03.05.1976
Efri deild: 94. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3462 í B-deild Alþingistíðinda. (2851)

241. mál, fjarskipti

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Við hv. þm. Helgi F. Seljan flytjum hér frv., þó fremur tvö en eitt, sem varða möguleika á því að lömuðu fólki eða bækluðu til gangs, svo að allt að því ósjálfbjarga megi kalla, verði gert kleift eða a.m.k. auðveldað að fá talstöðvar í bila sína. Í grg. með þessu frv. segir:

„Hér er um að ræða mjög svo brýna nauðsyn fyrir fatlaða, að stuðlað verði að því að þeir geti haft talstöð í bil sínum. Ætlast er til þess af hálfu flm., að undanþága þessi nái einungis til fólks sem er svo illa bæklað til gangs að það kemst tæpast eða ekki hjálparlaust milli húsa og bifreiða í sæmilegu veðri, en slíkt fólk getur átt líf sitt undir því, ef bíll bílar á vegum úti, festist í ófærð eða lendir út af vegi, að geta þá kallað á hjálp.

Samkvæmt upplýsingum Landssímans er starfrækslugjald talstöðva nú frá 1. apríl 1976 10 200 kr. auk söluskatts, en að sjálfsögðu yrði hann einnig gefinn eftir. Í gjaldinu felst greiðsla fyrir nánar tilgreindan fjölda samtala.“

Eins og ég sagði í upphafi, þá leggjum við hv. þm. Helgi F. Seljan samtímis fram frv. þar sem gert er ráð fyrir annarri fyrirgreiðslu sem miðar að því að auðvelda fötluðu fólki, sem slíks þarf með, að komast yfir talstöðvar í bíla sína.

Ég þarf nú ekki að halda langa ræðu með þessu frv., en ég vil vekja athygli á því, að enda þótt við kveðum á um að hér sé einkum miðað við þörf þess fólks sem er mjög illa bæklað til gangs, þá er því ekki að neita að álíka mun farið ýmsum brjóstholssjúklingum, að þeir munu ekki síður hafa þörf fyrir öryggistæki af þessari gerð.

Við komumst svo að orði í efnisgrein að ráðh. sé heimilt að fenginni umsögn tryggingaráðs og Tryggingastofnunar ríkisins að veita fötluðu fólki, lömuðu eða bækluðu til gangs undanþágu frá greiðslu starfrækslugjalds vegna talstöðva í bifreiðum þess. Raunar er það skoðun mín að enda þótt búa verði þannig um hnútana að heimild þessi verði ekki misnotuð, sem má nú raunar vera auðvelt með ákvæðinu um umsögn tryggingaráðs og Tryggingastofnunar ríkisins, þá sé hér um að ræða þess háttar tæki að ekki megi heldur vegna ótta við misnotkun útiloka það að fólk, sem ekki hefur hlotið ytri bæklun til gangs, en geti þurft þessara tækja með vegna annarrar bæklunar eða vanheilsu, geti orðið þess arna aðnjótandi. Ég er raunar viss um að jafnvel í almennum innanbæjarakstri þessa fólks milli heimilis og vinnustaðar geti tæki af þessari gerð bjargað lífi ef svo her við. Allmargt fólk hér á landi hefur fengið aðstöðu til þess að stunda vinnu fjarri heimili sínu þó það sé raunar illa fært að bjarga sér milli húss og bifreiðar jafnvel í góðu veðri.

Ég ætla ekki að tala lengra mál með þessu fyrra frv. þar eð síðara frv. sem lýtur að sama máli, kemur hér rétt á eftir.