03.05.1976
Efri deild: 94. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3471 í B-deild Alþingistíðinda. (2860)

256. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég ætla að endurtaka hér þær fullyrðingar sem ég óska eftir að hv. 6. þm. Norðurl. e. leiðrétti þá eftir nánari athugun á þessu máli, þannig að í ljós komi eftir hans athugun að ég fari með rangt mál.

Ég hef vitnað í ummæli fjölmargra. Ég er heimilisfaðir í Reykjavík og veit hvaða vörur eru á markaðnum hér og get borið þær saman við þær vörur sem hafa verið á markaðnum í nokkuð mörg ár. Ég get líka sagt að það hafa verið góðar kartöflur á markaðnum. Ég er ekki að segja að þær hafi alltaf verið vondar, og mér kemur ekkert á óvart þó að hv. 6. þm. Norðurl. e. hafi tekist að finna heilar kartöflur sem honum þótti góðar. En fullyrðingar mínar eru þessar, sem ég leyfi mér að endurtaka og ég bið hann sérstaklega um að leiðrétta ef rangt er með farið og það verður hann náttúrlega að gera af eigin reynslu því að hér er um neytendaspursmál að ræða og hver maður er neytandi. Fyrsta fullyrðingin var þessi: Helmingur kartaflnanna er sjáanlega ónýtur þegar pokarnir eru opnaðir. Annað: Helmingur þess, sem soðið er, reynist ónýtur þegar kartöflurnar eru afhýddar. Og þriðja: Þær kartöflur, sem á borðið komast, eru þar enn þegar máltíðinni lýkur. Ég skal með ánægju kaupa poka og bjóða hv. 6. þm. Norðurl. e. heim að borða með mér.

Ég var hér með aðra fullyrðingu sem er kannske það sem hv. þm. telur hvað alvarlegasta, ég fullyrti að Grænmetísverslunin hefði verið dýr í sinni verðlagningu þrátt fyrir þá n. sem hann vitnaði í. Má sýna fram á, sagði ég í minni ræðu, að verð á kartöflum hefur hækkað um 140% umfram hækkun á verði eggja, um 80% umfram almenna hækkun matvöru og um tæp 80% umfram hækkun almenns vöruverðs.

Þetta eru þær fullyrðingar sem ég leyfi mér að endurtaka hér.