04.05.1976
Neðri deild: 96. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3542 í B-deild Alþingistíðinda. (2928)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 411 er frv. til l. um breyt. á lögum um Búnaðarbanka Íslands. Þetta frv. er heildarlöggjöf er varðar bankann að öðru leyti en stofnlánadeild og veðdeild bankans. Lögin um stofnlánadeild Búnaðarbankans voru endurskoðuð 1973, en gert er nú ráð fyrir að endurskoða þau á nýjan leik og sömuleiðis lögin um veðdeild Búnaðarbankans.

Er ég kynnti þetta mál í hv. Ed. gerði ég ítarlega grein fyrir starfsemi bankans og hvernig hann hefur vaxið á síðari árum, en mun ekki að þessu sinni fara út í það tímans vegna, heldur aðeins gera grein fyrir því hvað hér er á ferðinni, en með þessu frv. er gert ráð fyrir að heildarlöggjöf Búnaðarbankans sé samræmd heildarlöggjöf annarra ríkisbanka, þ.e. Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands.

Það hefur verið rætt um það á undanförnum árum að setja eina löggjöf fyrir ríkisbankana, og þó að þetta frv. verði að lögum, sem ég vona, þá breytir það engu um að hægt sé að fella það saman í eina löggjöf, heldur væri þá búið að samræma þessa löggjöf Búnaðarbankans sem er að stofni til orðin mjög gömul eða frá því 1941 eða 1942 og nauðsyn ber til að samræma starfsemi hinna óankanna, ekki síst þar sem Búnaðarbankinn er nú orðinn annar stærsti bankinn í landinu og fer ört vaxandi og hefur gert svo á síðustu árum.

Það atriði, sem hér er til meðferðar, er að yfirstjórn bankans verður með sama hætti og er hjá öðrum ríkisbönkum, að gert er ráð fyrir að bankastjórar verði þrír eða heimild verði til þess og einnig að þar megi ráða aðstoðarbankastjóra eins og er í hinum ríkisbönkunum.

Enda þótt það sé ekki tekið fram í þessu frv. að Búnaðarbankinn megi hafa gjaldeyrissölu til meðferðar eins og hinir bankarnir hafa og Seðlabankinn og Póstur og sími einnig, þá er stefnt að því, eftir að þetta frv. yrði orðið að lögum, að gera samning við Seðlabankann um það, en í 19. gr. seðlabankalaganna er heimild til þess að semja við bankann um rétt til þess að versla með erlendan gjaldeyri og verður stefnt að því að gera það. Það er líka hugsunin með þessu að starfsemi Búnaðarbankans, enda þótt hún sé að verulegu leyti í þágu atvinnuveganna, verði það í enn ríkari mæli ef hann fengi gjaldeyrisréttindi því þá mundu þau fyrirtæki, sem skipta við hann með önnur viðskipti sín en gjaldeyrisviðskipti, einnig geta haft við hann gjaldeyrisviðskipti og þar af leiðandi aukið viðskipti sín við þann banka. Sömuleiðis er það svo með þróun þeirri sem átt hefur sér stað á síðari árum með útfærslu bankanna með útibúastofnun, að það gerir að verkum að nauðsyn ber til að nokkur verkaskipting eigi sér stað milli bankanna í ríkari mæli en verið hefur. Að þessu yrði stefnt með því samkomulagi sem Búnaðarbankinn kæmi til með að gera í sambandi við gjaldeyrisréttindi sín.

Fleiri atriði eru og í frv. þessu sem ganga í þá meginstefnu að lög Búnaðarbanka Íslands verði hliðstæð lögum annarra ríkisþanka, viðskiptabanka, og þess vegna er þetta frv. flutt.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn., og ég leyfi mér jafnframt að óska eftir því við hv. landbn. að hún hraði afgreiðslu málsins svo það geti orðið að lögum á þessu þingi.