04.05.1976
Neðri deild: 96. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3535 í B-deild Alþingistíðinda. (2919)

194. mál, íslensk stafsetning

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðulegi forseti. Þótt hér sé um þýðingarmikið mál að ræða skal ég láta nægja stutta framsögu.

Allar breytingar á íslenskri stafsetningu síðan tekið var að gefa út opinberar tilskipanir um þau efni, ekki síst, þær hafa vakið umtal og oftast deilur. Síðustu breytingar, sbr. reglugerð nr. 272/1973 og reglugerð nr. 132/1974, voru engar undantekningar í þessu efni. M.a. hefur gagnrýni komið fram á Alþ. núna um þessar síðustu breytingar. Eins og kunnugt er liggur fyrir Alþ. frv. um að hverfa frá breytingum þeim, sem gerðar voru 1973 og 1974, og binda með lögum eldri tilhögun. Það er vitað að um þetta allt saman eru að sjálfsögðu skiptar skoðanir. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, snertir aðeins óbeint þennan ágreining, og ég skal gera í mjög stuttu máli grein fyrir frv. og tildrögum að flutningi þess.

Á síðasta þingi var samþ. ályktun um að skora á ríkisstj. að undirbúa löggjöf um íslenska stafsetningu. Það kemur tvennt til álita í sambandi við slíka löggjöf, tel ég: annars vegar að Alþingi ákveði sjálft með lögum stafsetningarreglur í einstökum atriðum, svo sem lagt er til í fyrrnefndu frv. Gylfa Þ. Gíslasonar og fleiri hv. þm., og svo hins vegar að sett verði lög um meðferð stafsetningarmála eingöngu þar sem kveðið sé á um það með hverjum hætti taka skuli ákvarðanirnar. En reglugerðir þær, sem út hafa verið gefnar um þetta efni, styðjast ekki við bein lagafyrirmæli eins og kunnugt er.

Ég hallast að síðarnefndu leiðinni, eins og frv. raunar ber með sér. Þar ber einkum tvennt til. Alþingi fjallar um ákaflega margvísleg málefni og það væri að mínum dómi að bera í bakkafullan lækinn að það tæki einnig að sér að semja reglur um stafsetningu, um greinarmerki o.s.frv. Í annan stað tel ég almennt skoðað að tíðar breytingar á íslenskri stafsetningu séu afar óæskilegar. En samsetning Alþings er að sjálfsögðu mjög breytileg, reglulegar kosningar fjórða hvert ár o.s.frv., og kynni það að örva til breytinga, hvetja til örari breytinga.

Á hinn bóginn sýnist mér það bæði sjálfsagt og eðlilegt að meðferð stafsetningarmálanna lúti ákveðnum fyrirmælum í íslenskri löggjöf. Það tel ég sjálfsagt. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að um breytingar allar verði fjallað nánast á þremur stigum. Komi til tals að breyta viðteknum stafsetningarreglum, þá skipar menntmrn. samkv. tilnefningum nefnd sérfróðra manna og leitar síðan umsagnar fleiri aðila eftir því sem ástæður þykja til. Þá semur menntmrn. reglur um stafsetninguna, um breytingarnar, sem til greina kynnu að koma, og svo loks skal aflað heimildar Alþingis fyrir breytingunum eins og þær þá lægju fyrir. Hér er sem sagt lagt til að ekki sé raskað þeirri hefð sem gilt hefur að menntmrn. setji reglur um stafsetninguna, en leitast við að tryggja bæði áhrif málvísindamanna við allan undirbúning og svo það jafnframt að leyfi til breytinganna sé bundið samþykki Alþingis.

Ég skal nú engu spá um það, hversu hv. alþm. líst þessi aðferð, en rétt þykir mér að leggja þessa hugmynd fram til skoðunar samhliða öðrum. Mér er alveg ljóst að það getur þurft að gera ýmsar breytingar á þessu frv., þótt fallist yrði á tilhögunina í megindráttum, og vitanlega kann svo að fara að hv. alþm. hafni þessari hugmynd með öllu, það er mér alveg ljóst. Þetta hefur ekkert verið rætt hér og um það ríkir vitanlega fullkomin óvissa, og við því er þá ekkert að segja. En ég hins vegar minni á það, að Alþ. hafði falið ríkisstj. að undirbúa frv. um stafsetninguna og að þetta frv. er samið í menntmrn. Og þó að ekki þætti eðlilegt að flytja það sem stjfrv., þar sem þá líka ráðh. voru ekki öldungis á eitt sáttir um efni þess, þá hafði ríkisstj. hins vegar ekkert við það að athuga að ég legði það fram á þann hátt sem ég hef gert.

Eins og ég sagði áðan, þá snertir þetta frv. aðeins óbeint þann ágreining sem risið hefur m.a. hér á hv. Alþ. um breytingarnar frá 1973 og 1974, og mér varð það strax ljóst af viðtölum við einstaka þm., að lögfesting þeirra ákvæða, sem í þessu frv. felast, mundu eins og nú er ástatt sæta harðri andstöðu beinlínis vegna þessa ágreinings. Ég tel mjög æskilegt að leysa þetta mál í heild eftir því sem unnt er með víðtæku samkomulagi hér á Alþ., og ég held að það sé skynsamlegt að skoða þær hugmyndir sem þetta frv. felur í sér um leið og aðra þætti málsins sem þegar liggja fyrir Alþingi í formi þingmáls.

Ég legg svo til að frv. verði að lokinni umr. vísað til menntmn.