03.05.1976
Neðri deild: 95. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3507 í B-deild Alþingistíðinda. (2893)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Eðvarð Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um nýjar álögur á landslýðinn sem nemur röskum 2.2 milljörðum kr. Hér er um að ræða fjárvöntun ríkissjóðs um það bil 1800 millj. kr., að sagt er, og að auki 450 millj. kr. til Vegasjóðs, en af þessum 1800 millj. kr. til ríkissjóðs eiga 1000 millj. að renna til eflingar landhelgisgæslunnar. Meginhluta þessa fjár á að afla með því að hækka vörugjaldið úr 10% í 18% og fella niður þá lækkun sem til stóð að á því yrði á haustmánuðum komandi. Áætlað er að þessar álögur muni nema um 10–11 stigum framfærsluvísitölunnar og að helmingur þessa skuli ekki hafa áhrif á hin svokölluðu „rauðu strik“ kjarasamninganna frá í vetur, þ.e.a.s. launafólkið á að taka á sig bótalaust sem nemur 1000 millj. kr. skattlagningu. Hins vegar er ekki nein ákvæði um það að finna í frv. að verslunarálagning fylgi ekki óbreyttum reglum. Ef frv. væri samþ. óbreytt mundi þessi hækkun valda sjálfsagt 440–500 millj. kr. tekjuaukningu hjá kaupsýlustéttinni, á sama tíma sem ætlast er til að launþegar beri 1000 millj. hækkun bótalaust.

Hér er sjáanlega um að ræða frv. og hugsaðar aðgerðir sem snerta mjög mikið allt launafólk í landinu, varða verkalýðshreyfinguna, verkalýðsfélögin mjög miklu. hrátt fyrir það er þetta frv. lagt fram án þess að nokkurt samráð sé haft við Alþýðusambandið, þó að með frv. sé raskað grundvelli þeirra kjarasamninga sem gerðir voru í vetur. Það hefur verið föst venja hjá ríkisstjórnum æðilengi að ráðgast við eða a.m.k. að greina forustu Alþýðusambandsins frá slíkum frv. Það var ekki gert núna. Ég ætla ekki að fullyrða að það sé bein ásetningssynd, heldur að þar hafi kannske ráðið meira um miklar annir og kannske misgáningur að þetta skyldi ekki gert. Forustumenn Alþýðusambandsins urðu sér engu að síður úti um frv. sem útbýtt hafði verið til forustumanna þingflokkanna seint á laugardag. Við urðum okkur úti um þetta í gær og reyndum að skoða málið þá og raunar var þá haft símleiðis samband við hæstv. forsrh. Miðstjórn Alþýðusambandsins kom síðan saman til fundar klukkan 9 í morgun, ræddi málíð þá eins ítarlega og kostur var og ályktaði um málið. Þessi ályktun var síðan rædd við hæstv. forsrh. um hádegisleytið í dag og hefur verið afhent hér í Alþ. til þeirra n. sem þetta frv. fá til meðferðar.

Ég veit að hér er mikil tímaþröng núna og þó að mikil ástæða væri til að tala býsna langt mál um það frv. sem hér liggur nú fyrir, þá skal ég þó engu að síður reyna að stytta mál mitt og mun aðallega lýsa hér ályktun Alþýðusambandsins, og ég tel að það sé ákaflega nauðsynlegt að hv. alþm. kynni sér þessa ályktun. Hún er lögð fram eftir að þessi mál hafa verið skoðuð og hún er lögð fram í trausti þess að það sé hægt að ná samkomulagi um afgreiðslu þessa máls. En vissir þættir í því eru þannig núna að útilokað er að verkalýðshreyfingin geti með nokkru móti samþ., og verði frv. samþ. óbreytt, þá fullyrði ég að það mundi valda því að verkalýðshreyfingin verður að taka margt til endurskoðunar og þ. á m. hvort ekki bæri að segja upp nýgerðum samningum með þeim fyrirvörum sem í samningunum eru varðandi uppsögn þeirra þó að samningstíminn sé ekki útrunninn.

Ég vil nú, hæstv. forseti, fá leyfi til að lesa þessa ályktun. Ég held að hún skýri nokkuð greinilega þau viðhorf sem miðstjórn Alþýðusambandsins mótaði alveg einróma á fundi sínum í morgun, og ég efast ekki um að hún túlkar þau sjónarmið sem uppi eru í verkalýðshreyfingunni varðandi þetta mál. Það eru aðeins tekin stærstu atriðin, margt hefði verið hægt að koma inn á, en ég trúi að hér komi fram meginafstaðan til þessa máls. Og það, sem í þessari ályktun segir, er einnig sú afstaða sem ég mun taka til þessa máls hér í hv. Alþ. Ályktun Alþýðusambandsins er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur á fundi sínum 3. maí tekið til athugunar frv. til l. um fjáröflun til landhelgisgæslu og fiskverndar, ríkisfjármál og fjármögnun orkuframkvæmda sveitarfélaga og vill af því tilefni taka fram eftirfarandi:

Miðstjórnin viðurkennir þörf á auknum fjárráðum landhelgisgæslunnar, og þar sem hún hefur ekki aðstöðu til neins nákvæms mats á því hve sú fjárþörf er mikil, gerir hún ekki ágreining um þá áætlun sem frv. byggist á, en vill mega treysta því að hugsanlegu auknu fé til eflingar landhelgisgæslu og fiskverndar verði varið með skynsamlegum hætti. Bent skal þó á að í grg. frv. er ekki að finna neinar skýringar á því hvernig fénu skuli varið.

Að því leyti sem unnt er að einangra athugasemdir við frv. við allt að 1000 millj. kr. tekjuöflun í framangreindum tilgangi getur miðstjórnin eftir atvíkum fallist á að farin sé sú leið sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. að fjárins sé aflað með tímabundinni hækkun vörugjalds. En miðstjórnin leggur þó jafnframt þunga áherslu á að hækkun vörugjaldsins verði algjörlega takmörkuð við fjárþörf landhelgisgæslunnar og þó enn frekar að slík takmörkuð hækkun vörugjaldsins við 1000 millj. kr. eða um 13% til næstu áramóta“ — ég vil hafa fyrirvara um þessa tölu, 13%, það er ekki víst að hún sé alveg nákvæm — „verði ekki á neinn hátt tengd riftun gildandi kjarasamningsákvæða um „rauðu strikin“. Telur miðstjórnin að þau ákvæði frv., sem að þessu lúta sbr. 8. gr. frv., séu ósvífin aðför að gerðum og gildum samningum aðila vinnumarkaðarins frá 27. febrúar s.l. og mótmælir þessum ákvæðum sem hreinni ósvinnu sem í raun afmái forsendur kjarasamninganna. Í þessu sambandi minnir miðstjórnin á brigð ríkisstj. á yfirlýsingum sínum þegar vörugjaldið var fyrst lagt á á s.l. ári, og á slæma reynslu af meðferð stjórnvalda á viðlagagjaldinu vegna náttúruhamfaranna á Heimaey, en það gjald var aldrei afnumið, þrátt fyrir skýlaus loforð, heldur fellt inn í almennt skattheimtukerfi ríkisins.

Að öðru leyti vill miðstjórnin taka þetta fram varðandi önnur tekjuöflunarákvæði frv.:

1) Að hún telur algerlega óeðlilegt að nýgerð vegáætlun sé nú rifin upp og eyðslufé hennar aukið um hvorki meira né minna en 620 millj. kr. Telur miðstjórnin að þessari upphæð beri að mæta með sparnaði.

2) Miðstjórnin mótmælir harðlega hækkun bensíns um 170 millj. kr., sbr. lið 1. hér að framan, og telur hana ekki nauðsynlega.

3) Miðstjórnin getur fallist á takmörkun persónuafaláttar til greiðslu útsvara, enda verði þá fulltryggt með lagaákvæði að takmörkun þessi verði ekki notuð til að íþyngja í útsvörum þeim sem það lágar tekjur hafa að þeir beri lítinn eða engan tekjuskatt. Sömuleiðis telur miðstjórnin eðlilegt að hækkun leyfisgjalds af jeppabifreiðum verði samræmd með því gjaldi sem gildir um aðrar bifreiðar.

4) Miðstjórnin getur fallist á að ákvæði skattalaga frá s.l. ári um skyldusparnað verði framlengd til loka þessa árs.

Ef farið væri að framangreindum ábendingum verður ljóst að tekjuþörf ríkissjóðs til þess að leysa þann vanda, sem unnt er að rökstyðja með viðunandi hætti, nemur ekki 2 245 millj. kr., eins og áætlað er í grg. frv., heldur 1 045 millj. kr., að frádregnum þeim greiðsluafgangi sem frv. gerir ráð fyrir, og stendur þá eftir því sem næst 1000 millj. kr. tekjuöflun til landhelgisgæslunnar sem miðstjórnin vill með tilgreindum skilyrðum fallast á.

Miðstjórnin væntir þess fastlega að ríkisstj. og Alþ. geti fallist á framangreindar óskir Alþýðusambands Íslands um breytingar á frv. og e.t.v. aðrar sem miðstjórnin óskar eftir að ræða frekar um undir meðferð málsins. Hún lítur einnig svo á að sú skriða verðhækkana og þar með kjaraskerðingar sem dunið hefur yfir almenning að undanförnu, sé þegar orðin svo geigvænleg að óverjandi sé með öllu að taka nú enn til við að klípa að óþörfu af launum almennings, og þá ekki síður þeirra sem við allra bágust kjör búa.

Loks verður ekki komist hjá að fordæma þá aðferð, sem frv. gerir ráð fyrir. að álagningarprósenta verslunarinnar haldist óbreytt þrátt fyrir stórhækkaðan gjaldstofn vegna hækkunar vörugjaldsins. Gengi frv. fram óbreytt mundi það færa kaupsýslustéttinni 400–500 millj. kr. nýjar tekjur á sama tíma og enn er hert kjaraskerðing almennings. Skorar miðstjórnin því á hið háa Alþ. að breyta frv. í framangreinda átt. Enn þykir rétt að benda á að hækkun vörugjalds eins og frv. gerir ráð fyrir er í raun dulbúin lækkun gengis, og verði því ekki í meginatriðum fallist á tilmæli Alþýðusambandsins mun það að sjálfsögðu og þá einnig með hliðsjón af sífelldu gengissigi taka til athugunar að beita ákvæðum samninganna um heimild þeirra til uppsagnar ef veruleg breyting verður til lækkunar á gjaldmiðlinum. Miðstjórn ASÍ telur að hvorki sé unnt fyrir stjórnvöld siðferðislega né lagalega að skjóta sér á bak við neina orðaleiki.“

Þannig hljóðar sú ályktun sem miðstjórn Alþýðusambandsins gerði á fundi sínum í morgun. Eins og ég sagði, þá væri full ástæða til að ræða hér býsna langt mál um þetta frv. og marga þætti efnahagsmálanna, en það hefur þegar verið gert hér af ýmsum og ég veit að tíminn er naumur og skal því ekki fara langt út í þá sálma.

Ég vil aðeins taka það fram, að það sem varðar verkalýðshreyfinguna að sjálfsögðu langmest og vegur þyngst af ákvæðum þessa frv., það er að með því skuli raskað grundvelli nýgerðra kjarasamninga. Það er ekki í fyrsta sinn sem reynt er með lagaákvæðum að gera slíkt. Og menn skulu hafa í huga með hvaða hætti kaupmáttur almennra launa er nú, hve gífurlega er búið að þrengja að fólki varðandi kaupgjaldið. Og eins hitt, að þegar er búið að leggja á nýja skatta sem ekki verða bættir í kaupgjaldinu og ekki koma inn í útreikning varðandi svokölluð „rauðu strik“ í kjarasamningunum, og á ég þar við hækkun á tóbaki og áfengi. Þetta hefur ekki áhrif á vísitöluna, en að sjálfsögðu er hér um að ræða útgjaldaaukningu fyrir fólk sem það ber bótalaust, og sjálfsagt finna reykingamenn sérstaklega fyrir því.

Hér er máske ekki um að ræða miklar upphæðir í sjálfu sér þegar skoðað væri hjá hverjum einstökum. Áætlað er að að óbreyttu frv. muni þetta nema um það bil 0.8% í kaupi. Þetta er ekki höfuðatriðið, heldur hitt, það er sjálft grundvallaratriðið að ganga þessa skerðingarleið. Með þessu er í raun og veru launafólkið í landinu eitt látið standa undir þeim álögum sem nú á að framkvæma og ég ætla ekki að vefengja nauðsyn þess — til eflingar landhelgisgæslunni. Ég tel þetta svo fráleitt að ekki komi til mála. Ég vil enn fremur benda á að ef í vaxandi mæli á að fara inn á þessa braut, hvar verður þá staðnæmst, hvenær er ekki hægt að koma og segja við verkafólk: Hér er um gott málefni að ræða? Við getum nefnt byggingu sjúkrahúsa o.s.frv. Í rauninni hefur býsna mikið borið á einmitt slíkum tilhneigingum á undanförnum árum þó að þær hafi ekki komið til framkvæmda að verulegu ráði. Það er þetta sem við viljum með engu móti fallast á. Ég tala nú ekki um, það er svo hróplegt ranglæti að engu tali tekur, ef álagning verslunarinnar á að verða óskert og kaupsýslustéttin fengi þar með um það bil hálfan milljarð s sinn hlut á meðan landhelgisgæslan fengi ekki nema milljarð í sinn hlut. Ég trúi því satt að segja ekki að þetta sé ætlunin. En ekkert er í frv. sem bendir til annars.

Ég vil þá rétt draga saman niðurstöður þær sem felast í ályktun Alþýðusambandsins. Máski hafa menn ekki gripið það við fljótan lestur. En þær eru í stuttu máli að Alþýðusambandið viðurkennir fjáröflun sem næst 1800 millj. kr. og gerir það með því að fallast á að skyldusparnaðurinn verði framlengdur. Það er talið nema 300 millj. kr. Enn fremur er fallist á takmörkun persónuafsláttar til greiðslu útsvara. Það nemur öðrum 300 millj. kr. að mati ríkisstj. En þar ber að leggja áherslu á að sveitarfélögin noti þá ekki þessa heimild, því að þá mundi það koma niður á þeim sem kannski eru allra verst stæðir, þeim sem ekki bera neinn tekjuskatt; þ.e.a.s. það væri skólafólkið, kannski stærsti hlutinn, og síðan lífeyrisþegarnir. Enn fremur teljum við eðlilegt að leyfisgjald af jeppabifreiðum verði fært til samræmis leyfisgjöldum af öðrum bifreiðum, og það er metið á 150 millj. kr. í grg frv. Hér er þá um að ræða fjáröflun sem nemur 750 millj. kr., og til þess að ná nákvæmlega því sem er nú talin tekjuþörf ríkissjóðs, 1795 millj. kr., þyrfti vörugjaldið ekki að hækka um 1600 millj. eins og frv. gerir ráð fyrir, heldur aðeins um 1045 eða 1050 millj. kr. Hvort þeirri fjáröflun umfram einn milljarð kr., sem rynni til landhelgisgæslunnar, væri skipt á þann hátt sem skýrt er frá í grg. frv., það læt ég alveg liggja á milli hluta, en tel þó að jafnmikið eyðsluráðuneyti og samgrn. hlýtur að vera og þá einkum varðandi vegamálin, það hljóti að geta sparað fé af sínum framkvæmdum sem nemur þessum 450 millj. kr. sem talið er að nú þurfi að afla til þess.

Ég ætla ekki að fara út í það hvar mætti spara, en út af fyrir sig væri ekki neitt vandamál að benda á dæmi sem þessu næmi.

Þessi niðurstaða ályktunar Alþýðusambandsins sem ég hef hér rætt um, þ.e.a.s. ef við föllumst á tekjuöflun sem nemur um 750 millj. kr., auk þess að vörugjaldið væri hækkað þannig að það færði ríkissjóði um einn milljarð kr., þetta er að sjálfsögðu því bundið að ekki verði á minnsta hátt hróflað við hinum svo kölluðu „rauðu strikum“ kjarasamninganna frá því í vetur, Með því er að okkar dómi verið að raska mjög verulega þeim grundvelli sem samningsaðilar vinnumarkaðarins hafa komið sér saman um í febrúar í vetur.

Ég veit ekki hvernig skilja ber þau ummæli sem hæstv. fjmrh. lét falla í ræðu sinni áðan, en ég tók eftir, lagði vel við hlustir, að hann benti á að þær þingnefndir, sem fengju málið til athugunar, þyrftu að taka sérstaklega til athugunar þau frávik sem í frv. fælust frá mörkuðum ákvæðum varðandi „rauðu strik“ samninganna. Ég ætla ekki, vegna þess hvernig hér stendur á nú, að fara að krefja um svör við þessu. En ég vona þó að þessi véfrétt, ef það mætti skýra hana þannig, hún bendi þó í þá átt að þetta algjöra grundvallaratriði frá hálfu verkalýðshreyfingarinnar verði endurskoðað. Verði það hins vegar ekki gert og frv. verði samþ. eins og það nú liggur hér fyrir, þá vil ég að menn taki alvarlega og leggi við hlustir þegar sagt er í ályktun Alþýðusambandsins að verkalýðsfélögin verði þá að taka til athugunar að nota sér þau ákvæði samninga sem heimila uppsögn á gildistímanum. Ég er ekki með neinar hótanir. Hér er búið að þjarma svo að verkafólki með skerðingu kaupmáttarins, með sífelldum verðhækkunum, eftir að kjarasamningar voru gerðir í vetur, að það, sem kjarasamningarnir áttu að færa fólki á tímabilinu fram að 1. júní, verður mun minna en áætlað var. Komi til þess að verkalýðshreyfingin verði að segja upp sínum samningum, þá er alveg augljóst að það verður dýrara l,æði atvinnurekendum og þjóðfélaginu í heild heldur en það tæpa eina prósent sem atvinnurekendur yrðu að taka á sig. 0.8%, ef ekki verður hróflað við „rauðu strikunum“ í samningunum. Á þetta legg ég megináherslu.