04.05.1976
Neðri deild: 97. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3555 í B-deild Alþingistíðinda. (2937)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn., en álit meiri hl. er á þskj. 616. N hefur haldið fundi bæði í gærkvöld og í dag, og voru fundirnir sameiginlegir með fjh.- og viðskn. beggja þd. Ég mun nú rekja í örstuttu máli vinnubrögðin í nefndinni.

Það komu allmargir aðilar til fundar við n. og gerðu þar grein fyrir viðhorfum sínum og veittu ýmsar upplýsingar. Ráðuneytisstjórarnir í fjmrn. og dómsmrn. gerðu sérstaklega grein fyrir fjárþörf Landhelgisgæslunnar, en sú fjárþörf er áætluð samkvæmt þessu frv. 750 millj. kr. Við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1976 var við það miðað að útgjöld Landhelgisgæslu næmu rúmlega 907 millj. kr. árið 1976, en til viðfangsefna Landhelgisgæslunnar voru þá ekki talin skipin Baldur og Ver. Þessir ráðuneytisstjórar áttu viðræður við fjhn.- menn 12. mars s.l. Þá kom fram að áætluð hækkun, sem nauðsynleg væri vegna Landhelgisgæslunnar, væri um 500 millj. kr. Þá var reiknað með að almennur rekstrarkostnaður á þeim skipum og flugvélum, sem ætlað var til á fjárl., ykist um 22 millj. kr. á mánuði á þessu ári eða samtals um 264 millj. kr. Sérstök aukning á leiguflugi frá því í mars og út árið var áætlað áð kostaði um 3 millj. á mánuði og tækjaöflun til úrbóta skipum og flugvélum 50 millj. til viðbótar fjárlögum. Vegna skipaleigu voru svo áætlaðar 150 millj. Það var skipið Baldur. Eftir að þessi áætlun var gerð hefur togarinn Ver verið tekinn á leigu. Áætlað er að leigugjald fyrir það skip verði 30 millj. kr. á árinu, en svipaður rekstrarkostnaður og á Baldri eða um 90 Millj. kr. Nýir kjarasamningar hafa svo komið til síðan þessi áætlun í mars var gerð. Þeir munu valda kostnaðarauka sem talinn er nema um 90 millj. kr. Þá var rekstrarskuld frá síðasta ári 40 millj. kr. Þannig sést að fjárþörf Landhelgisgæslunnar er 750 millj. kr.

Hæstv. sjútvrh. kom á fund n. og gerði grein fyrir fjárþörf vegna fiskverndar, en til hennar er ætlað að verja samkv. þessu frv. 250 millj. kr. Það má segja að það sé nokkuð erfitt um nákvæma sundurliðun á þessum kostnaði, en viðfangsefnin eru mörg og ég nefni þessi helst: Botnfiskarannsóknir er áætlað að framkvæma og munu standa yfir samningar um leigu á togara vegna leitar að karfamiðum. Þetta þarf að gera til þess að draga úr sókninni í þorskstofninn. Þá verður leitað að grálúðumiðum og þarf að taka bát á leigu til þess. Einnig verður leitað að skarkolamiðum fyrir Norður- og Austurlandi. Það verður framkvæmd loðnuleit á djúpmiðum fyrir Norðvestur- og Norðurlandi, það mun rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson framkvæma. Leitað verður djúpsjávarrækju og leitað kolmunna, og svo mætti lengi telja. Samkvæmt því fiskveiðilagafrv., sem hér er nú til umr. í þinginu, er gert ráð fyrir stórfelldri aukningu á eftirliti með veiðunum. Þetta eru helstu viðfangsefnin, og eins og ég sagði er ætlað að verja til þessa 250 millj. kr. og sýnist sjálfsagt ýmsum að hér sé tiltölulega lítilli upphæð varið til þessara mikilvægu mála.

Á fund n. komu svo í morgun fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands. Þeir lýstu þar ályktun sem miðstjórn ASÍ gerði á fundi sínum í gær, og þeir lýstu viðhorfum sínum til þessa frv. Ég þarf í sjálfu sér ekki að fara mörgum orðum um þessa ályktun miðstjórnarinnar, hún er sjálfsagt öllum kunn. En í stuttu máli má segja að miðstjórnin viðurkenni þörf á aukinni fjáröflun til landhelgisgæslunnar. Hún getur einnig eftir atvikum fallist á að það sé farin sú leið, sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. að fjárins sé aflað með tímabundinni hækkun vörugjalds. Miðstjórnin tekur að öðru leyti fram varðandi önnur tekjuöflunarákvæði frv. að hún telur óeðlilegt að vegáætlun, eins og það er orðað, „sé nú rifin upp og eyðslufé hennar aukið um hvorki meira né minna en 620 millj. kr.“ Hún mótmælir hækkun bensíns sem áætluð er 170 millj. Hún fellst hins vegar á takmörkun persónuafsláttar til greiðslu útsvara, en um það fjallar H. kafli frv. Og miðstjórnin getur fallist á að ákvæði skattalaga frá s.l. ári um skyldusparnað verði framlengd til loka þessa árs, en um það fjallar III. kafli frv. Hins vegar mótmælir miðstjórn Alþýðusambandsins ákvæðum 2. mgr. 8. gr. sem fjallar um það að verðhækkun sú, er leiði af þeim hluta hækkunar vörugjalds, sem gengur til landhelgisgæslu og fiskverndar, skuli ekki hafa áhríf til hækkunar á launum.

Þetta eru helstu atriði úr ályktun Alþýðusambandsstjórnarinnar:

Þá komu á fund miðstjórnarinnar einnig í morgun fulltrúar frá Vinnuveitendasambandinu og Verslunaráði. Þeir lýstu einnig viðhorfum sínum til frv. og í stuttu máli má segja að þeirra skoðun hafi verið að frv. væri í meginatriðum andstætt þeirri stefnu; sem þeir hafa sett fram í sambandi við ríkisfjármál. Þeir telja að draga eigi frekar úr ríkisútgjöldum heldur en gert hefur verið. Það er rétt að geta þess, að fulltrúar Verslunarráðsins mótmæla þeim fullyrðingum sem koma fram í ályktun Alþýðusambandsins um að vörugjaldið muni færa kaupsýslustéttinni. 400–500 millj. kr. í auknum tekjum. Þeir lögðu fram skjal þar sem er athugun á afkomu verslunarinnar. Þeir telja sig sýna fram á að verslunin hafi ekki fengið leiðréttingu mála sinna sem aðrir og fremur væri þörf á hækkun álagningar en lækkun.

Fulltrúi Félags ísl. iðnrekenda gerði grein fyrir skoðunum iðnrekenda á frv. og sérstaklega á 5. gr. þess. Þeir hafa sent inn nú síðdegis í dag, eftir að nefndarfundur í Nd.- nefndinni var haldinn, ákveðnar brtt. sem ég mun koma á framfæri við fjh: og viðskn. hv. Ed. Þessar brtt., sem ég tel rétt að gera aðeins grein fyrir, eru viðbót við 2. gr. gildandi laga um sérstakt tímabundið vörugjald. Það er viðbót við greinina sem hljóðar svo: „Á sama hátt skal endurgreiða framleiðanda ógjaldskyldrar framleiðslu það sérstaka vörugjald sem hann hefur sannanlega greitt við kaup á hráefnum og efnivörum til framleiðslu sinnar.“ Ég vil aðeins í þessu sambandi benda á að í 7. gr. frv. er heimild til ráðh.; sem ég hygg að muni duga til þess að fullnægja þessum óskum Félags ísl. iðnrekenda. — Þá er einnig brtt. við 5. gr. frv. þar sem lagt er til að 1. mgr. 5. gr. orðist svo: „Það hækkaða vörugjald, sem lagt skal á innlenda framleiðslu og innflutning samkv. 1. gr. laga þessara, skal greitt af sölu eða annarri afhendingu innlendrar framleiðslu frá og með 5. júní 1976 og af innfluttum vörum sem teknar eru til tollmeðferðar frá og með 5. maí 1976.“ Þetta atriði hefur verið rætt sérstaklega við fjmrh., og það mun verða tekið til sérstakrar athugunar í rn. hvernig með skuli fara.

Þá komu á fund n. fulltrúar frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Þeir tóku fram að fundur í stjórn bandalagsins hefði ekki verið haldinn, en lýstu engu að síður viðhorfum sínum til frv. Mér hefur nú fyrir stundu borist bréf frá Bandalaginu þar sem er greint frá ályktun er einróma var samþ. á fundi stjórnar BSRB í dag. Ég skal nefna hér nokkur helstu atriði sem koma fram í þessari samþykkt:

Stjórnin lýsir sig sammála stjórnvöldum um að verja verði fjármagni til landhelgisgæslu eftir því sem á þarf að halda við núverandi aðstæður. Hins vegar mótmælir stjórn BSRB því harðlega að fjár til landhelgisgæslu eða annarra útgjalda ríkisins á þessu ári sé aflað með auknum álögum á almenning. Stjórn BSRB vekur athygli á að á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir fjáröflun til í fyrsta lagi járnblendisverksmiðju á Grundartanga, 975 millj. kr., sem litlar eða engar líkur eru fyrir að nota þurfi á árinu 1976, eins og segir í ályktuninni, í öðru lagi vegna Kröfluvirkjunar 2865 millj. sem sundurliðast svo: í fyrsta lagi stöðvarhús 1694 millj. borholur 600 millj. og línulagnir 571 millj. Og í þriðja lagi benda þeir á brúargerð yfir Borgarfjörð, 390 millj. Mér skilst að ef hætt yrði við þessar framkvæmdir sé málið að áliti stjórnar BSRB raunverulega leyst. Ég bendi hins vegar á það að fyrstu tveir liðirnir: járnblendiverksmiðjan og Kröfluvirkjun, eru alls ekki í fjármáladæminu að öðru leyti en sem viðkemur lánahreyfingum,

og samkvæmt till. BSRB ættum við að heyja landhelgisstríð okkar með því að taka lán. Ég veit ekki hvort hv. þm. þykir það skynsamleg ráðstöfun. Þriðja atriðið, sem stjórn BSRB nefnir, er brúin yfir Borgarfjörð. Hún er ekki heldur beint á fjárlögum, heldur er hún í vegáætlun og greidd af Vegasjóði. — Ég ræði þessar till. BSRB ekki frekar.

Þá komu á fund n. fulltrúar frá Þjóðhagsstofnun sem gerðu grein fyrir ýmsum útreikningum á áhrifum frv. En ég sé ekki ástæðu til að fara sérstaklega út í bað mál, enda gerði hæstv. fjmrh. nokkra grein fyrir því í sinni framsögu við í. umr. málsins og einnig kemur þetta fram í grg. frv.

Ég hef þá rakið hér í stórum dráttum hverjir komu á fund n. og lýstu þar skoðunum sínum og viðhorfum til frv.

Afstaða Alþýðusambandsins og BSRB til þess ákvæðis frv., sem er í 2. mgr. 8. gr., þess efnis að verðhækkun sú, er leiðir af þeim hluta hækkunar vörugjalds, sem gengur til landhelgisgæslu og fiskverndar, skuli ekki hafa áhrif til hækkunar á launum, hefur vissulega valdið miklum vonbrigðum. Miðað við kröfur um aukin framlög til landhelgisgæslu mátti ætla að menn væru almennt reiðubúnir til að taka á sig byrðar, jafnt launþegar sem aðrir, og aukinn kostnaður við gæslu landhelginnar og aukinn kostnaður við fiskvernd leiddi ekki sjálfkrafa til launahækkana í þjóðfélaginu. Með ákvæðum frv. varðandi þetta efni reyndi raunverulega á það hvort tal manna um þessi efni væri þannig að á því mætti byggja. Með afstöðu launþegasamtakanna í þessu máli sýnist mér að því miður hafi komið í ljós að svo var ekki. En með framlagningu frv. hefur á þetta reynt. Það var gerð tilraun til að ná samstöðu um að aukinn kostnaður við gæslu landhelginnar sérstaklega vegna stríðsins við breta færi ekki út í verðlagið. Þessi tilraun hefur því miður mistekist, þvert á það sem yfirlýsingar og kröfur aðila hafa gefið tilefni til að ætla. Vegna þessa og til þess að halda frið um þetta mikilvæga mál samþ. ríkisstj. fyrir sitt leyti að fjh.- og viðskn. þessarar d. flytti brtt. við frv. þess efnis að 2. málsgr. 8. gr. frv. félli brott. Það er efni brtt., sem getur á þskj. 617. Þetta þýðir launahækkun sem nemur 0.8–0.9%, þ.e.a.s. 0.40–0.45% hækkun 1. júní n. k. og 0.40–0.45% hækkun frá 1. okt. n.k. Það er kannske í sjálfu sér ekki mikil upphæð sem hér er um að ræða. Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar mun hér vera um 3–4 hundruð millj. kr. að ræða sem launagreiðendur eða atvinnuvegirnir taka með þessu á sig. En með þessu kemur sem sagt í ljós hver hugur fylgir máli þegar menn tala um fórnir og þjóðhollustu í þágu málstaðar okkar í landhelgismálinu.

Ég þarf ekki að fara um þetta mál mörgum fleiri orðum: Ég lýsi hér með um leið þeirri brtt. sem ég hef þegar nefnt og öll n. stendur að. Ég lýsi ánægju minni með þá samstöðu, sem þó næst hér, og ég vona að þessi breyting á frv. verði til þess að lægja öldurnar sem vegna þessa máls kunna að hafa risið. Ég segi: kunna að hafa risið, vegna þess að ég er ekki viss um að þær hafi verið eða hefðu orðið svo mjög háar. Um aðrar fram komnar einstakar brtt. sé ég ekki ástæðu til að ræða að sinni.