10.11.1975
Efri deild: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

49. mál, skipan opinberra framkvæmda

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég tel, að með flutningi þessa litla frv. sé hreyft máli sem sé allra athygli vert, og mig langar aðeins að segja um það fáein orð nú við 1. umr. í hv. deild.

Það er rétt að til þessa tíma hafa ekki legið fyrir neinar heimildir til þess að listskreyta aðrar opinberar byggingar en skóla. Ákvæðin eru í lögum um skólakostnað, að mig minnir, en í því efni hefur verið gert nokkuð síðan það komst í lög. Hins vegar hafa menn rekið sig á það að þeir aðilar sem hafa verið þess umkomnir að mega ráða sinni fjárfestingu að meira eða minna leyti, hafa gengið inn á þessa braut. Má í því sambandi bæta við það sem hv. flm. gat hér um áðan, Tollhús og Lögreglustöð, að Landsvirkjun hefur gert nokkuð að því að skreyta sinar byggingar á þennan hátt.

Ég er því mjög hlynntur að ýmsar byggingar séu listskreyttar. En ég vil láta það koma fram hér að ég lít svo á að það eigi í raun og veru alls ekki eitt að vera sem endanleg lausn á þessu máli að það megi setja einhvers konar listskreytingar á ytra borð bygginganna, heldur væri mikið í það varið, eins og flm. kom að vísu lauslega inn á raunar í sinni framsöguræðu, að það mætti gera innri hliðar bygginganna vistlegri með þessum hætti heldur en annars er. Ég hefði haldið að sjúkrahús væru þær stofnanir sem einna erfiðast væri að gera aðlaðandi. Fyrirmæli, sem verða að vera þar fyrir hendi um hollustuhætti og hreinlæti og því um líkt, gera þetta mjög vandmeðfarið mál í þeim tilvikum. En ef það væri álitið að það mætti með einhverjum hætti nota t. d. listaverk, málverk, jafnvel standmyndir til þess að gera sjúkrahúsin heimilislegri og meira aðlaðandi fyrir sjúklingana, þá væri það mjög mikilvægt. Ég er þeirrar skoðunar og vil láta það koma fram hér, eins og ég impraði á einnig á ráðstefnu um menningarmál sem haldin var í fyrravetur, að vel kemur til greina að mínu áliti að Listasafn Íslands láni eða láti listaverk sín hanga uppi í opinberum byggingum til þess að fólkið fái að njóta þeirra, heldur en í þeim geymslum sem Listasafnið hefur fyrir sín listaverk. Ég hefði nú viljað mæla með því að þannig yrði frá málum gengið að þessi ákvæði fjölluðu ekki aðeins um þau listaverk sem hægt væri að fella föst inn í heildarmynd bygginganna, að þarna undir mætti einnig setja það að hægt væri að setja upp laus listaverk í þessum mannvirkjum.

Ég tel, eins og ráða má af þessum orðum mínum mjög eðlilegt að þetta mál verði skoðað og tekið á því með jákvæðum hætti, því að ég álít það vera mikils virði að þarna fengist jákvæð lausn.