04.05.1976
Neðri deild: 97. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3569 í B-deild Alþingistíðinda. (2943)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja umr. öllu lengur. Það eru aðeins örfá orð vegna þess sem bæði kom fram hér í gær og eins áðan.

Það er í sambandi við álagningarprósentu verslunarinnar. Það er ekkert um það að finna í frv. hvernig með það verður farið. En samkv. upplýsingum, sem Þjóðhagsstofnun lét í té í morgun á fundum fjh.- og viðskn., þá er það ljóst að framkvæmd þessa hefur verið með þeim hætti við álagningu vörugjaldsins í fyrra að þar hefur verið um að ræða í reynd óbreytta álagningarprósentu eins og hún var þegar gjaldið var lagt á, þ.e.a.s. verðlagsnefnd virðist hafa tekið þá ákvörðun að óbreytt álagningarprósenta skyldi vera. Þó er hér sagt: „þó ívið lægri en óbreytt“ — ívið lægri. En sem sagt, mér sýnist að framkvæmdin hafi verið sú að verslunarálagning hafi haldist að mjög miklu eða svo til öllu leyti óbreytt þrátt fyrir álagningu vörugjaldsins. Mig langar því til að spyrja einhvern hæstv. ráðh., hæstv. forsrh. eða hæstv. viðskrh., — hæstv. fjmrh. er ekki hér við, — hvort það sé meining hæstv. ríkisstj. að með álagningarprósentu vegna þessa hækkaða vörugjalds, sem nú er gert ráð fyrir, verði farið á sama hátt og gert var við álagningu vörugjaldsins á árinu 1975. Er það meining hæstv. ríkisstj. að álagningarprósenta til verslunar, þrátt fyrir þessa gífurlegu hækkun á vörugjaldi, verði óbreytt? Ég óska mjög eindregið eftir því að fá skýr svör frá öðrum hvorum þessara hæstv. ráðh. um þetta atriði.