04.05.1976
Efri deild: 95. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3524 í B-deild Alþingistíðinda. (2907)

243. mál, áfengislög

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég get að mörgu leyti lýst yfir ánægju minni yfir því að þetta frv., sem hér er borið fram, hefur séð dagsins ljós hér á hinu háa Alþ., því ég skal gera þá játningu hér að ég hafði hugsað mér að bera fram frv. um breyt. á áfengislöggjöfinni, en með tilkomu þessa frv. gefst tækifæri til þess að koma með þær brtt. á áfengislögunum sem að mínum dómi eru nauðsynlegar.

Ég er alveg sammála þeim hv. alþm., flm. þessa frv., að það er eitt erfiðasta og kannske vandasamasta og að mörgu leyti sorglegasta viðfangsefnið sem íslenska þjóðin á í dag við að etja, áfengisbölið í þeirri ískyggilegu mynd sem hefur náð að þróast með þjóðinni. En ég vil þá einnig taka það skýrt fram, að þær till., sem felast í meginmáli þess frv. sem hér liggur fyrir, eru að mínum dómi ekki líklegar til að bæta úr því ástandi sem nú ríkir í þessum málum. Ég held að ef maður af sanngirni, raunsæi og alveg án allra fordóma gefur sér tíma til að athuga þessi vandmeðförnu mál ofan í kjölinn, þá held ég að þáttur löggjafans varðandi þetta mál sé ekki til að státa af. Ég held að mikið af þeim vandamálum, sem hér er við að setja, og yfirleitt hvernig þessi mál hafa þróast til hins verra í þjóðfélaginu megi rekja til hinna dæmalausu ákvæða eða réttara sagt löggjafar sem þessi þjóð hefur þurft að una við frá því að svokölluð áfengislöggjöf var sett. Í þjóðfélagi þar sem hægt er að kaupa í lítravís í gallonavís áfengi sem er að styrkleika 45 eða 47%, eins og margar víntegundir eru á boðstólum hér í áfengisútsölunum, en á sama tíma er ekki leyfð neysla svokallaðs áfengs öls, slík löggjöf getur ekki boðið upp á annað en stórkostleg vandræði.

Það er svo margt sem hægt er að finna að í sambandi við þessa löggjöf sjálfa svo og framkvæmd hennar að það væri hægt að halda um það margra klukkutíma ræðu. Ég vil ekki, eins og nú er komið afgreiðslu mála á Alþ., fara að tefja starfsemi þingsins með ítarlegum umr. nú á þessu stigi málsins. Aðeins þótti mér tilhlýðilegt nú þegar við 1. umr. að koma fram þeim sjónarmiðum, eins og að vissu leyti kom fram í framsögu hv. flm. þessa frv., hv. 7 landsk. þm., að menn skyldu fara gætilega í að setja lög sem mótuðust af áliti almennings sem gengi þvert á lögin. En ég held því miður að það séu ákaflega mörg ákvæði í áfengislögunum sjálfum og gilda um framkvæmd þeirra sem einmitt stefna í þá átt.

Ég sagði áðan að það dyldist engum að það væri við gífurleg þjóðfélagsvandamál að etja í sambandi við það ástand sem hefur skapast út af misnotkun áfengis í þjóðfélaginu. En ég vil láta það koma hér skýrt fram, að mitt mat á því máli er að við læknum það ekki með síauknum boðum og bönnum og hækkunum á einhverjum upphæðum, sektarupphæðum, eða með því að herða refsiaðgerðir. Við læknum þetta ekki með því. Hvaða sjónarmið og hvaða skoðanir sem við höfum á þessum málum, þá verður ekki sú staðreynd umflúin að áfengi er förunautur mannkynsins og búið að fylgja mannkyninu frá örófi alda, og við erum ekki þess umkomnir, allra síst nú á þessum síðustu tímum eftir að við erum nærri því komnir í miðdepil alheimsumferðarinnar, að útiloka okkar þjóð frá þessari neysluvöru. Þess vegna er það áreiðanlega öllum fyrir bestu að menn reyni að líta á þessi mál öfgalaust, af raunsæi, af skynsemi og reyni að haga lögum, reglugerðarákvæðum og ákvæðum um framkvæmdina í sambandi við samskipti við þetta vandamál þannig að það verði frekar til þess að ala upp kynslóð sem hefur þann manndóm og þroska að geta umgengist þessa neysluvöru eins og mönnum sæmir. En þar hefur hlutur löggjafans verið mjög slakur og þarf mikið um að bæta. Mönnum hefur verið ákaflega gjarnt að setja ríkinu fyrir blinda augað, loka augunum fyrir þeim staðreyndum sem við blasa í sambandi við þessi mál og halda að með síauknum boðum, bönnum og alls konar refsiaðgerðum, eftirliti, sé hægt að lækna þessa meinsemd. En það er bara ekki svona, það er ekki hægt að lækna hana með þessu. Og íslenska þjóðin hefur það dýrkeypta reynslu og margra áratuga reynslu af samskiptum sínum og viðureign í þessum málum að mönnum ætti að vera orðið ljóst að það verður og ber ríka nauðsyn til að taka öðruvísi á þessum málum heldur en gert hefur verið af löggjafanum til þessa.

Mönnum er mjög gjarnt í sambandi við þessi mál að vera tíðrætt um áhrif svokallaðra vinveitingastaða og vinveitingahúsa í sambandi við allt það mikla ólán sem skapast vegna ofneyslu áfengis. En eigum við ekki í þessu sambandi að hafa augun opin fyrir því að við búum við þær staðreyndir að við erum með mannfjölda sem skiptir þúsundum og jafnvel tugþúsundum sem óska eftir því að eiga einhvern samastað, aðgang að einhverjum slíkum stöðum, hvort heldur er til þess að fá sér glas af víni eða til að koma saman. En löggjafinn hefur gengið svo frá þessum málum að það er ákaflega erfitt að veita þessa þjónustu.

Ég vil enn fremur benda á þá staðreynd sem er fyrir hendi í okkar þjóðfélagi að æskulýðurinn og á ég þá helst í því sambandi við skólagöngufólkið, fólkið á táningaaldrinum, ef svo mætti að orði komast, þetta fólk sem þannig er háttað um.

það dvelst ekki á sínum heimilum. Það er alveg sama hvernig heimilin eru útbúin. Það er ekki vegna þess að það hafi ekki góða aðstöðu á heimilum. Það er ekki vegna þess, að aðbúð þess er ábótavant, heldur er tíðarandinn sá að aldurshóparnir óska að halda saman, þeir óska að vera í hóp, ræða sín hugðarefni saman og geta gert það á þeim stöðum sem þeir sjálfir ákveða. Ég er því ekki í nokkrum vafa um að mikilvæg og hagræn lækning í sambandi við þessi mál væri að fjölga stórkostlega veitingastöðum, t.a.m. í þéttbýlinu eins og hér í Reykjavík og fleiri þéttbýlisstöðum. Það á að endurskoða gjörsamlega frá rótum ákvæði áfengislöggjafarinnar um það hvar má veita vín og undir hvaða kringumstæðum má veita vin, fyrir utan náttúrlega þá sjálfsögðu ákvörðun og breytingu að leyfa neyslu áfengs öls. En að vera með þá bábilju og hégilju, eins og ríkt hefur í þessum málum, að það sé bundið einhverri eldhúsastöðu og búnaði til matseldar hvort hægt er að drekka kollu af öli og sitja saman og rabba um landsins gagn og nauðsynjar ef menn óska eftir því, sjá menn ekki hvílík bábilja er þarna á ferðinni?

Ég hef reynslu bæði sem neytandi og sem foreldri af þessum málum. Ég er fulltrúi þeirrar kynslóðar sem ólst upp, þegar hún óx upp úr grasi, við spönsku vínin, við tíkarbrandinn við mólinógutlið, við hundaskammtinn, við landabruggið og svo að lokum við kolvitlausa áfengislöggjöf.

Þessum skilyrðum, sem minni kynslóð voru sett af löggjafanum, er ekki að þakka að fleiri af okkur fóru ekki í hundana heldur en farið er. Það má segja að það sé forsjóninni fyrir að þakka að þrátt fyrir allt hefur þó ekki farið verr en fór. Ég held því að í sambandi við þessi mál væri miklu nær að taka til raunhæfrar athugunar að reyna að bæta úr þessum málum. Og ég segi fyrir mitt leyti, að ég vil gjarnan leggja mitt lóð á þá vogarskál að það verði tekið til athugunar hvort við eigum ekki að skapa okkar ungmennum betri skilyrði til þess að geta hist á sómasamlegum litlum veitingastöðum, þar sem þau kynnu að óska eftir að dvelja, hvort heldur yfir kollu af áfengu öli, og þau mega líka fá sér vínglas ef svo ber undir. Með því að skapa skynsamlega reglugerð um framkvæmd og hvernig rekstri slíkra staða væri háttað væri ég ekki í nokkrum vafa um að það væri hægt að finna grundvöllinn fyrir því að þetta fólk umgengist þessa hættulegu vöru, skulum við segja, en vöru sem yfirgefur okkur ekki, hún fylgir okkur frá vöggu til grafar. Þetta er í mörgum tilfellum kannske einhver besti vinur sem mannkyníð á og hefur oft reynst einhver besti gleðigjafi. En það hefur einhvern tíma verið sagt að það má misnota alla vináttu, það er hægt að misnota allt. En staðreyndin er fyrir hendi, að það er alveg sama hvaða löggjöf og hvaða reglugerðir við setjum hér um á hinu háa Alþ., við afnemum ekki samskipti okkar við þessa neysluvöru. Þess vegna hlýtur valkosturinn að vera hvort ekki er hægt að finna einhvern flöt á því, og ég held að það sé veglegt hlutskipti hins háa Alþ. að hafa forustu um að skapa grundvöllinn fyrir því að umgengni þjóðarinnar verði um meðferð þessarar vörn á sem mannsæmastan hátt fyrir þjóðfélagið í heild.