04.05.1976
Neðri deild: 96. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3550 í B-deild Alþingistíðinda. (2934)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Hv. landbn. hefur rætt þetta frv. á mörgum fundum og sent það til umsagnar ýmissa aðila. Umsagnir bárust frá sumum þeirra og voru flestar jákvæðar þó þar kæmu fram allmargar ábendingar um breytingar. N. kvaddi á sinn fund Svein Tryggvason framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs landbúnaðarins, Stefán Björnsson forstjóra Mjólkursamsölunnar í Reykjavík, Skúla Johnsen borgarlækni, Baldur Johnsen frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins og enn fremur fulltrúa frá Kaupmannasamtökum Íslands. Enn fremur var haft samband við formann Stéttarsambands bænda. N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþ. með nokkrum breytingum sem ég mun koma að síðar.

Eins og segir í aths. við frv. skipaði hæstv. landbrh. n. í marsmánuði 1973 sem átti að kynna sér fyrirkomulag á sölu og dreifingu á mjólk og mjólkurvörum víðs vegar um land og gera till. um breytingar ef að athuguðu máli það sýnist nauðsynlegt. Þessir menn voru skipaðir í n.: Þorsteinn Sveinsson kaupfélagsstjóri, Egilsstöðum, Hreinn Sumarliðason kaupmaður í Reykjavík, Ólafur Andrésson bóndi í Sogni. Bjarni Helgason frá Neytendasamtökunum í Reykjavík, Stefán Björnsson forstjóri í Mjólkursamsölunni í Reykjavík og Sveinn Tryggvason framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins er var formaður n. N. skilaði verkefni sínu í desembermánuði sama ár og varð sammála um að rétt væri að taka til endurskoðunar fyrirkomulag á sölu og dreifingu á mjólk, rjóma og skyri og öðrum skyldum vörum.

Þegar núverandi verðlagskerfi var tekið upp á landbúnaðarvörum árið 1947 kom til hið svokallaða grundvallarverð á landbúnaðarvöru, sem er það verð, sem framleiðendum er ætlað að fá fyrir framleiðslu sína hverju sinni. Kostnaði við vinnslu og dreifingu landbúnaðarafurða er síðan bætt ofan á þetta svokallaða grundvallarverð. Sé sá kostnaður mikill hækkar það verðið til neytenda, en lækkar ekki útborgunarverð til framleiðenda svo framarlega sem kostnaðurinn er rétt metinn af Sexmannanefnd. Þessu var ekki þannig farið þegar mjólkurl. voru sett. Hver sparaður eyrir kom þá af sjálfu sér sem hækkun útborgunarverðs og allar aukatekjur gerðu það einnig.

Þær verslanir, sem nú eru orðnar algengar og kallast kjörbúðir eða sjálfsafgreiðslubúðir, voru óþekktar árið 1935 þegar fyrstu mjólkursölulögin voru sett. Þá voru sérverslanir í stærra mæli en nú er. Datt þá fáum í hug að hægt væri, eða forsvaranlegt að selja mjólk í öðrum verslunum en sérstökum mjólkurbúðum og brauðsölubúðum.

Umbúðir utan um mjólk hafa einnig tekið miklum breytingum. Sala mjólkur á flöskum og í lausu máli var þá ríkjandi og hefur því orðið mikil breyting á þessu eftir að plastumbúðir voru teknar í notkun. Nú vilja flestir neytendur fá keyptar allar matvörur sínar, þar með taldar mjólk og mjólkurvörur, á einum og sama stað í hinum svokölluðu kjörbúðum. Þar er mikið vöruúrval að öllum jafnaði og allt annað en áður var í slíkum verslunum. Ekki má hins vegar gleyma því að mjólkin og skyrið og aðrar álíkar vörur eru mjög viðkvæmar í geymslu. Verður því að hafa þær verslanir, sem versla með slíkar vörur, þannig úr garði gerðar að ekki sé hætta á því að þessar vörur skemmist af utar.aðkomandi áhrifum.

Verði mjólkursalan gefin frjáls og mjólkurbúðir Mjólkursamsölunnar lagðar niður yrði Samsalan fyrir verulegum tekjumissi. Frá upphafi voru seldar brauðvörur, sælgæti, öl og gosdrykkir o.fl. í mjólkurbúðum Samsölunnar til þess að lækka rekstrarkostnað. Þessar sölutekjur námu í byrjun um það bil 14% af heildarsölutekjum búðanna, en nú nálægt 20%.

N. lagði til að gerðar yrðu eftirfarandi breytingar á mjólkurdreifingunni:

1) Tekin verði upp sér stök skráning á heildsöluverði nýmjólkur, rjóma, súrmjólkur, jógúrts og öðrum slíkum vörum sem nú eru ekki skráðar sérstaklega í heildsölu. Smásöluverðsálagning verði einnig ákveðin sérstaklega á þessum vörutegundum. Þessi verðskráning, svo sem ákvörðun á heildsöluverði verði gerð af Sexmannanefnd eða þeim verðlagsyfirvöldum sem síðar kynni að vera falin verðskráning búvara.

2) Einkaréttur Mjólkursamsölunnar eða mjólkursamlags á sölu mjólkur, rjóma og skyrs nái aðeins til heildsöludreifingar, en ekki til smásöludreifingar eins og verið hefur.

3) Við dreifingu mjólkur, rjóma, skyrs og annarra skyldra vara, svo sem súrmjólkur, jógúrts og undanrennu, skal heildsöluaðili taka sérstakt losunargjald sem ákveðið er af Sexmannanefnd. Sé gjald þetta ákveðið án tillits til þess vörumagns sem losað er hverju sinni frá bifreið heildsöluaðila við útsölustað.

4) Ekki skal leggja neinar hömlur á hvaða smásöluverslanir megi selja umræddar vörur, en þó má ekki selja vörurnar í verslunum sem heilbrigðisyfirvöld viðkomandi sveitarfélaga telja að fullnægi ekki kröfum er gera verður um hreinlæti og annan útbúnað.

Það kom fram hjá borgarlækni að úrbóta væri þörf í mörgum tilvikum í þeim verslunum sem nú selji mjólk og til þess að fá nauðsynlegar úrbætur mundu heilbrigðisyfirvöld innkalla öll leyfi til sölu á mjólk og mjólkurvörum ef frv. þetta yrði að lögum. Taldi borgarlæknir að nauðsynlegar lagfæringar mundu taka langan tíma og því væri óvarlegt að gera ráð fyrir að yfirtakan á smásölunni gæti farið fram fyrr en á næsta ári. Varð samkomulag um það milli aðila að miða þessa yfirtöku í síðasta lagi við 1. febr. 1977.

Í árslok 1973 lágu fyrir till. n. um breytingar á sölumálum mjólkur, eins og að framan greinir. Fyrirhugað var að þær fylgdu með heildarskoðun á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl. sem þá hafði verið í undirbúningi nokkurn tíma. Hins vegar kom í ljós, þegar sú endurskoðun lá fyrir, að ekki reyndist þingmeirihl. fyrir þeim till. sem lagt var til að gerðar yrðu á lögunum. Og þannig standa málin enn í dag.

Hér í sölum Alþ. er því miður mjög takmarkaður skilningur á gildi og þýðingu landbúnaðarins fyrir þjóðina, enda hefur það verið mjög í tísku að undanförnu að kenna honum um flest það sem miður hefur farið í þjóðfélaginu og hæst hafa þeir gasprað er minnsta þekkingu hafa á þessum málum, eins og oft vill verða. Hér í hv. Alþ. gerðist það fyrir fáum árum að formaður eins stjórnmálaflokks lagði til að dregið yrði mjög úr framleiðslu kindakjöts, en aftur á móti yrði stóraukin framleiðsla á ull og gærum. Fleira þessu líkt mætti telja upp, ef þurfa þykir.

Ég held að það sé ekki ofsagt að það ríki engin bjartsýni meðal bænda um að framleiðslulögunum verði breytt á næstunni, a.m.k. ekki þeim til hagsbóta, þó óvefengjanlega liggi fyrir að bændur hafi aldrei náð þeim launum sem þeim er ætlað, lögum samkvæmt þ.e.a.s. svipuðum launum og aðrar vinnandi stéttir hafa á hverjum tíma. Þegar eins sanngjarn maður og hv. þm. Eðvarð Sigurðsson talaði eins og hann gerði hér í hv. Alþ. um þessi mál s.l. föstudag. hvers er þá að vænta um suma aðra? Hv. þm. á sæti í landbn. Nd. og ætti því að hafa meiri innsýn í þessi mál en ýmsir aðrir hv. þm. Samt sem áður talaði hann um þær breytingar á framleiðsluráðslögunum, sem nú er verið að fjalla hér um, í nokkurs konar hneykslunartón og taldi það næstum að segja ósvinnu að meiri hl. landbn. skyldi leggja til að þessar till. yrðu samþ. á þessu þingi. Hins vegar var hv. þm. búinn að lýsa yfir fylgi sínu við þá grundvallarbreytingu sem í frv. felst, að gefa frjálsa smásöluna á mjólk og mjólkurvörum.

En þessi breyting leiðir það af sér að ekki verður komist hjá því að taka um leið til endurskoðunar ákvæði um verðjöfnun á mjólk og mjólkurvörum, því breytingin sjálf leiðir það af sér að í ýmsum tilvikum kallar hún á aukna verðjöfnun, ella kæmi breytingin svo misjafnlega niður á vinnslustöðunum og þá um leið bændum á viðkomandi svæði að ekki verður við unað. Ég vil ekki trúa því að óreyndu að hv. þm. Eðvarð Sigurðsson láti sig það engu skipta. Ég hef a.m.k. staðið í þeirri trú fram að þessu að hann vilji jafna aðstöðumuninn í þjóðfélaginu, en ekki hið gagnstæða. Til að auka rekstrarhagkvæmni í mjólkurbúunum og sláturhúsunum hefur verið stefnt að því að gera þau stærri, en af því leiðir að flutningsleiðir að þeim stöðvum verða lengri.

Í raun og veru er það á valdi löggjafans hvort þessi stefna nær fram að ganga eða ekki, því ef flutningakostnaðurinn verður ekki verðjafnaður er þessi tilfærsla óhugsandi þar sem bændum yrði herfilega mismunað með slíku móti. Það er álit þeirra sem best þekkja til þessara mála að þó að tekið væri fullt tillit til þess kostnaðar sem af flutningunum leiðir, þá mundi verðið á þessum vörum lækka til neytendanna þar sem vinnslukostnaður yrði til muna lægri í fullkomnum vinnslustöðvum en í hinum smáu sem vegna mikils stofnkostnaðar gætu ekki tekið í þjónustu sína eins fullkominn tæknibúnað. Enn fremur er talið að það sé mjög hagkvæmt fyrir þjóðarheildina að mjólkurvinnslustöðvarnar taki upp ákveðna og fastmótaða verkaskiptingu sín á milli, ein vörutegund sé framleidd á þessum stað og önnur á hinum.

Þó þessi verkaskipting sé hagkvæm og heildarfjármagnskostnaður verði minni með þessum hætti í öllum mjólkurstöðvunum á landinu, þá verður fjármagnskostnaðurinn mjög mismunandi á hverja einingu eftir því hvað á að framleiða í hverri vinnslustöð. Ef á að koma þessari verkaskiptingu á milli mjólkurstöðvanna og notfæra sér hina fullkomnustu tækni og sjálfvirkni sem nú þekkist leiðir það af sér mikinn mismun milli aðila á kostnaði við fjárfestingu og flutningskostnaði að og frá vinnslustöðvunum. Til að hægt sé að greiða framleiðendum sama verð fyrir framleiðsluna, hvar sem þeir eru búsettir á landinu, eins og framleiðsluráðslögin ætlast til, þá verður ekki hjá því komist að verðjafna áður nefnda tvo kostnaðarliði.

Ég vil ekki trúa því að óreyndu að hv. alþm. vilji stuðla að því með lagasetningu að bændum verði mismunað eða vilji hindra eðlilega verkaskiptingu milli vinnslustöðvanna, en slík verkaskipting mundi stuðla að betri nýtingu og betri og verðmeiri framleiðslu.

Eins og sjálfri verðlagningunni er háttað á lögum samkv. að tryggja bændum svipaðar tekjur og vinnustéttirnar hafa eða viðmiðunarstéttirnar, eins og stendur í lögunum, þ.e.a.s. verkamenn, iðnaðarmenn og sjómenn. Að vísu hefur það gengið þannig að bændur hafa aldrei náð þessum launum, en að því hlýtur að verða stefnt að þessu marki verði náð. Og það er siðferðileg skylda þjóðfélagsins að tryggja bændum svipuð kjör og aðrar stéttir hafa á hverjum tíma. Út frá því verður að ganga að það verði gert, og þá hlýtur öll hagræðing, er stuðlar að minni vinnslukostnaði, að koma neytendum til góða. Því er það hagur neytendanna fyrst og fremst að þeirri skipun sé komið á sem stefnt er að nú í þessu efni.

Á þskj. 555 eru þær brtt. sem meiri hl. hv. landbn. hefur gert við þetta frv. En áður en ég lýsi efnisatriðum þeirra tillagna vil ég taka fram í sambandi við 2. gr. frv., en 2. gr. frv. er um að Framleiðsluráð úthluti leyfum til slátrunar stórgripa, þ.e.a.s. nautgripa og hrossa, að það er vitnað í þeirri gr. í 18 gr., en á að vera í 14. gr., en 14. gr. laganna er m.a., með leyfi forseta um það „að leyfi til slátrunar skal veita öllum félögum og einstaklingum, sem slátrunarleyfi höfðu haustið 1965“. Það felur í raun og veru í sér að það sé ætlast til þess að þeir, sem hafa nú leyfi til þess að slátra eða nú slátra nautgripum og hrossum í húsum sem eru sæmilega búin, þeir haldi slíkum leyfum eins og var gert með lögum frá 1966.

Það kom fram umsögn frá starfsstúlkum í mjólkurbúðum þar sem þær höfðu áhyggjur af því að ef þessi breyting yrði, þá mundu þær missa vinnuna. Um þetta var rætt við kaupmennina og þeir hétu því að gera það sem í þeirra valdi stæði til þess að útvega þessum konum vinnu. En landbn. hafði af því áhyggjur að fyrir stóran hóp kvenna, sem um langt árabil hefur starfað í mjólkurbúðum og eru orðnar fullorðnar, yrði erfitt að fá vinnu. Að vísu er engin trygging fyrir því að Kaupmannasamtökin geti útvegað þessum konum öllum vinnu, en þau hétu því, að gera það sem í þeirra valdi stæði til þess.

Hér eru einar 12 brtt. Flestar af þeim eru aðeins um að orðalagi sé breytt, en nokkrar samt um efnisatriði, og ætla ég aðeins að drepa á þau helstu.

Brtt. er um það, að þegar í fjallað er um það sem viðkemur hrossum í sambandi við verð á hrossakjöti, þá verði kallað til Hagsmunafélag hrossabænda á sama hátt og kallaðir eru til í Sexmannanefnd fulltrúar frá félögum t.d. garðyrkjubænda og eggjaframleiðenda.

Varðandi 5 brtt., þá var í sambandi við losunargjaldið ákveðið að gjaldið skyldi vera jafnhátt að krónutölu hvort sem þar væri lítið eða mikið magn sem væri losað á hverjum stað. En n. breytir þessu í heimildarákvæði. N. getur ákveðið gjald þetta jafnhátt í krónutölu.

Í 8. brtt. er lagt til að ef væri talið eitthvað ábótavant með framleiðsluna á mjólk, þá kæmi þar ekki einungis til mjólkureftirlitsmaður og héraðslæknir, heldur einnig héraðsdýralæknir. Við bættum honum við, að hann fjallaði um lokunina ef þætti ástæða til þess að hætta að taka mjólk af framleiðendum. Enn fremur er þar sett: „Um framkvæmd þess sölubanns skal setja ákvæði í reglugerð.“ Og hér segir áfram í 8. brtt. „Nú telur heilbrigðisnefnd eða héraðslæknir meðferð sölumjólkur áfátt hjá einstöku mjólkurbúi og mjólkursöluaðila, og getur heilbrigðisnefnd þá stöðvað sölu mjólkur frá þeim aðila og krafist úrbóta á því, sem áfátt er, áður en sala hefur verið leyfð að nýju. Um slíkar aðgerðir ber n. að hafa samráð við Heilbrigðiseftirlit ríkisins.“

Í 10. brtt. setur n. til samræmingar í sambandi við fjármagnskostnaðinn í sláturhúsum inn í b-liðinn: „Í því sambandi er heimilt að taka tillit til mismunandi fjármagnskostnaðar mjólkurbúa.“

E-liðurinn er þannig, með leyfi forseta: „Heimilt er að taka verðjöfnunargjald af öllum búvörum til að jafna halla á útflutningi ef verðábyrgð samkvæmt 12. gr. nægir ekki.“ Brtt. okkar er: „Gjald þetta hefur ekki áhrif á dreifingarkostnað eða útsöluverð“ þ.e.a.s. að auðvitað mundu bændur bera þetta sjálfir.

Síðasta brtt., sem ég sé ástæðu til að nefna, er: „Breytingar þær, sem felast í 3.–8 gr. frá eldri ákvæðum, skulu koma til framkvæmda eigi síðar en 1. febr. 1977“ — þ.e.a.s. yfirtakan á mjólkursölunni.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þessar brtt.