03.05.1976
Neðri deild: 94. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3476 í B-deild Alþingistíðinda. (2884)

99. mál, skráning og mat fasteigna

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Álit fjh.- og viðskn. er á þskj. 566, en þar leggur n, til að frv. þetta verði samþ. eins og það er komið frá Ed., en með tveimur litlum brtt. sem n. flytur á þskj. 567. Það voru haldnir sameiginlegir fundir í fjh.- og viðskn. beggja d. um þetta viðamikla mál, en frv. þetta var lagt fram í hv. Ed.

Um málið bárust umsagnir frá ýmsum aðilum, svo sem Verkfræðingafélagi Íslands, Þjóðhagsstofnun, Þróunarstofnun Reykjavíkur og Fasteignamati ríkisins. Það var tekið tillit til fjölmargra ábendinga sem komu fram í umsögnum þessara aðila og frv. breytt í allmörgum atriðum til samræmis við þessar ábendingar. Hæstv. fjmrh. rakti þessi atriði í framsöguræðu sinni við 1. umr. í síðustu viku og ég sé þess vegna ekki ástæðu til að rekja þau atriði frekar nema sérstakt tilefni gefist.

Eins og ég sagði, þá flytur fjh.- og viðskn. tvær brtt. við frv. á þskj. 567. Önnur þeirra er til samræmis við þá breytingu, sem gerð var á nafni stofnunarinnar í Ed., þ.e.a.s. stofnunin skuli heita Fasteignamat ríkisins eins og hún heitir nú, en ekki fasteignaskrá eins og gert var ráð fyrir í upphaflega frv. Þess vegna þarf að breyta 12. gr., síðasta orðinu í þeirri gr., það verði „fasteignamatsins“ í stað „skrárinnar“. — Þá er það brtt. við 17. gr., þar komi inn ný mgr. er verði 3. mgr. og hljóði svo: „Bújarðir skulu metnar miðað við notkun þeirra til búskapar á meðan þær eru nýttar þannig.“ Þessi mgr. var í upphaflega frv., en hefur fallið niður vegna mistaka og þarf þess vegna að koma inn við þessa umr.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð, en ég læt í ljós þá von að frv. þetta nái fram að ganga. Það hafa verið gerðar á undanförnum árum allmargar tilraunir til þess að setja ný lög um skráningu og mat fasteigna. Ég vonast sem sagt til að þessi tilraun takist.