kynni að vera satt sem þar stæði.

Þetta álít ég vera meginefni þessa máls, en ekki hitt, hvað við kemur áskorunum hæstv. ráðh. um að allir hljóti að vera sammála um að berjast gegn verðbólgu. Að sjálfsögðu eru allir sammála um bað. En það sýnir sig að þeir, sem fyrst bregðast í þeirri baráttu, eru aðaláskorendur um að aðrir standi sig, þ.e. hæstv. ríkisstj Það er hún sem bregst. Það er hún sem ríður á vaðið með allar aðalverðhækkanir sem átt hafa sér stað á þessu tímabili. Það er hún sem veldur því að verðbólguhraðinn er meiri e:n ráð var fyrir gert og verkalýðshreyfingunni var sagt meðan á samningum stóð. Þetta eru staðreyndir málsins og þetta er þegar viðurkennt óbeint í ræðu forsrh., þó að hann væri að reyna að hamla á móti, en beinlínis í ræðu viðskrh. Með þessa einkunn getur verkalýðshreyfingin vel við unað. Hún hefur skýrt frá staðreyndum, og eins og ég sagði í minni frumræðu, þá hefur hún nú í fyrsta sinn talið sig hafa efni á því fjárhagslega að hafa eigin sérfræðinga. Mun það m.a. vera undirstaða þess að hún getur nú lagt fram í fyrsta sinn raunhæfar staðreyndir um það hvernig útkoma þjóðarbúsins er gagnvart íslensku launafólki.

Það var sagt af hæstv. forsrh. í hálfgerðum lítilsvirðingartón að verkalýðshreyfingin hefði getað komið þessu á framfæri í fjölmiðlum. Ég ætlaði mér ekki að blanda útvarpsmálunum saman við þessar umr. Það hefur þegar verið skýrt frá því að verkalýðshreyfingin átti þess alls ekki kost að koma þessu á framfæri og varð því að velja þá einu leið sem hún hefur þegar gert með þeim árangri að Alþ. eyðir nú örlitlum tíma í að tala um mál launafólks á Íslandi og er þó vonum seinna.

Ég ítreka það, sem ég sagði í upphafi, að ég þakka ræðu forsrh. og svör hans, þó að þau ættu að vera til að andmæla fullyrðingum verkalýðshreyfingarinnar. En niðurstaðan af þeim andmælum var þó sú, að hann sagði að hann vonaði að verkalýðshreyfingin mundi eftir sem áður reyna að berjast gegn verðbólgu. Undir það geta sjálfsagt allir landsmenn tekið, hvort sem þeir eru meðal launafólks í verkalýðshreyfingunni eða ekki. En þá verður til þess að ætlast að sjálf forusta þjóðarinnar, ríkisstj., hafi manndóm í sér til þess að hafa þar raunhæfa forustu eins og henni ber. Það hefur hún ekki gert, nema síður sé. Hún hefur haft forustu um að gera það gagnstæða, að örva verðbólguna með hækkun á gjöldum opinberra þjónustuliða.