04.05.1976
Efri deild: 95. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3531 í B-deild Alþingistíðinda. (2911)

243. mál, áfengislög

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hér hafa talað um frv. þetta og tekið undir ýmislegt, haft sitt hvað við annað að athuga, eins og ég alltaf átti von á og eins og mér þótti í raun mjög æskilegt varðandi alla þessa umr.

Það er vitað að um áfengismálin í heild eru mjög skiptar skoðanir hér á landi. Það, sem einum sýnist í því efni bjargráð; þykir öðrum mesta óráð, og þannig fer t.d. um okkur alla sem hér höfum talað. Við höfum lagt mikla áherslu á það hvað hér væri um mikið vandamál að ræða, ógnvekjandi vandamál, en við höfum ekki verið fullkomlega sammála um leiðirnar að því marki, og við það er ekkert að athuga.

Aðeins vil ég segja út af því sem hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefán Jónsson, sagði áðan um áfengissjúklingana, ómannúðlegt viðhorf til þeirra, að varðandi þetta atriði hafði ég aldrei út í það hugsað, hreint út sagt, að þeir væru yfirleitt það vel fjáðir að þeir kæmu til greina með að verða mjög hátt skráðir varðandi þessa skráningu hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. (Gripið fram í.) Já, en ég hafði aldrei og gat aldrei ímyndað mér að það kæmi í raun og veru svo mjög við þá, og ég er sannfærður um, að það gerir það auðvitað ekki. Og ég tek það alveg sérstaklega fram, að því er ég sagði í framsögunni, að það var aðstoðarráðh. heilbrigðismála, Adda Bára Sigfúsdóttir, sem fjallaði um þetta mál í heilbrrn. Þá fékk hún reyndar frá áfengisvarnanefndum þessa hugmynd upphaflega, eins og ég skýrði hér frá, kom með hana fyrst til mín og óskaði þess að ég flytti hana hér inn í Alþ. Hennar hugmynd í sambandi við þetta var sú, svo að það fari ekkert á milli mála að við höfum ekki ætlað að lítillækka nokkurn í því efni, hvorki hún eða ég eða við aðrir flm., að það voru leynivínsalarnir, þó ég viðurkenni það og segði í framsögu að þetta gæti verið mjög hæpin aðferð og vafasöm til þess að hafa upp á þeim og síður en svo fyrirbyggjandi. En viðhorf okkar Öddu Báru, svo ég vitni aftur í hana í sambandi við þetta, var eingöngu þetta, að leynivinsalarnir kynnu þó að óttast þetta ákvæði.

Á það hefur verið bent, eins og ég sagði í framsögu minni, að auðvitað gætu leynivínsalarnir bara hreinlega farið til næsta manns og fengið hann til þess að kaupa áfengi í staðinn fyrir sig, og það kann vel að vera. Ég sagði líka áðan að þetta kynni að vera eitt af þeim vindhöggum sem við erum að slá í baráttunni gegn áfengisbölinu. Ég dreg það ekkert í efa að ýmis önnur ráð væru tiltækari, bara ef við fyndum þau, bara ef við ætlum þau.

Hitt vil ég taka skýrt fram, af því mér fannst eins og ræða hv. þm. Stefáns Jónssonar væri eins konar umvöndun og þá auðvitað sérstaklega til mín sem 1. flm. þessarar till. varðandi meðferð ölvaðra og drykkjusjúkra, að þar er ég honum hjartanlega sammála og hef aldrei látið nein orð falla í þá átt að sú meðferð væri til sóma, og 4, gr. lagafrv. hér er einmitt komin til beinlínis til þess að reyna að koma í veg fyrir ýmis stórslys í þeim efnum, þ.e.a.s. um leiðbeiningarstöðina í ofdrykkjuvörnum. Það er svo aftur rétt að ríkið, sjálft ríkið hefur með þessa áfengissölu að gera og síðan er það fært inn á fjárlögin sem hreinn gróðaliður.

Í ágætri ræðu við fjárlagaafgreiðsluna í vetur benti hv. þm. Sigurður Björgvinsson á það hve gífurlega hátt gjaldaliðurinn gæti farið og hann efaðist um það stórlega — og þar er ég honum sammála — að nokkur nettóhagnaður yrði þar af þegar allt kemur til alls. Og ég hygg að það sé meira en sannleikur. Hins vegar er það ekki rétt, því miður að þetta sama ríki sem hefur með áfengissöluna að gera hafi eins og hv. þm. Stefán Jónsson einhverja forustu í baráttunni við áfengisbölið. Það hefur það nefnilega ekki. Ríkisvaldið gerir ákaflega litið í baráttu við áfengisböl og það gerir ákaflega lítið einnig til þess að hjálpa þeim sem eru orðnir áfengissjúklingar, að vísa þeim á réttan veg. Það lætur sér nefnilega að mestu leyti nægja þessa gróðatölu á fjárlögum ár hvert og grípur svo til þess að hækka áfengið sí og æ, ekki til þess að menn hætti við að kaupa það, heldur til þess að fá auknar tekjur í ríkissjóð árlega.

Ég sem sagt vísa því frá mér varðandi 2. gr. að þar hafi ráðið nokkurt ómannúðlegt viðhorf gagnvart áfengissjúklingum, síður en svo, Ég vildi einmitt að okkur tækist að gera miklu meira fyrir þá en gert er. Þar eru ýmis áhugasamtök sem hafa gert hrein kraftaverk í þeim efnum, eins og AA-samtökin sem hafa unnið ákaflega gott verk. Tveir félagar í þessum samtökum eru einmitt í áfengismálanefnd Alþ. sem leggur þessar till. hér fram, og ég held að þeim hafi ekki heldur, hvorugum þeirra, dottið nein ómannúðleg viðhorf í hug varðandi áfengissjúklinga. Þetta á við um leynivínsalana. En ég skal jafnframt játa það að ekki er ég öruggur um árangur sem erfiði af þessari till. okkar, en ég taldi það ómaksins vert engu að siður að koma með hana hér. Áfengisvarnanefndirnar víðs vegar um land höfðu lagt þetta til, og sú manneskja, sem ég met einna mest af þeim sem hafa unnið að okkar heilbrigðismálum, var á þessari skoðun á sínum tíma og því taldi ég rétt að koma þessari till. hér að.

Hv. þm. Jón G. Sólnes kom einmitt að því að þáttur löggjafans væri ekki til að státa af. Það er rétt. En svo fremi að það eigi við þátt löggjafans í setningu löggjafar, hversu miklu fremur á það þá ekki við um framkvæmdina. Það er einmitt í framkvæmdinni sem brotalamirnar eru hvað verstar og hættulegastar, að unga fólkið t.d. veit að því er óhætt að brjóta þessi lög miskunnarlaust án þess að nokkuð sé að gert. Fyrirmyndina um þessi lagabrot hefur það vitanlega frá okkur hinum eldri, það er vitað mál líka.

Ég ætla ekki að fara að deila hér um spurninguna um áfengt öl, það hef ég gert svo oft áður. Ég skal segja hv. þm. Jóni G. Sólnes það, að ég held að ég væri tilbúinn — og hef sagt það áður — ég held ég væri tilbúinn að skipta á þessu tvennu alveg í hreinum skiptum, það kynni vel að vera, áfenga ölinu annars vegar og sterku vínunum hins vegar. Það hefur, held ég, engum talsmanni áfenga ölsins dottið nokkurn tíma í hug að vera hér með hrein skipti. Áfenga ölið á hreinlega að koma inn sem viðbót, viðbót við annað og þá í raun og veru hrein viðbót við áfengisneyslu almennt. En það, sem bjargar okkur töluvert í samanburði við aðrar þjóðir hvað áfengisneyslu snertir, er einmitt þetta, að við höfum ekki áfengt öl. Það er drukkið gífurlega mikið magn af því í mörgum öðrum löndum sem við höfum samanburð við, og hér er beint um að ræða áhrif þessa öls. Ég hef aldrei til útlanda komið svo ég get ekki dæmt þar um, og ég efast um að ég geri það á næstunni, þannig að ég geti fengið þarna af einhvern samanburð. En nægilega mikið veit ég þó án þess að hafa komið þangað til þess að vita að við megum fagna því meðan þetta er ekki algengasti vinnufélagi manna á vinnustað, — ég segi vinnufélagi eða fjandmaður á vinnustað, — áfenga ölið, því það vitum við og það veit ég að hv. þm. Jón G. Sólnes er mér hjartanlega sammála um, að það er ekki hollt í för á vinnustöðum þar sem þetta er orðinn sjálfsagður hlutur og dregur svo úr vinnuafköstum manna að um það liggja fyrir óyggjandi skýrslur.

Annars vegar talaði hann um það að í raun og veru væri vandamálið það að kenna fólkinu umgengni við áfengið. Það væri það sem ætti að gera, en ekki þessi boð og bönn. Fyrir þessu lokuðum við, sem værum með till. í bindindisátt, oft augum. Því miður er bara svo, að það gildir það sama um hvort tveggja, hvort tveggja gengur jafnilla, það að kenna fólkinu þessa umgengni, þessa réttu og sönnu umgengni við áfengi, sem menn tala oft um, og hitt, að setja einhver boð og bönn og ætla með því móti að framfylgja heilbrigðri stefnu í áfengismálum. Við verðum sem sagt einhverja millileið að fara fyrst við treystum okkur ekki til, sem væri hreint óráð miðað við núverandi ástand, að framkvæma algjört áfengisbann, sem væri vitanlega, eins og ég sagði, hreint óráð vegna þess almenningsálits sem er hér vegna þeirra aðstæðna, — ekki kannske vegna þeirrar ömurlegu lýsingar hv. þm. þegar hann var að segja frá bannárunum og Spánarvínsárunum hér áðan, því ýmislegt af því sem hann tilgreindi þar og vildi tilgreina sem fylgifiska þeirra bannára, ýmsa þá fylgifiska þekkjum við nú í dag í öllu áfengisfrelsinu, svo sem bruggið, smyglið og annað því um líkt. Það viðgengst nefnilega mætavel þrátt fyrir allt frelsið og þrátt fyrir ótakmarkaða ómöguleika fólks til þess að ná sér í áfengi á annan hátt. Að það hafi verið hrein einkenni bannáranna sem við höfum blessunarlega losnað við, það held ég að hvorugum okkar detti í hug.

En að lokum aðeins í sambandi við veitingastaðina: Getum við ekki verið sammála um það, þegar við erum að tala um fjölgun veitingastaða fyrir ungt fólk, að við eigum að fjölga þeim á þann hátt að við fjölgum eðlilegum skemmtistöðum fyrir ungt fólk með tilheyrandi tómstundaaðstöðu án þess að áfengi sé þar endilega með í för? Ég held að ég hljóti að hafa skilið hv. þm. Jón G. Sólnes þannig að hann væri ekki að fara fram á að stórfjölga vínveitingahúsum til að koma unglingunum þangað inn, heldur eðlilegum skemmtistöðum án áfengis með góðri tómstundaaðstöðu. Það er einmitt eitt af því sem sú nefnd, sem hefur fjallað um þessi mál, hefur alveg sérstaklega að vikið og mun senda bréf um til þeirra aðila sem helst má vænta forustu frá í þessum efnum, um fjölgun skemmtistaða, og þá ekki bara skemmtistaða eins og Klúbbsins og annarra slíkra óþverrastaða, heldur fjölgun almennilegra staða þar sem ekki væri eintóm ómenning á boðstólum eins og þar t.d. Skal ég þó ekki taka það veitingahús alveg sérstaklega út úr nema af því ég hef oft ekið þar fram hjá og séð alla þá eymd og vesöld sem þar er í kring sem aðeins dæmi auðvitað um eitt af þessum húsum.

Og mín lokaorð skulu vera þau sem ég hafði reyndar fyrr sagt í minni framsögu: Till. okkar eru settar fram til umr. Ég tel að það, sem þegar er komið, hafi verið til góðs, mjög til góðs, bæði það, sem ég hef verið sammála, og það, sem ég hef verið ósammála ekki síður. Öll framhaldandi umr. í þessu efni er til góðs, og hún á að vera hér inni á þingi. Það er okkar skylda að halda henni vakandi, en ekki sofa algjörlega á verðinum og láta það verða sem hv. þm. Stefán Jónsson vék hér að áðan, að ríkisvaldið hafi forustu, raunverulega forustu í baráttunni gegn áfengisbölinu.