04.05.1976
Efri deild: 96. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3608 í B-deild Alþingistíðinda. (2962)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hygg að býsna margir okkar þm. gætu a.m.k. í hjarta sínu orðið sammála um að betur hefði hæstv. ríkisstj. aðskilið fjáröflunarmál landhelgisgæslunnar að þessu sinni frá annarri þeirri fjárheimtu sem ráðgerð er í frv. sem fyrir okkur liggur í dag. Hér er af praktískum ástæðum skákað í skjóli þarfa landhelgisgæslunnar — óumdeilanlegrar þarfar landhelgisgæslunnar fyrir fé — til þess að réttlæta atlögu ríkisstj. að löglegum samningum alþýðusamtakanna nýlega gerðum um kaup og kjör.

Við alþb.-menn föllumst á að afla þurfi 1000 millj. kr. til að standa straum af auknum kostnaði vegna landhelgisgæslunnar. Ætlan okkar er sú að vísu að hægt væri að hafa upp í þau útgjöld einnig með öðru móti heldur en að leggja nokkrar álögur á launafólk í þessu landi. Við höfum á takteinum till. sem lúta að þess háttar fjáröflun. Eigi að síður styðjum við sjónarmið sem fram hafa komið hjá Alþýðusambandi Íslands og hinir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa einnig lýst flytti við um lágmarksálögur á launafólk í þessu skyni, til þess að fjármagna landhelgisgæsluna, en munum að sjálfsögðu bera fram okkar till., gera grein fyrir þeim úrræðum sem við sjáum til þess að afla fjár til landhelgisgæslunnar án slíkrar beinnar atlögu við kjör almennings.

Býsna margir munu hafa heyrt yfirlýsingu hæstv. fjmrh. í sjónvarpi á þá lund að hann teldi óeðlilegt að launafólk fengi bætur í launum fyrir þau útgjöld sem það yrði fyrir vegna fjárveitingu til landhelgisgæslunnar. Hins vegar er nú ljóst að hæstv. fjmrh. stendur að því er virðist nokkurn veginn á sama þótt kaupsýslumenn fái nokkur hundruð millj., eða nánar tiltekið 4–5 hundruð millj. í aukatekjur vegna þessarar ráðstöfunar.

Svo ég minnist lítils háttar á hugmyndir okkar alþb.- manna um leiðir til þess að afla tekna til landhelgisgæslunnar með öðrum hætti en þeim að leggja þessi gjöld á launafólk, þá þykjumst við sjá fyrir möguleika á því að afla a.m.k. þessara 1000 millj. kr. með sérstökum skatti á fyrirtæki. Við höfum þegar fyrir 8 vikum — nær þó 9 vikum borið fram frv. hér í þessari hv. d. um sérstakan toll sem lagður yrði á vörur frá Stóra-Bretlandi, 25% toll á vörur sem fluttar eru inn til landsins frá Bretlandi. Þetta frv. rökstuddum við á þann hátt að við kaupum vörur frá Bretlandi fyrir 8 milljarða á ári, flytjum þangað vörur aðeins fyrir 4 milljarða. Auðgert ætti að vera að fá þessar vörur frá öðrum löndum, frá öðrum ríkjum sem við eigum ekki í þess háttar átökum við sem við eigum nú í við breta, og eðlilegt væri að þeir ágætir íslendingar sem vildu halda áfram að kaupa breskan varning þrátt fyrir það óeðlilega ástand, sem nú ríkir á milli landanna, fengju að minnast landhelgisgæslunnar í nokkru með peningum sínum. Með þessum hætti má segja að fólk hefði nokkuð frjálst val að þessu leyti. En 25% aukatollur á vörur frá Bretlandi, miðað við innflutninginn eins og hann var í fyrra, mundi gefa 2 milljarða í ríkissjóð eða tvöfalda þá upphæð sem hér er um að ræða að vanti til landhelgisgæslunnar, og þó við reiknum með því að verulega dragi úr sölu á breskum varningi vegna þessa álags, þessa aukagjalds, þá má reikna með því að hafast mundi inn með þessum hætti 1 milljarður, þannig að þá þyrfti ekki að leggja þetta gjald á aðra en þá sem endilega vildu inna það af höndum.

Ég hafði ekki ætlað mér að tala langt mál við 1. umr. á móti frv. þessu. Ég vil aðeins ítreka þetta sjónarmið mitt, að þó það sé e.t.v. við hæfi, ef tekið er tillit til afstöðu ríkisstj. í ýmsum öðrum málum, að hún skáki nú í skjóli landhelgisgæslunnar þegar lagðar eru á nýjar álögur, stórfelldar álögur á launafólk í þessu landi, þá sé þetta tiltæki stjórnarinnar óafsakanlegt. En svo ég yfirgefi nú ekki ræðustólinn án þess að veita hæstv. fjmrh. nokkra viðurkenningu, þá hygg ég að hugmyndin, sem fram kom hjá honum í ræðu hans undir lokin, um breytingu á stjórnsýslu á fjármálasviðinu sé ekki fráleit, því mér virtist hún miða að því að leitað yrði, ef svo má segja, hámarksnýtingar lágmarksgreindar í tæka tíð við framlagningu fjárlaganna.