10.11.1975
Neðri deild: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

41. mál, söluskattur

Flm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Það er alkunnugt að stór hluti landsmanna býr við mun kostnaðarmeira lífsframfæri en hinn hlutinn. Í umr. um byggðamál á Íslandi á undanförnum árum hefur það hvað eftir annað komið fram hjá bæði stjórnmálaflokkum, sveitarstjórnum og hagsmunasamtökum landsbyggðarinnar að þessi mismunur á framfærslukostnaði er eitt helsta vandamál hvað snertir byggðina í landinu. Þeir, sem búa utan höfuðborgarsvæðisins, þurfa að verja mun meiri fjármunum til þess að hljóta sams konar lífsviðurværi heldur en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Sú staðreynd að innflutningsverslun landsins, þorri annarra verslunarfyrirtækja og viðskiptafyrirtækja í fjölmörgum greinum, stjórnkerfi landsins og aðrar meginstofnanir eru í mörgum tilfellum nær eingöngu, í öllum tilfellum aðallega hér á höfuðborgarsvæðinu, felur það í sér að til þess að geta öðlast sams konar viðskipta- og þjónustuaðstöðu og íbúar þessa svæðis þurfa íbúar annarra landshluta að leggja fram mun meira fé. Ég veit að ég þarf ekki fyrir þorra þm. að færa fjölmörg dæmi þessari lýsingu til staðfestingar.

Þetta einkenni okkar samfélags er alkunnugt þótt því miður hafi ekki verið gerðar á því mjög nákvæmar rannsóknir. Að vísu mun vera starfandi n., sem falið var fyrir 2–3 árum að athuga þetta efni, en ekki hefur heyrst um eðli þeirra athugana eða væntanlega niðurstöðu n. Við, sem að þessu frv. stöndum, teljum hins vegar að ekki sé hægt að draga ár eftir ár aðgerðir í þessum efnum. Við teljum að það hljóti að vera eitt af höfuðviðfangsefnum þings og stjórnvalda, sem vilja á raunhæfan hátt takast á við byggðavandann í landinu, að benda á leiðir þessu til úrlausnar. Það liggur ljóst fyrir, að framkvæmd á jöfnuði framfærslukostnaðar getur orðið mjög flókin og það er viss hætta að hún geti haft í för með sér töluvert mikinn kostnað. Við teljum óheppilegt að það sé fundin leið í þessum efnum sem beinlínis feli í sér að settar séu á laggirnar nýjar stjórnstofnanir með nýju embættismannakerfi, miklum kostnaði o. s. frv. Við teljum nauðsynlegt að fara í þessum efnum leið sem sé í senn einföld, ódýr, en mikilvirk á skjótan hátt. Þess vegna höfum við lagt til í þessu frv. að söluskatti verði beitt sem stjórntæki í þessum efnum.

Þróunin síðustu ár hefur verið á þann veg, að söluskattur hefur orðið æ hærri og umfangsmeiri hluti í tekjum hins opinbera, þannig að aðgerðir á þessu sviði, þ. e. a. s. beiting söluskattsins sem stjórntæki, geta nú náð miklu meiri árangri en hægt hefði verið fyrir t. d. 10 árum. Söluskattur er orðinn það hár, orðinn það mikill þáttur í tekjuöflun ríkisins, að hann býður upp á möguleika í þessum efnum. Við höfum þess vegna lagt til að landinu verði skipt í þrjú innheimtuumdæmi: Í fyrsta umdæminu verði Reykjavík og Reykjaneskjördæmi, þar sem allur hinn gildandi söluskattur verði innheimtur. Annað umdæmi verði nágrannasvæðin, Vesturlandskjördæmi og Suðurlandskjördæmi, þar sem innheimtir skuli 9/10 hlutar söluskatts. Þriðja innheimtuumdæmið verði aðrir landshlutar, Vestfjarðakjördæmi, Norðurlandskjördæmi vestra, Norðurlandskjördæmi eystra og Austurlandskjördæmi, þar sem innheimtir verði 8/10 hlutar söluskatts.

Nú má auðvitað um það deila hvort kjördæmi séu heppilegar einingar í þessu efni. Við teljum þó að þróunin hafi verið sú síðan þetta kjördæmakerfi var innleitt að æ fleiri þættir í stjórnsýslunni eru miðaðir við þessar einingar.

Einnig fer það saman, að ætla má að framfærslukostnaðurinn sé vegna fjarlægðar, flutningskostnaðar og annarra þátta mun hærri á þriðja innheimtusvæðinu, sem hér er talið upp, heldur en á hinum tveimur, og ætla má að annað innheimtusvæðið komi þar á milli. Það skal þó skýrt tekið fram að að baki þessarar tillögugerðar um 9/10 hluta og 8/10 hluta liggja ekki ítarlegir eða miklir útreikningar og við flm. þessa frv. erum reiðubúnir til að endurskoða þetta hlutfall ef aðrir hv. þm. geta fallist á þá grundvallarhugsun sem í frv. er, sem í fyrsta lagi er fólgin í því að beita söluskatti sem stjórntæki í þessum efnum og í öðru lagi að fara þá leið að skipta landinu í innheimtuumdæmi af þessu tagi. Við vonum sérstaklega að þeir þm., sem fulltrúar eru fyrir hinar dreifðu byggðir hér á Alþ. og hafa á undanförnum árum þurft að glíma við það á margvíslegan hátt að rétta hag þessara byggðarlaga og stuðla að því að íbúar þeirra beinlínis hafi efni á því að búa þar áfram þrátt fyrir síaukinn tilkostnað á fjölmörgum sviðum, geti orðið okkur samferða í því að finna einhverja lausn á þessum vanda, ef menn á annað borð eru sammála um það, sem við höfum ríka ástæðu til að ætla ef taka má mark á stefnuyfirlýsingum þingflokka og annarra aðila sem að sumum þingflokkunum standa, — ef taka má mark á þeim stefnuyfirlýsingum að menn vilji takast á við þann vanda að jafna framfærslukostnaðinn í landinu. Þrátt fyrir þessa miklu umr. um þennan mismunandi framfærslukostnað hefur því miður lítið verið um raunhæfa tillögugerð í þessum efnum. Við fluttum hér á síðasta þingi frv. um að fella niður söluskatt á tilteknum tegundum þjónustu, síma og flugleiðum, sem íbúar landsbyggðarinnar þurfa sérstaklega á að halda, en við teljum að athuguðu máli að það beri að ganga enn lengra í þessum efnum, reyna að ná raunhæfum árangri með því að beita söluskattinum á þann hátt sem hér er lagt til.

Um þetta væri í sjálfu sér hægt að hafa fleiri orð. Ég held þó að þetta litla frv. og grg. með því útskýri nægilega þá grundvallarhugsun, sem hér er sett fram. Ef menn ekki vilja fallast á þá grundvallarhugsun, þá stoðar lítt að vera með tæknilegar útskýringar á því hvernig þetta yrði framkvæmt. Ef hins vegar hv. þm. vilja fallast á þessa grundvallarhugsun, þá erum við flm. reiðubúnir að skoða hvort menn vilja þá fara einhverja aðra leið, annaðhvort með umdæmaskiptingu eða öðrum hlutfallatölum en lagt er til í þessu frv. Aðalatriðið er, að þeir þm. og þeir stjórnmálaflokkar, sem hafa lýst því yfir hvað eftir annað að þeir vilji reyna að jafna framfærslukostnaðinn í landinu og eyða þessum veigamikla þætti í byggðaröskuninni, — að það er mun dýrara að framfleyta sér og sínum á stórum hluta landsins heldur en hér á höfuðborgarsvæðinu, — að þeir gangi til liðs við okkur og finni sem fyrst raunhæfar leiðir til þess að leysa þennan vanda.

Ég vil svo leggja til að þessu frv. verði vísað til fjh.- og viðskn., og það er von mín að það fái þar raunhæfa skoðun.