04.05.1976
Efri deild: 96. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3605 í B-deild Alþingistíðinda. (2961)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera ekki langorður og mæta þannig ósk hæstv. fjmrh. að d. reyni að hraða þessu máli í gegn, því að mér er ljóst að eins og málum er háttað, þá sé ekki rétt að tef ja málið að óþörfu. Hins vegar þykir mér rétt að gera ofurlítið grein fyrir skoðunum mínum varðandi þetta frv. Er þá fyrst að taka það fram að mér virðist það bæði bera vott um töluverða hroðvirkni og eins að auðséð sé að það hafi gengið dálitið illa að koma því saman hjá stjórnarliðum.

Ég vil gera grein fyrir því, sem ég hef í raun og veru áður tekið fram í allt öðru tilefni hér í d. og ég er ekki einn um þá skoðun, að almenningur í landinu sé orðinn mjög hræddur við fjármálastjórn þessarar ríkisstj. Ber þar hæst gífurlega skuldasöfnun erlendis sem ekkert hóf virðist hafa verið á hjá þessari ríkisstj. Þar næst að hún virðist ekki kunna fótum sínum forráð varðandi útgjöld ríkisins. Þetta tel ég vera svo alvarlegt að það þurfi að undirstrika það skýrt og skorinort við þessa umr., að þarna hefur farið verulega úrskeiðis og má ekki svo áfram halda. Hér var í þinginu fyrir einum eða tveimur dögum sagt frá því af hálfu stjórnarandstæðinga og ekki mótmælt af hálfu stjórnarliða að greiðsluhalli í ár væri áætlaður 14.4 milljarðar kr., erlendar skuldir hafi verið um s.l. áramót 65.4 milljarðar og afborganir og vextir af þessum miklu skuldum yrðu sennilega um 18% af útflutningstekjum okkar í ár. Síðan var því lýst yfir að í lok febrúar hefði ríkissjóður skuldað Seðlabankanum yfir 10 milljarða kr. Þó eru útflutningsverðmæti okkar greinilega hækkandi og er áætlað að þau verði í ár 13–14% hærri en árið sem leið. Þetta eru mál sem mér finnst ákaflega athyglisverð og ríkisstj. þurfi að skoða betur en hún virðist hafa gert. Við þetta bætist að í þessu frv. er ekki að merkja að hún sé nokkuð farin að sjá að sér. Undanfarið hafa verið leyfðar hækkanir á ýmiss konar greiðslum sem almenningur verður að greiða, þannig að vaðið hefur verið ofan í pyngju almennings æ ofan í æ undanfarið. Það hafa verið hækkuð gjöld til Pósts og síma verulega eða um 24%, búvörur hafa hækkað til neytenda um 25%, hljóðvarp og sjónvarp um 31%. En það, sem tekur steininn úr, eru nýtilgreindar hækkanir, 60%, sem tryggingafélögum hefur verið leyft að hækka iðgjöld sín. Enn er svo verið að tilkynna, m.a. í þessu frv., að það eigi að hækka enn bensin, og þó að segja megi að margir hér á landi noti bifreið sem lúxus, þá er það í heild ekki svo, því að við íslendingar höfum ekki í raun og veru annað samgöngutæki en bílinn og við erum því að þessu leyti ekki sambærilegir við t.d. Norðurlandabúa eða aðra nágranna okkar sem geta tekið sér önnur farartæki en bílinn þegar svona er búið að bensínverðinu. Ég vildi því láta það koma hér fram skýrt og skorinort, að ég tel að hin gegndarlausa hækkun, sem alltaf er verið að leggja á varðandi bensín, er röng stefna. Það er röng stefna að leggja svona gífurlegt gjald á bensinnotkun landsmanna vegna þess, eins og ég tók fram áðan, að bíllinn er nauðsynlegt almenningstæki. Og ég vil benda á annað. Það bruðl. sem ég tel að ríkissjóður hafi sýnt við þær aðstæður sem eru núna í þjóðfélaginu, orkar inn í allt þjóðfélagið. Sveitarfélögin sprengja upp sínar tekjur og sín útgjöld og hugsa sem svo: Ef ég dansa ekki með ríkinu, þá missi ég af snúningshraðanum í dansinum. Og einstaklingar hugsa alveg á sama hátt. Það er verið að ýta undir verðbólguhugsunarháttinn og ríkið gengur á undan.

Nú er það ekki svo að það sé ekki sumt í þessu frv. sem við í stjórnarandstöðunni teljum góðra gjalda vert. Er þá fyrst að nefna að við teljum að það þarf að bæta og auka landhelgisgæsluna við þær aðstæður sem nú eru. Af þeim sökum höfum við ekki lagst gegn því, þó að við sjáum háskann við það að hækka vörugjald, þ.e. ekki lagst gegn því að vörugjald verði hækkað sem því nemur að mæta auknum útgjöldum við landhelgisgæsluna og fiskileit og ýmsar friðunaraðgerðir sem hugsaðar eru í sambandi við sjávarútveginn.

Í gærdag eða gærkvöld þá gerði sjútvrh. okkur í fjh.- og viðskn. ítarlega og skilmerkilega grein fyrir því hvernig hann hugsaði sér að verja þeim auknu tekjum sem sjútvrn. fengi í gegnum þetta frv. Kg hygg að við höfum verið allir á því, sem á hlýddum, að þar væri skynsamlega hugsað til mála og við gátum vel tekið undir það með ráðh., að þetta væri fremur of lítið heldur en of mikið. En jafnframt tókum við undir þá skoðun hans að einhvers staðar yrði að setja punktinn og einmitt í því árferði, sem við höfum nú og lifum nú við, verður punkturinn að koma nokkuð fljótt.

Annað er það sem mér virtist mjög athyglisvert við þær umr. sem urðu í fjh.- og viðskn., en það var að hlusta á raddir þeirra fulltrúa samtaka sem kvaddir höfðu verið til skoðanaskipta í n. Fulltrúi vinnuveitenda sagði t.d., ég held ég fari rétt með það: Hugmyndir frv. eru andstæðar hagsmunum vinnuveitenda. — Takið eftir þessu, fulltrúi vinnuveitenda byrjaði sína ræðu með því að segja: Ég tel að þær hugmyndir, sem eru í frv. ríkisstj., séu andstæðar hagsmunum vinnuveitenda. — Síðan gerði Davíð Scheving harða árás á frv., m.a. það í því sem hann taldi gert á hlut iðnrekenda, innlends iðnaðar, fram yfir það sem innflytjendur yrðu að þola. Hann sagðist ekki sjá annað en í þessu frv. væri enn verið að leggja stein í götu innlends iðnaðar. Þetta voru raddir frá vinnuveitendum. En síðan komu fulltrúar frá Alþýðusambandinu og fulltrúar frá BSRB og þeirra raddir voru á þá lund sem fjmrh. lýsti raunar áðan. Þær voru svo harðvítugar gegn 8. gr. frv. að ríkisstj. sá sig til neydda að draga hana að meginhluta eða 2. mgr. þeirrar greinar til baka.

En formaður BSRB tók enn dýpra í árinni heldur en nokkurn tíma fulltrúar ASÍ. Hann sagði: Ég tel að ríkisstj. eigi að afla allra þeirra tekna, sem hér er farið fram á, með auknum sparnaði, það eigi ekki að leggja neitt á þjóðina nú auk þess, sem áður hefur verið gert, og það sé enginn vandi, sagði þessi fulltrúi BSRB. Ég vil skjóta því hér inn í, ég veit ekki annað en hann sé yfirlýstur framsóknarmaður. (Gripið fram í.) Kristján Thorlacius. (Gripið fram í.) Jæja, en hann hefur ekki verið langt frá Framsókn þó hann hafi kannske einu sinni eða svo þokað út af þeim stig. En hann sagði að frá sínu sjónarmiði og sjónarmiði BSRB-stjórnarinnar, sem þarna voru mættir fulltrúar frá, mætti taka þetta t.d. allt á þrem liðum: fresta Kröfluvirkjun, ekki hætta við hana, en fresta framkvæmdum, fresta Borgarfjarðarbrúnni og fresta málmblendinu á Grundartanga. Honum var að vísu bent á að þetta væri kannske ekki allt fjármagnað úr ríkissjóði, en hann sagði: Það er áætlað að taka lán fyrir þessu, og má þá ekki nota þessi lán í eitthvað sem er nauðsynlegra í dag heldur en þetta þrennt sem hann nefndi. Og annar fulltrúi sagði við borðum ekki malbik þegar við erum soltin og við borðum ekki járnbenta steinsteypu úr Borgarfjarðarbrú þegar við getum ekki reist okkur þak yfir höfuðið. Svona voru þeir nú harðir í afstöðu sinni. Og þetta eru ekki, — ég endurtek það, — þetta eru ekki allt saman andstæðingar ríkisstj. Þetta eru menn úr röðum hennar líka sem bentu á að ríkisstj. yrði að gæta sín með fjármálin.

Nú kann einhver að segja: Vill ekki maður sem telur sig fulltrúa utan af landi að lagt sé aukið fé í vegi? Auðvitað viljum við allir að vegirnir séu betri en þeir eru. Og einhver kynni að spyrja: Vilja ekki fulltrúar utan af landi að lagt sé aukið fé í hafnirnar, vilja ekki fulltrúar utan af landi að ýmislegt væri gert betur en gert er við hinn búandi mann í sveitum landsins? Við getum svarað þessu öllu játandi. En það verður í þessu sem öðru að líta á ríkjandi ástand, og þegar einstaklingurinn hefur ekki peninga í pyngjunni til þess að kaupa hitt eða annað, þá kaupir hann það ekki ef hann er skynsamur. Hann fer ekki í banka að slá sér víxil sem hann er nokkurn veginn viss um að hann geti ekki greitt eða hræddur um að geta ekki greitt, heldur notar hann þá skynsemi að neita sér um þetta. Þess vegna segjum við: Ríkið á nú að neita sér um ýmsar þær framkvæmdir sem ríkisstj. lítur svo á að séu nauðsynlegar og við lítum öll á að séu nauðsynlegar, en við verðum að taka tilliti til aðstæðna. Og þarna verður að okkar mati að færa á milli liða. Ég er ekki að segja að það eigi endilega að fella allt niður sem er nefnt í þessu frv., t.d. aukin framlög til vega, en það verður þá að taka það af öðru og ábyggilega spara sumt. Við þekkjum það ósköp vel, sem vitum þó um lélega vegi, að það virðist stundum vera lagt fé í þá spottana sem ekki endilega þarf fyrir næsta vetur og hinir látnir bíða sem höfðu verið enn þá nauðsynlegri. Mér dettur í hug að taka dæmi af því að í fyrrasumar voru áætlaðir, — og ég held notaðar —- 80 millj. í vegi suður frá Blönduósi sem ég veit ekki annað en venjulega, í hvaða veðri sem er, sé ágætisvegur eftir því sem vegurinn er norður. Sama var gert í nágrenni Akureyrar. En aðrir vegir, sem voru miklu síður til þess fallnir að þola t.d. vetrarumferðina, urðu að bíða. Þarna var ekki gætt þeirrar hagsýni sem þarf að gæta þegar fjármunir eru takmarkaðir.

Ég lofaði því að hafa þessa tölu ekki langa. En ég vildi undirstrika að mín skoðun er, og hún er ábyggilega í samræmi við skoðun mjög margra nú meðal þjóðarinnar, að ríkisstj. fari ógætilega í fjármálum sinum og þetta frv. sýnir að hún hefur ekki enn þá vitkast. Hún vill ekki gæta sín, hún vill ekki spara, hún vill taka úr vösum einstaklinga, félaga og sveitarfélaga það sem henni sýnist og hún telur að þurfi í þær framkvæmdir sem hún endilega vill koma á. Við getum, eins og kemur fram af því sem hefur verið rætt í Nd. og verður vafalaust svipað flutt hér í Ed., — við getum fallist á það, þó við sjáum margs konar annmarka á því, að vörugjald sé þetta ár hækkað upp í 14%, við getum fallist á skyldusparnaðinn, en ég lýsi mig andvígan hækkun á bensíni og ég endurtek það að allt annað, sem bent er á í frv., á að mínu mati og okkar í stjórnarandstöðunni að taka gegnum sparnað, en ekki í gegnum þá eyðslu sem hér virðist vera höfð á lofti.

Nú kann einhver að segja og spyrja: Ertu þá á móti heimild til ríkissjóðs að taka eða ábyrgjast lán vegna tiltekinna framkvæmda sem hér eru nefndar? Annað er lúkning Skeiðfossvirkjunar og hitt er til hitaveituframkvæmda á Akureyri. Ég er, eins og ég sagði áðan, við núverandi aðstæður mótfallinn aukningu erlendra skulda. Hins vegar er lúkning Skeiðfossvirkjunar bæði nauðsynleg og komin það langt að það verður að komast í gagnið, og hitaveituframkvæmdir á Akureyri eru gjaldeyrissparandi framkvæmdir og af þeim sökum tel ég réttlætanlegt að lán eða ábyrgðir til þess séu veittar, þó ég endurtaki aftur að erlend skuldasöfnun ríkisstj. er að mínu mati háskaleg svo ég taki ekki dýpra í árinni.