04.05.1976
Efri deild: 95. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3534 í B-deild Alþingistíðinda. (2912)

243. mál, áfengislög

Oddur Ólafsson:

Hæstv. forseti. Það voru örfá orð vegna ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. Ég hef aldrei litið á það sem neina sérstaka lítillækkun þó menn þyrftu að láta skrá nafnnúmerið sítt eða sýna einhver skilríki. Ég fer t.d. iðulega inn í banka að fá mér víxil. Ég kemst ekki hjá því að skrifa nafnnúmerið þar og e.t.v. þyrfti ég að sýna það líka, en ég held að ég verði ekki fyrir neinni sérstakri lítillækkun þess vegna. Hins vegar væri kannske mögulegt að gera þetta lítillækkandi ef upp væri hafinn nógu mikill áróður fyrir að svo væri, en það held ég að sé algjör misskilningur. Það er a.m.k. ekki tilgangur flm. Þeir hafa þann tilgang, eins og getið var um áðan, í fyrsta lagi að ná til leynivínsala. Í öðru lagi vekur skilríkið athygli á þeirri staðreynd að hér er ekki um venjuleg matvælainnkaup að ræða. Það hlýtur að vera eitthvað sérstakt um þau kaup að segja þar sem þarf skilríki til kaupanna. Þetta tvennt, að það geti ekki allir farið þarna inn og keypt, ekki þeir sem eru innan við ákveðinn aldur, og svo einnig hitt, að menn þurfa að hafa skilríki, þá er það m.a. til þess að geta síðar flett upp í plöggum og séð hvað mikið hefur veríð keypt og af hverjum, hvort það t.d. getur verið skýring á sjúkdómi eða einhverju því öðru sem aflaga hefur farið. Og það er sannarlega mikil ástæða til þess að beita einhverju slíku, því hér er miklu meiri alvara á ferðum heldur en menn virðast gera sér grein fyrir. Einmitt 4. gr. þessa frv. á, eins og síðasti ræðumaður gat um, að reyna að gera tilraun til að bæta um í þessu efni. Hún á að reyna það. Og ég held að ef við getum náð til þeirra, sem hafa drukkið mikið, nógu snemma, áður en áfengið er búið að eyðileggja of mikið af þeirra heilasellum, þeirra æðum eða maga, ef við getum tekið þá og meðhöndlað þá á réttan hátt, þá er mikið fengið, eins og t.d. við berklasjúklingarnir vorum í gamla daga teknir, hvað sem við sögðum, jafnvel með lögregluvaldi, þó að við værum frískir, færðir inn á sjúkrahús, látnir liggja þar kannske árum saman. (Gripið fram í.) Já, og möguleikinn til að lækna okkur. Og það má segja um áfengissjúklinginn líka, hann er öðrum hættulegur. Það vita allir að áfengissjúklingur er öðrum hættulegur t.d. undir stýri, og svo er líka vitað mál að við meiri hluta glæpa hér á landi er áfengi einhvers staðar í grenndinni. (Gripið fram í.) Rétt. Ekki skal standa á mér.