04.05.1976
Neðri deild: 97. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3563 í B-deild Alþingistíðinda. (2940)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Sigurður Blöndal:

Herra forseti. Eins og hv. 9. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Vestf. hafa þegar tekið fram, þá höfum við, ég og hv. 5 þm. Suðurl. borið hér fram brtt. við það frv. hæstv. ríkisstj. sem hér liggur fyrir til umr. Við flytjum þessa brtt. á þskj. 618. Hún er um aðra leið til fjáröflunar til landhelgisgæslunnar og fiskverndar en þá sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt til í frv. sem hér er til umr.

Ég ætla að lesa till. 1. brtt. okkar á þskj. 618 er þannig: „Við 1. gr. Greinin falli niður.“ 2. brtt. okkar er sú, að á eftir 9. gr. í frv. hæstv. ríkisstj. komi ný gr. er verði 26. gr. l. nr. 68 1971, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum: „Félög og einstaklingar, sem hafa skattskyldan rekstur með höndum,skulu við álagningu skatta fyrir skattárið 1975 greiða sérstakan 6% skatt er miðaður sé við hreinar rekstrartekjur, áður en fyrningar skv. 15. gr. og varasjóðsframlag skv. 17. gr. 2. málsgr. hafa verið dregin frá.“

Ég lýsti í ræðu minni í gær hér í þessari hv. d: hugmyndum og till. Alþb. um breytingar á fyrningarreglum fyrirtækja eða rekstraraðila. Við teljum að þúsundir millj. kr. gangi hjá garði óskattlagðar vegna fráleitra fyrningarreglna sem ég rakti þar nokkru nánar. Og við vitum og almenningur veit líka að með hjálp þeirra hefur stór hópur manna komist yfir óeðlilega fjármuni á skömmum tíma. Sýnt er að á þessu ári verða engar breytingar gerðar á fyrningarreglum skattalaganna. En okkur er jafnframt kunnugt um að stjórnvöld hafa skattamál og þar með fyrningarákvæði í endurskoðun. Fyrir því teljum við eðlilegt að gera bráðabirgðabreytingar til þess að ná nú þegar nokkru af því fé sem nú er óskattlagt.

Í sambandi við frv. hæstv. ríkisstj. hefur Alþýðusamband Íslands nú komið með sáttatilboð og því hefur hv. 9. þm. Reykv. greitt frá í framsöguræðu sinni fyrir nál. minni hl. fjh.- og viðskn. Þetta sáttaboð lítum við á sem tilraun til samkomulags. Við lítum á það í raun og veru sem útrétta hönd til samkomulags til að leysa þann sérstaka vanda sem nú er fyrir höndum. Alþb. styður þá viðleitni og fyrir því stend ég sem fulltrúi Alþb. í fjh.- og viðskn. að sameiginlegu nál. og tillögugerð minni hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar.

Verði þessi tilraun til sátta til einskis, þessi tilraun sem byggð er á ályktun Alþýðusambands Íslands, og ef þær till., sem fram koma í nál. og við höfum gert sérstakar brtt. um, verða felldar, þá flytjum við hv. 5. þm. Suðurl. þá varatill. á þskj. 618 sem ég hef lesið og snertir 1. og 9. gr. frv. hæstv. ríkisstj. sem hér er til umr. Við drögum hana hins vegar til baka við þessa umr., þannig að hún komi ekki til atkv. fyrr en við 3. umr.

Till. okkar hv. 5. þm. Suðurl., sem hefur verið rædd í þingflokki Alþb. og menn eru þar sammála um, gengur út á beina skattlagningu, en ekki óbeina. Þetta er skattlagning sem á ekki að fara út í verðlagið. Þetta er skattlagning á rekstur, brúttóskattur, hliðstæður við þann sem almenningur fær nú í formi útsvars. Þetta er skattlagning sem er tæknilega framkvæmanleg. Öll gögn, sem til hennar þarf, eiga að liggja fyrir í skattstofum landsins því hún gerist á líkan hátt og álagning til útsvars. Skattstofninn gæti verið samkvæmt heimildum, sem við höfum haft til umráða, eitthvað kringum 18 milljarða kr. Og til þess að afla 1000 millj. eða eins milljarðs kr., sem er sú fjárhæð sem sagt er að þurfi til Landhelgisgæslunnar og Hafrannsóknastofnunarinnar til rekstrar vegna landhelgisdeilunnar og þorskastríðsins og til að finna ný úrræði í fiskveiðunum, til þess að afla þessara 1000 millj. þarf 6% af þessum stofni sem ég gat um og er eins og ég sagði í upphafi og kemur fram í brtt., hreinar rekstrartekjur fyrirtækja og einstaklinga áður en fyrningar og varasjóðsframlög hafa verið dregin frá. Þessi leið, sem við bendum hér á, tefur á engan hátt þá tekjuskattsálagningu sem nú á sér stað í skattstofum landsins. Og hér er ekki um að ræða álögur á allan almenning, ekki á launafólk, ekki á elli- og örorkulífeyrisþega, ekki á skólafólk. Hér er sett fram hugmynd að tilraun til að láta þá bera byrðar í þágu samfélagsins sem hefur tekist að létta þær óeðlilega á kostnað t.d. þeirra hópa sem ég nú nefndi.