04.05.1976
Neðri deild: 97. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3561 í B-deild Alþingistíðinda. (2939)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í ræðu frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. átti ég þess kost að fylgjast með störfum þeirrar n. meðan hún fjallaði um þetta mál. Er ástæða til að þakka viðkomandi það. Hann gat þess einnig að ég ásamt hv. 9. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasyni og hv. 2. þm. Austurl., Sigurði Blöndal, við stæðum að flutningi brtt. við frv. Þeirri brtt. hefur líklega ekki verið útbýtt enn og sama mun vera að segja um nál. minni hl. fjh.- og viðskn., það mun ekki enn komið á borð þm.

Eins og ljóst var af umr. og afstöðu stjórnarandstöðuflokkanna hér á Alþ. í gær var snúist harkalega gegn frv. eins og það var lagt fram og eins og líkur voru á að það ætti að standa allt fram eftir degi í dag. Þessi andstaða byggist ekki síst á þeim ákvæðum frv. þar sem gert var ráð fyrir því að um 5 vísitölustig væru tekin úr sambandi og ættu ekki að hafa áhrif á kaup launþega í landinu vegna þeirra aðgerða í peningamálum sem frv. gerir ráð fyrir. Þar með átti að svipta launafólk kauphækkun sem bað átti og á samkvæmt gildandi kjarasamningum rétt til. Þetta var eitt af þeim meginatriðum sem allir stjórnarandstæðingar snerust hvað harkalegast gegn í frv. eins og það upphaflega var. Hér var um það að ræða einnig og ekki síður að með slíkum ákvæðum var verið að ógilda í raun og veru með lagaboði löglega gerða samninga aðila vinnumarkaðarins. Og ekki síst var ástæða til þess að snúast gegn slíku ákvæði með hliðsjón af því sem verið hefur að gerast í verðlagsmálum nú undanfarna tvo síðustu mánuði eða á þeim tíma sem liðinn er frá því kjarasamningar voru undirritaðir 1. febr. s.l., en eins og margoft hefur komið fram hefur verðlag hækkað um 7.3% á þessu tveggja mánaða tímabili, frá 1. febr. — 1. apríl, en aðeins rúmlega 1% af því má rekja til samningsgerðarinnar og kauphækkunar þeirrar sem af þeim samningum leiddi.

Nú hefur hins vegar gerst sá ánægjulegi atburður, að ég tel, að hæstv. ríkisstj. hefur séð sig um hönd. og ber að fagna því að hún dregur til baka þá ákvörðun sína að raska með þeim hætti, sem frv. gerði ráð fyrir, gerðum kjarasamningum og hefur fallið frá því að láta það ákvæði frv. koma til framkvæmda að hin margumtöluðu 5 vísitölustig skuli ekki hafa áhrif á framfærsluvísitölu. Þetta er vissulega að mínu viti ánægjulegur atburður, merki um bað að vera má að hæstv. ríkisstj. sjái sig um hönd í þeirri afstöðu sem allt of oft hefur á undanförnum vikum bryddað á í hennar málatilbúnaði, sem a.m.k. mér og mörgum öðrum hefur þótt bera keim þess að andúð ríkti af hálfu hæstv. ríkisstj. í garð verkalýðshreyfingar og launþega. En hér er sem sagt um að ræða verulega breytingu á þessu frv. frá því sem það var lagt fram og ætlast var til að það yrði af hálfu hæstv. ríkisstj. Því ber að fagna. Hér hefur vissulega verkalýðshreyfingin með tilstilli stjórnarandstöðu hér á Alþ. að mínu viti náð fram verulegum sigri gegn þeim áformum hæstv. ríkisstj. að ráðast svo á samningsréttinn í landinu eins og vissulega mátti ætla og tilefni var gefið til með frv. ríkisstj. eins og það var lagt fram hér í gær. Þessu ber að fagna.

En eftir sem áður stendur deila um það hversu mikið þurfi að hækka hið margumtalaða vörugjald til þess að komi að nægilegu gagni sú fjáröflun sem nauðsynleg er til þeirra þátta sem fyrst og fremst er hér um talað. Eins og hv. 9. þm. Reykv. gat um áðan, þá stend ég að till. um að vörugjald verði hækkað í 14%, sem er talið nægja til þess að standa undir fjáröflun til landhelgisgæslu, fiskleitar og hafrannsókna. Það er sá munur sem í milli ber, en hæstv. ríkisstj. leggur hér til að hækka vörugjaldið upp í 18%.

Ég gat þess í gær við í umr. málsins að ég hefði talið að allt það fjármagn. sem í þessu frv. er talið að þurfi til þeirra framkvæmda sem um ræðir, hefði mátt fá ef farið hefði verið að kröfum verkalýðshreyfingarinnar og stjórnarandstöðuflokkanna hér á Alþ. um að breyta skattalöggjöfinni í þá átt að atvinnurekstur og fyrirtæki í landinu væru nú látin fara að borga eitthvað til sameiginlegs sjóðs, sem stendur undir margvíslegum þáttum þjóðlífsins. Það er gefið mál, að því er virðist, að engra slíkra breytinga er að vænta af hálfu hæstv. ríkisstj. á þessu þingi. Í sjálfu sér eru vart aðstæður til þess, svo langt sem þinghaldi er nú komið, að fara að gera hér till. um gjörbreytingu á skattalögum í þessa átt, enda nýjustu fréttir úr herbúðum hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. að hugsanlega megi vænta slíkra breytinga á skattalöggjöf eða frv. um þær á næsta þingi. Hugsanlega, sagði ég. Ég sé að hæstv. fjmrh. hristir höfuðið, og vel má vera að það sé ekki einungis að þess megi vænta á næsta þingi, heldur verði að bíða enn þá lengur. Harma ég það ef svo er. En ég sem sagt tel að öllu þessu fjármagni hefði mátt ná með slíkri breytingu, og það var vissulega tími kominn til að breyta ákvæðum skattalaga í þessa átt.

Eins og hér hefur komið fram stendur öll stjórnarandstaðan að flutningi þessarar brtt., þ.e.a.s. við 1. gr., að í stað 18% komi 14% vörugjald. Þeir þingmenn Alþb. hafa borið fram till. þess efnis að ef þessi till. verði felld, þá komi ný tekjuöflunarleið eins og þar til greinir, sem ég skal ekki rekja. En ég vil aðeins segja það að lokum, að ef þessi till. verður felld, þá mun ég og við þm. Samtakanna greiða atkv. með till. Alþb.- manna um þá tekjuöflun sem þar er gert ráð fyrir. En sú till. kemur að öllum líkindum ekki til atkv. fyrr en við 3. umr. málsins.

Ég skal ekki, virðulegi forseti, hafa þessi orð fleiri. Mér finnst sérstök ástæða til að fagna þeim áfangasigri sem verkalýðshreyfingin fyrst og fremst kannske og stjórnarandstaðan hér á Alþ. hefur náð í baráttunni við hæstv. ríkisstj. um að ekki muni þó a.m.k. að þessu sinni gengið inn á þá braut að rifta löglega gerðum kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins sem örugglega hefði, ef af yrði, allalvarlegar og viðtækar afleiðingar fyrir þjóðfélagið.