04.05.1976
Neðri deild: 98. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3587 í B-deild Alþingistíðinda. (2953)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil taka það fram í sambandi við þá brtt., sem hv. 4. þm. Vestf. hefur hér flutt, að þetta mál einmitt, till. svipaðs eðlis var rædd mjög í landbn. og ég gerði ítrekaðar tilraunir til þess að fá meiri hl. n. til að samþykkja hana, en um það tókst ekki samstaða. Það er alveg rétt að þarna er mikill vandi á höndum, t.d. á því svæði sem hann mun aðallega bera fyrir brjósti. Og það er viða vandi á höndum í þessu tilliti. En eins og hefur komið fram í þessum umr. varð ekki samkomulag um aðrar breytingar en n. hefur flutt hér og ég hef talað fyrir áður og þarf ekki að ræða um það frekar.

En það er víðar en í heimabyggð hv. þm. sem eru erfiðleikar í samgöngumálum í sambandi við tankvæðingu. Ég horfi t.d. með miklum kvíða í sambandi við hreppana út með Eyjafirði núna sem eru að tankvæðast, þar sem er mjög snjóþungt, en í sumum tilvikum er vegurinn jafnhár landinu umhverfis og gefur auga leið að það verða miklir erfiðleikar að halda þeim opnum, enda var það veturinn 1975–1976, að tæplega fjórði hlutinn af útsvörunum í Svarfaðardal fór í snjómokstur á þeim vetri, og það segir sína sögu.

Það hefur verið samþykkt í Stofnlánadeildinni að lána 70% út á fjós í sambandi við Inn-Djúpsáætlun, og mér er kunnugt um að Byggðasjóður hefur bætt þar 15% við, þannig að út af fyrir sig geta þeir, sem fá lán á annað borð, sæmilega við unað. Það eru sem sagt 85%. Hins vegar er eins og hv. þm. minntist lítillega á, þannig ástatt nú um Stofnlánadeildina að hún getur ekki veitt lán til nýrra framkvæmda á þessu ári nema komi nýtt fjármagn til og að mínu mati ríkir þar neyðarástand sem þarf að athuga nánar og fjalla um. En ég ætla ekki að ræða það meira nú. Það verður gert síðar.

Í sambandi við það, sem frsm. minni hl. ræddi um, ætla ég að koma að aðeins örfáum atriðum þar sem hæstv. landbrh. er nú búinn að svara honum í flestum tilvikum. Hann gat um það í sambandi við e-liðinn í 40. gr., taldi það alveg dæmalaust, að það hefði fallið þarna niður mgr. Ég vil nú upplýsa að það féll niður úr frv. meira en þetta, hvernig sem á því stendur. (EðS: Hvar týndist það?) Ja, hvernig sem það týndist, því að ég sá handritið og þegar 1. umr. fór fram hér í hv. d., þá hrökk ég við einmitt þegar ég las bæði b- og c-liðinn. Þeir voru á annan veg, hvernig sem á því stendur, því hef ég ekki skýringu á, heldur en var þegar ég las handritið að frv. yfir, eins og hæstv. ráðh. er búinn að gera grein fyrir. En af því að ég var búinn að sjá frv. eða handritið, þá datt mér ekki í hug að lesa það fyrr en einmitt þegar umr. fór fram. Þannig geta nú hlutirnir stundum gerst.

Hv. þm. Eðvarð Sigurðsson ræddi dálítið um meðalbúið, grundvallarbúið, og tekjur bændanna og bar fram spurningu til mín hvort ég áliti, að það væri hægt að jafna kjör bændastéttarinnar með verðákvörðunum einum saman á landbúnaðarvörum. Það er náttúrlega alveg augljóst mál að það er ekki hægt. Ég skal fúslega játa það. En grundvallarbúið er töluvert miklu stærra en meðalbúið er í raun ok veru. Grundvallarbúið er miðað við 400 ærgildi, en meðalbúið mun í raun og veru vera um 340 ærgildi eða því sem næst. Og ég held að ég muni það rétt, að meðaltekjur bændastéttarinnar, bað hæsta sem þeir hafa náð, er 83%, ef ég man rétt, af kaupi viðmiðunarstéttanna, eins og það hefur verið gert upp, t.d. í hagskýrslum. Það var mikil reynsla fyrir mig, þegar ég fór að athuga þessi mál, bæði í sambandi við kaupfélagið heima og upplýsingar annars staðar, einmitt þetta, sem hæstv. ráðh. minntist á áðan, að meðalbúið hefur gefið bóndanum mestar tekjur. Það er eins og stærri búin, þegar þau eru komin yfir vissa stærð, séu óhagkvæmari eða sýni yfirleitt verri útkomu og svo náttúrlega aftur minnstu búin. Það er auðvitað hægt að jafna þetta með ýmsu móti, en það verður líka að gera það í sambandi við verðlagið, það er alveg ljóst. En það er ekki hægt eingöngu.

Hv. þm. Eðvarð Sigurðsson ræddi dálítið um mjólkurbúðirnar í Reykjavík, hvernig borgarlæknir lýsti þeim fyrir okkur í landbn. Það var alveg rétt lýsing á því. En það kom fram í sumum umsögnunum, sérstaklega utan af landi, að þar eru engir heilbrigðisfulltrúar. Þeir eru ekki nema á stærri stöðunum. Og þó að þar séu heilbrigðisnefndir, þá eru þær ekki nema lítið starfandi, og þess vegna lögðu a.m.k. sumir af þeim, sem umsagnir sendu, áherslu á að það yrði gefin út reglugerð. Og ég vil nú beina því til ráðh. að hann hlutist til um að það verði gefin út reglugerð um það efni, hvernig mjólkurbúðir skuli vera útbúnar til þess að heilbrigðisnefndir geti leyft að selja mjólk í slíkum búðum. Það er ekki hætt við því hér í Reykjavík og kannske á hinum stærri stöðum, en það þurfa að vera einhvers konar lágmarksskilyrði í slíkri reglugerð til þess að uppfylla lágmarkskröfur um þetta efni. Ég hef aðeins kynnt mér hvernig þessu er komið fyrir bæði í Danmörku og Noregi, og ég hygg að í öllum tilvikum megi ekki afhenda í verslanir meiri mjólk og slíkar vörur en það sem kemst í kæli hverju sinni. (Gripið fram í.) Já, það megi ekki afgreiða meira en kemst í kælirúmið í hvert sinn. Ég held að það sé lágmarkskrafan. Hins vegar eru ýmsar aðrar kröfur sem borgarlæknir nefndi sem ég mun ekki fara út í hér, sem stangast dálítið á við þau skilyrði sem munu vera sett t.d. á Norðurlöndum, en um það verða kaupmenn og aðrir að kljást við hann. Það verður auðvitað að tryggja að þessi vara skemmist ekki í þessum sölubúðum á nokkurn hátt. Þannig verður að ganga frá þeim málum.

Það er alveg rétt að ég sagði í minni ræðu að sú breyting, sem stefnt er að í sambandi við mjólkursöluna, leiddi bað af sér að það þyrfti aukna verðjöfnun í vissum tilvíkum, og ég skal koma með dæmi. Þau sýna betur en annað, sérstök dæmi, hvað ég á við. Ég á t.d. við lítil mjólkursamlög eins og eru í Ólafsfirði, þar sem Kaupfélagið þar tekur við litlu mjólkurmagni, nokkur hundruð þúsund lítrum á ári, og hefur ekki tekið neitt í raun og veru fyrir hús eða annað og skilar bændunum því verði sem ákveðið er, sem sagt hefur ekki tekið neitt fyrir nema bara eitthvað lítillega fyrir vinnsluna sjálfa. Nú verður ákveðið heildsöluverð og þá verður Kaupfélagið að láta hina verslunina fá töluvert mikið af mjólkinni. Þessi breyting á þessum stað og þvílíkum leiðir af sér að það verður að koma þarna aukin verðjöfnun út af þessari breytingu.

Hins vegar skal ég ekkert segja um það, það verður reynslan ein sem sýnir það, hvort dreifingarkostnaðurinn vex hér á höfuðborgarsvæðinu við þessa breytingu. Ég hef alltaf óttast að það yrði, en reynslan ein sker úr um það hvort sá ótti er á rökum reistur eða ekki. Ég hef talið að Mjólkursamsalan væri búin að missa þetta úr höndum sér og þess vegna væri ekki um annað að gera heldur en að stíga þetta skref. En það er kannske lærdómsríkt að athuga hvernig þetta er núna í sambandi við dreifingarkostnaðinn. Vinnslu- og dreifingarkostnaður á mjólk í dag er nú 22.61 kr., en umbúðir utan um hvern lítra af sölumjólk, þá er átt við fernur, kosta 7.45 kr., þ.e.a.s. þetta er samtals 30.05 kr., en grundvallarverðið í dag er 61 kr., sem sagt, þriðjungurinn af heildarverðinu er vinnslu-, dreifingar- og umbúðakostnaður. Í sambandi við aftur kjötið, þá er slátur-, dreifingar og heildsölukostnaður í dag 103 kr. á hvert kg og geymslukostnaður og vextir 8 kr. eða samtals 11 kr.

Eins og kom fram hjá hæstv. ráðh. áðan vantar viða á verðið í ár, bæði kjöt og mjólk. Það vantaði 1.70 hjá Flóabúinu, og þeir telja að bara vegna þess að magnminnkun varð, — það var um 6%, ef ég man rétt, minna sem barst að búinu heldur en áætlað var, — munaði 1.13 kr., að þeir telja, vegna þess að það var minna magn en búist var við, og afgangurinn er vegna þess að vinnslu- og dreifingarkostnaðurinn varð meiri en Sexmannanefnd áleit að hann mundi verða. Hér er enn meiri munur á með kjötið. Mér er sagt að það muni vanta allt upp í 7–8 kr. þar sem verst er, þar sem mest vantar.

Hv. þm. Eðvarð Sigurðsson gat um þessa breytingu í sambandi við að taka tillit til fjármagnskostnaðarins og það mætti taka hann með í verðjöfnuninni, en þá er eins og ráðh. sagði, það hefur verið gert. Ég vil bara lesa hér upp 40. gr. í gildandi lögum, b-liðinn: „Mjólk og mjólkurvörur: Greiða skal sérstakt verðmiðlunargjald af allri mjólk mjólkurbúanna til að koma á hentugri vinnuskiptingu á milli búanna svo og til verðmiðlunar milli mjólkursölusvæða eftir því sem Framleiðsluráð telur þörf á, sbr. 4. gr.“ Það hefur verið, eins og ég segi, tekið tillit til þess kostnaðar sem leiðir af þessari vinnuskiptingu. Hv. þm. gat um að nú væri verið að byggja stórt mjólkursamlag norður á Akureyri. Það er rétt. Það er byggt að ósk Framleiðsluráðs og á fyrst og fremst að framleiða þar ost sem er kallaður óðalsostur og er hægt að fá fyrir hann í útflutningi þrisvar sinnum meira en fyrir þann ost sem nú hefur verið hægt að framleiða í hinum ýmsu búum. Þá er náttúrlega spurningin: Á Kaupfélag eyfirðinga að fá hagnaðinn af því að vinna þennan ost? Bóndinn fær þarna þrisvar sinnum meira fyrir sína framleiðslu heldur en hin búin eða hann hefur haft af að framleiða þann ost sem hefur verið fluttur út. Þarna er verið að gera átak fyrir þjóðina, og annað hvort verður þá að taka tillit til þess fjármagnskostnaðar sem af því leiðir að framleiða þessa vöru eða þá að mjólkurbúið á Akureyri fái þann hagnað sem af því leiðir að fara í þessa framkvæmd. Aðra hvora leiðina verður að fara. Og ég held að það sé í öllum tilvikum einmitt sjálfsagt að taka tillit til fjármagnskostnaðarins í þessum tilvikum, vegna þess að það er ekki hægt að koma á verkaskiptingu á milli búanna með öðrum hætti, og það hefur verið gert eins og ég gat um áðan. Hins vegar var talið rétt að breyta þessu þannig að það kæmu alls ekki upp neinar deilur um það að þetta væri sjálfsagt og leyfilegt. En ég held að það hafi verið gert frá því að ég man eftir, og kannske hefur ekki verið þörf á því að setja þetta ákvæði inn núna, það kann að vera. En þetta mun vera ástæðan.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. Ég vil taka undir það sem hæstv. landbrh. sagði áðan, að einmitt verkamenn og bændur ættu í raun og veru að styðja meira hver annan en hefur oft verið. Ég er bóndi, en ég hef líka verið verkamaður og ég hef meira að segja verið í forustuliði í verkalýðsfélögum um nokkurra ára skeið. Ég tel að þessar stéttir ættu og hafi sameiginlegra hagsmuna að gæta, vinnandi fólk í bæjunum eigi að sýna bændastéttinni tillitssemi og bændastéttin eigi að sýna tillitssemi líka og hefur oft gert það í sambandi við þá sem verst eru settir og lægst launin hafa í þéttbýlinu.