04.05.1976
Neðri deild: 98. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3598 í B-deild Alþingistíðinda. (2957)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs hér aftur vegna ummæla sem komu fram í ræðu hv. 2, þm. Norðurl. v. Mér fannst að í hans ræðu kæmi fram að ég ætlaðist til með minni till. að með henni væri leyst að öllu leyti stórt og nánast risavaxið vandamál, og í annan stað gat hann þess, að ég hefði farið vítt og breitt í minni ræðu og talað um óskyld mál. svo sem vegamál. Ég vildi gera þá aths. við þetta, að ég held að ég hafi lagt á það áherslu að þetta væri eitt af fleiri atriðum, ein af ráðstöfunum sem þyrfti að gera til þess á meðan tími væri til að snúa þróuninni við, og til þess að rökstyðja það nefndi ég aðeins önnur atriði, eins og t.d. vegamálin. Ég hef aldrei látið mér detta í hug að þetta atriði eitt leysti allan vandann.

Hann minntist aðeins á það risavaxna vandamál þegar svo væri komið að það væri mjólkurskortur allt árið. Ég tel að það sé svo gott sem allt árið þegar þannig er að aðeins rétt um hásumarið næst sú framleiðsla sem nægir til sölu nýmjólkur og framleiðslu rjóma og skyrs, en meginhluta ársins, ég þori að segja 10 mánuði ársins, þurfi að flytja þessar afurðir að og auk þess verulegt magn af nýmjólk meira en hálft árið.

Ég vil aðeins gera þessa aths. og ítreka það, að ég tel að ef komið væri inn með svona aðgerð til hliðar við aðrar, þá sé möguleiki til — ég leyfi mér að segja með mjög litlu fjármagni — að hafa þau áhrif að þróunin snúist við, þau áhrif að skapa þarna annað hlutfall milli sauðfjárafurða og mjólkurafurða heldur en gilda í landinu í heild.

Í sambandi við umr. um óskyld mál hefur mér heyrst að hér hafi verið rætt um mál utan við þau ákvæði sem verið er að breyta í framleiðsluráðslögum. Hér hefur verið farið út í umr. um verðmyndunarkerfið í heild. Það er stórt mál, og ég ætla ekki að fara inn á þá braut nú á næturfundi að ræða það mál. En það er mál sem þarf vissulega mjög nána athugun. Og ég vil taka undir það, að það eru ýmis atriði sem gera aðstöðu bænda í landinu í heild mjög misjafna. Ég vil bara nefna hér eitt atriði, þann gífurlega mun sem frumbýlingar búa við eða þeir sem hafa fjárfest fyrir þennan tíma, ja, við skulum segja fyrir 1970 og búa við allt, allt önnur lánskjör heldur en þau sem eru í framkvæmd í dag. Ég tel að þetta sé mál bændastéttarinnar sjálfrar og þetta. sé mál meðal annarra sem hún þurfi að leysa innbyrðis. En um þetta ætla ég sem sagt ekki að ræða í þetta sinn, það hlýtur að bíða síðari tíma.