03.05.1976
Efri deild: 94. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3464 í B-deild Alþingistíðinda. (2856)

256. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til l. um breyt. um breyt. á l. nr. 101 frá 1966, um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl.

Ég vil hefja mál mitt með því að vitna í lög og það að gefnu tilefni útvarpssamtals landbrh. Það segir í 34. gr. framleiðsluráðslaganna: „Ríkisstj. (landbrn.) hefur einkarétt til að flytja til landsins kartöflur og nýtt grænmeti.“ Ríkisstj. eða landbrn. hefur síðan falið samtökum framleiðenda, þ.e. Framleiðsluráði landbúnaðarins, sem er ekki ríkisstofnun, — ég endurtek: samtökum framleiðenda forsjá þessa málaflokks.

Undanfarið hefur mikið verið skrifað um gæði þeirrar vöru, sem Grænmetisverslun landbúnaðarins hefur flutt inn, og þá aðallega um kartöflur.

Þær brtt., sem ég leyfi mér að flytja, eru svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr.: 31. gr. l. orðist svo:

Framleiðsluráð landbúnaðarins getur annast sölumál fyrir matjurta- og gróðurhúsaframleiðslu. Í því starfi skal það stuðla að því að fullnægt verði sanngjörnum óskum framleiðenda og neytenda.

2. gr.: 34. gr. orðist svo:

Varðandi innflutning og sölu matjurta- og gróðurhúsaframleiðslu gilda ákvæði l. nr. 17/1927, um varnir gegn sýkingu nytjajurta, eins og við á. 3. gr.: 36. gr. l. orðist svo:

Grænmetisverslun landbúnaðarins vinnur að því, að komið verði upp þar sem hentugt þykir vönduðum og hæfilega stórum geymslum fyrir garðávexti og grænmeti á helstu framleiðslu- og sölustöðum með hliðsjón af samgöngum og öðrum aðstæðum.

4. gr.: 37. gr. l. orðaðist svo:

Til þess að tryggja árvissa sölu garðávaxta skal Grænmetisverslun landbúnaðarins leitast við að hafa tiltæk úrræði til að taka á móti og koma í verð þeim hluta garðávaxtaframleiðslu sem ekki selst til manneldis hverju sinni.

5. gr.: 1. málsliður 38. gr. l. fellur niður.

6. gr.: Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1977.“ Ég hef látið prenta stutta grg, með þessu frv. Hún er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Með þessu frv. er lagt til að einokunarákvæði um sölu á matjurta- og gróðurhúsaframleiðslu verði numin úr lögum. Ekki er gerð önnur breyting á starfsemi Grænmetisverslunar landbúnaðarins. Lagt er til að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. jan. 1977, þannig að Grænmetisverslun landbúnaðarins, núv. framleiðendur og hugsanlega nýir heildsöludreifendur fái nokkurn aðlögunartíma þar til lögin taka gildi.“

Ég held að þetta skýri sig nokkuð vel sjálft, en ég hef þó ekki lokið máli mínu, en vil leyfa mér, áður en ég held áfram, að vitna til ummæla hæstv. viðskrh. í umr., sem hér áttu sér stað á föstudaginn síðdegis í Sþ., þar sem hann lét þau orð falla að einokunarrekstrarform hefur reynst illa. Ég leyfi mér því að vonast til þess með nokkrum rökum, að hæstv. viðskrh. samþ. þessa till. mína eða frv. til laga.

Með þessu frv., sem er flutt að tilhlutan Verslunarráðs Íslands að minni ósk, er lagt til að einokunarákvæði um sölu á matjurta- og gróðurhúsaframleiðslu verði numin úr lögum. Ekki er gerð önnur breyting á starfsemi Grænmetisverslunar landbúnaðarins. Lagt er til að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. jan. 1977, þannig að Grænmetisverslun landbúnaðarins og núverandi framleiðendur og hugsanlegir heildsöludreifendur fá nokkurn aðlögunartíma þar til lögin taka gildi.

Einokun er þjóðhagslega óhagkvæmt fyrirkomulag á framleiðslu og sölu vöru og þjónustu. Því ber að forðast einokun, þar sem unnt er. Allir eru sammála um ókosti einokunarverslunar dana á Íslandi, en einokun okkar sjálfra er sama marki brennd. Neytendum er boðið minna vöruúrval á hærra verði en væri ef samkeppni ríkti. Einnig er öll þjónusta framleiðenda og seljenda að jafnaði lakari. Einokun er því fyrirkomulag á framleiðslu og sölu þar sem framleiðanda eða seljanda er sköpuð aðstaða til þess að hagnast á ósanngjarnan hátt á kostnað neytenda og alþjóðar. Fyrir Alþ. er því ekki verjandi að lögfesta slíkt sölufyrirkomulag, sem er andstætt hagsmunum þjóðarheildarinnar.

Þó að ég reikni með að þm. séu ljósir ókostir einokunar, sérstaklega að því er varðar Grænmetisverslun landbúnaðarins, svo mjög hafa þau mál verið rædd undanfarið, held ég samt að að okkur sé öllum hollt að rifja upp þessa ókosti.

Í dagblöðunum að undanförnu hefur komið fram að mun fátæklegra úrval er á grænmeti almennt hérlendis en erlendis. Þegar kartöflurnar eru teknar fyrir, þá er sagan mun ljótari. Ekki er langt síðan hér var kartöfluskortur og kartöflur ófáanlegar hérlendis um nokkurt skeið og að ástæðulausu. Því næst er almenningi boðið upp á erlendar kartöflur í sömu brúnu pokunum, sem enginn veit hvað er í. Dagblöðin hafa að undanförnu verið full af „gæðayfirlýsingum“ um þessar kartöflur ásamt myndum af útliti þeirra og fylgidýrum. Ekki ætla ég að lesa allt það hér sem skrifað hefur verið í blöðin, en samnefnarar Þessara kvartana eru þannig:

1) Helmingur kartaflnanna er sjáanlega ónýtur þegar pokarnir eru opnaðir.

2) Helmingur þess, sem soðið er, reynist ónýtur þegar kartöflurnar eru afhýddar.

3) Þær kartöflur, sem á borð komast, eru þar enn þegar máltíð lýkur.

Ég held ég láti þetta nægja um það úrval og þá þjónustu sem almenningi er boðið upp á, enda er hún alþekkt.

Hvort verð á kartöflum er hærra en það ætti að vera vegna einokunarinnar, því verður ekki svarað beint, þar sem við getum aldrei vitað hvert verið væri ef samkeppni væri á markaðnum. Til þess vantar samkeppnina. Hins vegar má líta á hvernig verð á kartöflum hefur breyst miðað við aðra matvöru og matvörur almennt. Í nóv. 1970 voru kartöflur ekki niðurgreiddar, en niðurgreiðsla á þessum vörum hófust í byrjun des. 1970. Síðan þá og þar til í nóv. í fyrra hefur útsöluverð á kartöflum hækkað um 225,5%–226.5%, en verð á eggjum, sem seld eru í frjálsri samkeppni, án afskipta verðlagsyfirvalda, hefur einungis hækkað um 177.3%. Matvara almennt hefur hins vegar hækkað um 237.3% og vara og þjónusta um 238.7%. Þessi hugmynd, sem útsöluverðið gefur, er þó villandi þar sem hvert kg af kartöflum var niðurgreitt um 18.82 kr. Raunverulegt verð á kartöflum hefur því hækkað um 307.5%–317.5% eftir því um hvorn verðflokkinn er að ræða, 1. eða 2. flokk. Þannig má sýna fram á að verð á kartöflum hefur hækkað um 140% umfram hækkun á verði eggja, um 80% umfram almenna hækkun matvöru, um tæp 80% umfram hækkun á almennu vöruverði.

Hér að framan hef ég sýnt fram á að almennar mótbárur gegn einokun, hærra verð, minna úrval og léleg þjónusta, eiga við um Grænmetisverslun landbúnaðarins jafnt og aðra einokun. Því ber að afnema þessa einokun til hagsbóta fyrir framleiðendur, aðra hugsanlega heildsöludreifendur og umfram allt hinn almenna neytanda, fólkið í landinu eða þjóðina sjálfa. Í þessum till. er þó ekki lagt til að leggja Grænmetisverslunina niður, heldur einungis það gert löglegt að samkeppni megi vera í verslun með þessa vöru. Að leyfa slíka samkeppni ætti ekki að skapa Grænmetísversluninni mikinn vanda ef hún hefur sinnt starfi sínu vel, þar sem hún nú ræður markaðnum. En hafi hún sinnt því illa er nauðsyn á afnámi einokunarinnar enn þá brýnni.

Herra forseti. Ég er hér með blaðagreinar eða réttara sagt blaðaviðtöl sem Alþýðublaðið hefur tekið og með leyfi ætla ég að rifja þær upp. Föstudaginn 30. f.m. skrifar Alþýðublaðið grein með þessari fyrirsögn: „Pólsku kartöflurnar falla í slæman jarðveg hjá neytendum.“ Síðan hefur blaðið viðtal við almenning, verslanir fyrst af handahófi og síðan húsmæður. Ég hleyp yfir það sem blaðamaðurinn skrifar frá eigin brjósti og fer í fyrsta viðtalið, við verslunarstjóra Dalvers, en þar segir:

„Það er nokkuð misjafnt hvernig fólk lætur af þessum nýju kartöflum. Sumir segja þær ekki vera manneldisfóður, aðrir láta betur af þeim. Pokarnir eru misjafnir og hefur því verið skotið að okkur hérna að líklega hafi þeim mexíkönsku verið blandað saman við þær pólsku.“ Ég ætla að skjóta því hér inn í að þetta er slæm ásökun. „Fólk segir sumar kartöflurnar vera kolsvartar og gegnum þær gangi einhvers konar spírur.“

Í Suðurveri er svarið svo hljóðandi:

„Þær eru sagðar vera aðeins skárri en þær sem komu frá Mexíkó. Margir eru þó mjög óánægðir með þessar pólsku, þær eru yfirleitt stórar og nokkuð mikið um að þær séu skemmdar að innan.“

Í kjötverslun Tómasar var því aðeins svarað til að fólki líkaði þær mjög illa og fyndi þeim allt til foráttu.

Í Kjörbæ var svarið:

„Ekki lætur fólk neitt sérstaklega vel af þeim. Þó er það almennt ánægðara með þær pólsku en þær mexíkönsku. En það verður þó ekki sagt að fólk sé yfirleitt yfir sig ánægt. Innan um allt er ein og ein kartafla mjög skemmd, en það kemur ekki í ljós fyrr en búið er að sjóða þær og ætlunin er að fara að neyta þeirra og sýnir þá að matvaran er ekki lengur mannafæða.“

Það eru viðtöl við fleiri verslanir og kaupmenn sem ég ætla að sleppa til að stytta tímann, það er mikil pressa á tíma hv. d., en minnast á ummæli húsmæðra. Það er talað við húsmóður í Torfufelli. Hún segir að pólsku kartöflurnar séu hreint svínafóður og ekki hótinu skárri en mexíkönsku sem tóku út yfir allan þjófabálk. Ég sé ekki ástæðu til að lesa það sem ég ætlaði að lesa hér í framhaldi af þessu né heldur grein sem birtist degi seinna í sama blaði um athugun, sem það dagblað sem ég vitnaði í, gerði á starfsemi Grænmetisverslunarinnar og þeirri vörutegund sem Grænmetisverslunin hefur boðið undanfarið. En ég held að það fari ekki á milli mála að það er full þörf á að gefa innflutning á þess ari vörutegund frjálsan, þannig að eðlileg samkeppni skapist og vörugæði gætu aukist á sama tíma sem samkeppni yrði þá um verð. En vegna þess að hæstv. landbrh. er nú staddur hér í d., þá ætla ég að leiðrétta það sem fram kom hjá honum í viðtali við alþjóð í gærkvöld og vitna hér í bréf, sem skrifað var landbúnaðarráðuneytinu, Arnarhvoli, Reykjavík, 26. apríl 1976 og barst mér í morgun boðsent, en það er svo hljóðandi:

„Með vísun til 34. gr. laga nr. 1011–1967 förum við hér með fram á við hið háa rn. að fá heimild til þess að flytja inn til landsins á þessu ári nýtt grænmeti samkv. tollskrárnr.“ — sem eru talin upp — „fyrir allt að 35 millj. kr. Eins og rn. er kunnugt hefur fyrirtæki okkar í áratugi annast innflutning, geymslu og dreifingu til verslana á nýjum ávöxtum. Í þessu sambandi viljum við vekja athygli á því að sumar tegundir nýrra ávaxta eru taldar viðkvæmari í geymslu og dreifingu en nýtt grænmeti. En þrátt fyrir það hefur tekist að sjá um þessa þjónustu við verslanir, enda hefur fyrirtækið komið upp fullkominni ávaxta- og grænmetisgeymslu.

Virðingarfyllst,

Eggert Kristjánsson & Co.“

Ég sé að hæstv. ráðh. telur ekki ástæðu til þess að sýna, hvorki mér né þessari hv.d., þann heiður að hlusta á mál mitt þrátt fyrir óskir mínar, svo að ég ætla að láta máli mínu lokið í von um að í málflutningi þeirra, sem mæla á móti frv., komi fram heldur meiri kurteisi en ráðh. virtist viðhafa.