04.05.1976
Efri deild: 96. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3614 í B-deild Alþingistíðinda. (2965)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég mun ekki halda hér langa ræðu, enda hafa ræður hv. stjórnarandstæðinga ekki gefið tilefni til þess. Þær hafa verið stuttar og málefnalegar. En ég vil þó, áður en frv. fer til n., aðeins segja örfá orð.

Ég er ekki sammála því, sem hér hefur verið haldið fram, að ríkisstj. sé að fela sig á bak við nauðsynleg útgjöld til landhelgisgæslu. Það er greinilega tekið fram í frv. að það er fleira sem stendur til að gera fyrir það fé, sem hér á að afla, heldur en það eitt að efla landhelgisgæslu og auka fiskirannsóknir. Það er ekkert launungarmál. Það er sundurliðað í aths. frv. til hvers nota eigi fjármagnið, og þess vegna er það ekki á rökum reist að halda því fram að hér sé um neinn feluleik að ræða. Koma þar fyrst og fremst til vegamál og orkumál.

Hv. 1. landsk. þm. gat þess að skuldasöfnun núv. ríkisstj. erlendis væri úr hófi fram, og síst ætla ég að bera á móti því að hún sé of há. Og hann gat þess að því væri spáð að greiðslubyrðin í hlutfalli við útflutningstekjur mundi á þessu ári verða 18.6%. Það er vissulega mjög há tala. En ég held að það sé rétt að rifja það þá upp, t.d. á 10 ára tímabili, hver þessi greiðslubyrði hefur verið. Hún er svona eftir skýrslu hagfræðideildar Seðlabanka Íslands: 1967 11.5, 1968 15.1, 1969 16.7, 1970 11.2, 1971 10.0, 1972 11.4, 1973 9.7, 1974 11.2, 1975 14.8 og 1976 áætlað 18.6, eins og hv. þm. nefndi. Hér eru mjög háar tölur, það skal viðurkennt, en það er ekkert ýkjalangt síðan greiðslubyrðin náði svipuðum fjárhæðum, og það var ekki í tíð þessarar hæstv. ríkisstj. Þetta var í tíð þeirrar ríkisstj. sem átti sæti frá 1959 til 1971. Þá komst greiðslubyrðin í 16.7% og nú erum við sem sagt aðeins að skríða fram úr því hámarki sem þá var sett. En í tíð vinstri stjórnar var greiðslubyrðin miklu lægri, eins og kemur fram af þeim tölum sem ég hef leyft mér að vitna til. Ég held að það sé nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því — ekki einungis hvernig málin eru í dag, heldur einnig hvernig þau hafa verið. Ég er ekki að mæla þessu bóta, en ég vísa til allra þeirra framkvæmda sem nú er verið að vinna að og lánin hafa fyrst og fremst verið tekin til. Hv. þm. gat þess að hitaveita á Akureyri væri gjaldeyrissparandi og þess vegna mætti gjarnan taka lán til hennar. En það eru bara fleiri framkvæmdir sem eru gjaldeyrissparandi og valda því að verulegu leyti hversu mikið erlend lán nú hafa verið tekin.

Það má vel vera að hv. stjórnarandstæðingar sætti sig við niðurskurð á ýmsum framkvæmdum sem ríkið stendur f. Og persónulega er ég þeirrar skoðunar að menn verði að haga seglum eftir vindi og framkvæma eftir því sem getan leyfir. En ég man ekki betur þau ár sem ég hef setið hér á Alþ., sem eru að vísu ekki ýkjamörg, en þó nokkur orðin, en að í hvert skipti, sem minnst er á vegamál, þá hafi risið upp a.m.k. helmingur þm. og krafist þess að vegir yrðu bættir í sínu kjördæmi. Ég veit ekki betur en að í hvert skipti sem póst- og símamál hefur borið á góma, þá hafi menn risið upp og sagt: Símaþjónustan í mínu kjördæmi er ómöguleg og hana verður að bæta. Og ég man ekki betur en að hér hafi margsinnis á hverju þingi verið fluttar till. um bætt sjónvarpsskilyrði og útvarps víðs vegar um landið. Allt eru þetta auðvitað réttmætar kröfur. En menn verða þá að gera sér grein fyrir því jafnframt að það kostar fé að byggja þessar framkvæmdir og það verður ekki hægt að gera það án þess að leggja fjármagn til þeirra hluta. Það er matsatriði hve hratt á að fara í slíkar framkvæmdir, það skal viðurkennt, og vafalaust hefði mátt hægar fara oft og einatt, ekki bara núna. En það er víst að ánægju mundi það ekki vekja hjá landsmönnum yfirleitt. Allt eru þetta, að ég hygg, fyrst og fremst dreifbýlismál sem margur vill kenna sig við og eigna sér þegar búið er að framkvæma þau, en gjarnan vera laus við að bera ábyrgð á þeirri fjáröflun sem þarf til þess að koma þessum framkvæmdum í verk.

1. landsk. gat þess að frv. væri svo slæmt að það væri andstætt hagsmunum vinnuveitenda, andstætt hagsmunum iðnrekenda, andstætt hagsmunum launþega í Alþýðusambandi Íslands og andstætt hagsmunum launþega í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Og eflaust finnst öllum þetta frv., eins og gjarnan þegar þarf að leggja á nýjar álögur, vera andstætt sér. En væri betra að frv. væri hagstætt einhverjum þessara aðila? Ég efa það. Ég held að það sé best að það beri allir byrðarnar og að þær álögur sem leggja þarf á, komi sem jafnast niður, sem sagt illa við alla, af því þær gera það vissulega. (Gripið fram í.) Ja, verslunin, það er mál sem verður ábyggilega kannað sér á parti. Það er sagt að verslunin muni græða á þessu ótalin hundruð millj. kr. Og það er eflaust rétt að teknamegin hjá verslun koma stórar fjárhæðir, En gæti ekki hugsast að það kæmi eitthvað gjaldamegin líka? Er ekki flest verslun hér rekin fyrir lánsfé, og kostar það ekki sitt að auka lager og kaupa inn dýrari vörur heldur en nú er? Ég gat ekki hlustað á svar viðskrh. við þessari spurningu í Nd. í dag, en ég hygg að hann hafi þó sagt að þessi mál yrðu könnuð í verðlagsnefnd og þar yrði reynt að meta það hver hagur verslunarinnar sérstaklega yrði af þessum ráðstöfunum, og það vona ég að verði gert.

Ég skal ekki eyða tíma hv. d. í langa ræðu um þetta mál, en ég vil segja það að lokum, að ég efa það ekki að jafnhjartgóður og velviljaður maður og hv. 7, landsk, þm. vildi gjarnan stytta líf afvelta kindar ef hann hefði á því tök, og ég gæti vel ímyndað mér að hann hefði sama hugarfar til þessarar ríkisstj. eins og bóndinn til kindarinnar, en einhvern veginn virðist hann nú bara vanta það sem til þarf til þess að stytta lífið.