04.05.1976
Efri deild: 97. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3620 í B-deild Alþingistíðinda. (2970)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Frv. þetta hefur verið til umr. í dag í Nd. og við 1. umr. málsins hér í Ed. var það tekið til umr. af þremur alþb.- mönnum, sem gerðu því ágæt skil, og af þeirri ástæðu er ekki ástæða fyrir mig að fara hér mjög ítarlega út í þetta mál. En ég vil fara hér yfir nokkur meginatriði þess.

Hér er að sjálfsögðu um hreint tekjuöflunarmál að ræða sem er af því sprottið að fjárlög, sem samþ. voru fyrir s.l. áramót, voru algjörlega óraunhæf. Það virðist því vanta 2000 millj. kr. miðað við þau verkefni sem núv. ríkisstj. hefur ætlað sér að rækja. Allt var þetta að sjálfsögðu fyrirsjáanlegt um s.l. áramót. Það var fyrirsjáanlegt að útvega þyrfti meira fjármagn til eflingar landhelgisgæslunnar, og á það bentum við alþb.menn og ítrekuðum með sérstökum tillöguflutningi þar um. Eins var ljóst að þær upphæðir, sem nefndar voru í fjárlögum og ætlaðar voru til fiskleitar, voru algjörlega ónógar miðað við verkefnin. Annar liður fjárlaga, sem var bersýnilega mjög svo óraunhæfur, var sá liðurinn sem sneri að kaupgjaldi opinberra starfsmanna og hefur það að sjálfsögðu komið á daginn.

Nú þegar afla þarf tekna til að bæta hag ríkissjóðs var að sjálfsögðu fráleit hugmynd frá öndverðu að ætla sér að fella þá fjáröflun út úr vísitölu því hér er ósköp einfaldlega um að ræða að það þarf að fylla skarð í fjárlagadæminu sem er ekkert annars eðlis í sjálfu sér en önnur þau nauðsynjamál sem eru í fjárlögum. Sem betur fer hefur það gerst við afgreiðslu þessa máls vegna þrýstings frá Alþýðusambandi Íslands og vegna baráttu stjórnarandstæðinga gegn því að riftað yrði gerðum kjarasamningum, að ríkisstj. hefur séð að sér og ákveðið að hækkun vörugjaldsins komi öll inn í vísitölu.

Fjárhagsvandamál ríkissjóðs verða hins vegar ekki rakin til þess að hæstv. fjmrh. hafi verið almennt allt of linur við að afla ríkissjóði tekna. Hann hefur staðið fyrir mjög svo hressilegum álögum á almenning í landinu, bæði í formi stórhækkunar á sölusköttum með vörugjaldi á vörugjald ofan og með sérstökum brúttóskatti á alla útsvarsgreiðendur. Allar hafa þessar álögur beinst að buddu hins almenna manns. En hitt er svo annað mál, að jafnframt þessu hefur það blasað við um langt skeið að þúsundir millj. kr. rynnu fram hjá garði hæstv. fjmrh. án þess að nokkur tilraun væri gerð til þess að fella þar á skatt. Þar á ég að sjálfsögðu við reksturinn í landinu sem sleppur mjög við skattaálögur vegna fáránlegra fyrningarreglna og annarra galla á núverandi tekjuskattslögum. Ég hef svo oft rætt það mál hér á Alþ. að ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í þá sálma hér. En ljóst er af yfirlýsingum hæstv. fjmrh. að hann ætlar enn að láta líða eitt skattlagningarár án þess að hreyft verði við þessum miklu óskattlögðu tekjum.

Þegar þetta frv. um vörugjald var lagt fram gerði stjórn Alþýðusambands Íslands samþykkt þar sem hún taldi sig reiðubúna að samþ. eftir atvikum allt að 13–14% hækkun vörugjaldsins með vissum skilyrðum. Þetta var framrétt hönd til sátta, og færð voru að því full rök að 1000 millj. kr. fjáröflun mundi duga. Með þeim rökstuðningi, sem þar var færður fram, er Alþb. reiðubúið að standa að þessari viðleitni Alþýðusambandsins að ná samstöðu um að vörugjaldið hækki ekki nema í 14%. Og þetta á við stjórnarandstöðuflokkana alla. Við flytjum því sem aðaltill. okkar hér þá till., sem Alþýðusambandið hafði áður lagt fram, um að vörugjaldið verði 14%.

Hitt kemur svo skýrt fram í nál. okkar, að við alþb.- menn höfum bent á að aðrar leiðir til fjáröflunar hefðu verið heppilegri og æskilegri en jafnvel álagning 14% vörugjalds, og til að undirstrika þetta sjónarmið okkar flytjum við aðra till., varatill., þar sem gert er ráð fyrir því, að 1000 millj. kr. verði aflað í ríkissjóð með sérstakri álagningu 6% brúttóskatts á rekstrartekjur.

Eins og fram kemur í nál. okkar munum við ekki láta atkv. falla um þessa till. við 2. umr. málsins þar sem þetta er varatill. og hún verður dregin til baka endanlega ef aðaltill. okkar verður samþ., en endurflutt við 3. umr. ef aðaltill. okkar verður felld. Þessi till. er á þskj. 628 og ég vil nú fara nokkrum orðum um þessa till. En hana verður sem sagt að skoða í ljósi þeirra aðstæðna sem ég nú hef lýst, sem sagt að veikasta hliðin á skattlagningarkerfi okkar í dag er sú að skattur á rekstur er hlutfallslega mjög óverulegur og þar eiga fyrningarreglurnar einkum sökina.

Við leggjum til að á sérhvern skattskyldan rekstur félaga og einstaklinga skuli við álagningu nú í sumar bætt ofan á aðra skatta 6% brúttóskatt sem miðaður sé við hreinar rekstrartekjur fyrirtækja áður en fyrningar og varasjóðsframlög hafa verið dregin frá. Ég hjó eftir því að hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. taldi mjög óæskilegt að hreyfa við tekjuskattslögunum svo seint, og virtist mega skilja af orðum hans að till. væri á einhvern hátt erfið í framkvæmd vegna þess hversu seint hún væri fram komin. Ég held að þetta sé misskilningur hjá hv. þm. Ef tími hefði unnist til, ef við værum hér að ræða um breyt. á skattalögum í febrúarmánuði t.d., þá hefðum við alþb.-menn kosið að gera beina brtt. við núverandi fyrningarreglur tekjuskattslaganna og það hefði verið raunhæft á þeim tíma. Við viðurkennum hins vegar að það er ekki raunhæft í dag. En þetta er ekki brtt. við hinar almennu, venjulegu fyrningarreglur, mun engu breyta um þá álagningu sem nú er í gangi hjá skattstofum víðs vegar um land, mun ekki á nokkurn hátt torvelda skattlagningu né tefja fyrir henni. En samþykkt till. mundi fyrst og fremst hafa það í för með sér að að lokinni almennri álagningu tekjuskatts yrðu skattstofurnar að fara yfir framtöl allra þeirra einstaklinga og félaga, sem rekstur hafa með höndum, og ákveða þennan viðbótarskatt. Og þar sem um er að ræða mjög skýran og einfaldan skattstofn sem blasir við í tölum talið í skýrslum skattstofunnar, þá á þetta að vera mjög einfalt verk og auðunnið, kosta tiltölulega lítið og vera fljótgert. Vil ég heyra rök fyrir því ef hv. þm. telur að hér fari ég með rangt mál.

Ég hjó einnig eftir því að hv. þm. taldi að hér væri um sérstaka árás á bændastéttina að ræða. Ég held að ef hv. þm. kynnti sér þá till., sem við höfum hér fram borið, mundi hann sjá að svo er ekki. En ég vil taka það fram að misskilningur hans kann að stafa af því að hann var ekki búinn að fá till. í hendur, en hún er ekki alveg með sama hætti og till. sem flutt var í Nd. við nánari athugun bættum við einni málsgr. við till. sem einmitt er ætlað að koma í veg fyrir að samþykkt þessarar gr. komi illa við þá sem hafa sjálfstæðan rekstur með höndum, en hafa tiltölulega litlar tekjur og a.m.k. litla fjárfestingu. Þessi setning er svo hljóðandi: „Nú hefur notkun fyrningarheimilda samkv. 15. gr. lækkað skattgjaldstekjur við álagningu tekjuskatts fyrir skattárið 1975 um lægri fjárhæð en 200 þús. kr., og skal þá skatturinn lækkaður um helming, en falla niður, ef nefnd fjárhæð er lægri en 100 þús. kr.“

Ekki veit ég hvort allir hv. þm. hafa náð kjarna þessa máls, en ég vil þá fara örfáum viðbótarorðum um þetta atriði. Það felur það í sér að hafi viðkomandi rekstraraðili alls ekki notað fyrningarheimildir, þá fær hann ekki þennan skatt á sig. Hafi hann notað fyrningarheimildir til að lækka sinn tekjuskatt sem nemur á bilinu frá 100 þús. kr. til 200 þús. kr., sem þýðir þá væntanlega að hann hefur hagnast af fyrningarreglum einhvers staðar á bilinu frá 2 þús. kr. og upp í 80 þús. kr., eftir því í hvaða skattstiga hann hefur hugsanlega lent, þá greiðir hann aðeins helming þessa skatts. Það er aðeins ef viðkomandi aðili hefur haft með höndum svo mikla fjárfestingu að hann hefur getað fyrnt meira en 200 þús. kr. á árinu og þar með sloppið við verulegar skattgreiðslur í sambandi við álagningu tekjuskatts að hann lendir í því að borga þennan skatt. Ég er sannfærður um að mikill meiri hl., vafalaust yfirgnæfandi meiri hl. bænda lendir þar af leiðandi ekki í þessum skatti, einmitt vegna þess að þó að fjárfestingar séu allmiklar í landbúnaði, þá munu menn almennt ekki ná þessum mörkum. En nái þeir þeim, hafi þeir haft með höndum svo miklar fjárfestingar á árinu að þeir nái þessum mörkum, þá er ekki nema eðlilegt og sanngjarnt að þeir borgi viðbótarskatt, því þá hafa þeir notað fyrningarheimildir í óhófi. Þá hafa þeir væntanlega notað allt að 28% fyrningu sem er miklu meiri fyrningarheimild en nokkurt vit er í, og þá er ekki nema sanngjarnt að þeir greiði þennan skatt. En þetta á að sjálfsögðu ekki aðeins við bændur, heldur kann þetta að eiga við ýmsa aðra rekstraraðila sem ósanngjarnt er að gjaldi fyrir einhverja aðra sem sleppa vel frá tekjuskatti vegna þess, að þeir hafa hagnýtt sér fyrningarreglur.

Ástæðan til þess, að þessi viðbótarsetning fylgdi ekki till. þegar hún var flutt í Nd., var einfaldlega sú að ákaflega lítill tími gafst til undirbúnings tillögugerðinni vegna þess mikla hraða sem ríkisstj. hefur á afgreiðslu þessa máls, og þetta atriði hafði því fallið niður við gerð till. En því skal að vísu bætt hér við, að sjálfsagt mætti orða þessa tillögugrein á annan veg og hafa þá kannske fleiri þrep en tvö, eins og hér er lagt til, en þurft hefði meiri tíma til að undirbúa till. á þann veg.

Í sambandi við bændastéttina, þá get ég ekki stillt mig um að minna hv. þm. á að það er verið að leggja töluverðar byrðar á bændastéttina með álagningu þessa vörugjalds. Ýmsar mjög nauðsynlegar heimilisvélar hækka t.d. verulega í verði í stórum stíl og ýmsar mjög nauðsynlegar í fjárfestingarvörur landbúnaðarins. Staðreyndin er auðvitað sú, að bóndinn getur tæpast hreyft sig svo hann sé ekki þar með að gjalda einhvern aukaskatt í ríkissjóð vegna samþykktar þess vörugjalds sem hér er til umr. Hann getur ekki rakað sig án þess að borga þar með skatt í ríkissjóð, hann getur ekki stráð salti í grautinn sinn, vegna þess að fjmrh. mun þar ná nokkrum aurum hverju sinni, og hann getur ekki piprað plokkfiskinn sinn án þess að fjmrh. komi þar við sögu. Það er því ekki hægt að halda því fram að bændastéttin komi frá þessari skattlagningu án þess að eitthvað lækki í buddunni.

Flestum mun ljóst vera að vörugjald er nokkurs konar gengislækkun. Þó að sú gengislækkun gangi ekki yfir allar vörur, þá gengur hún yfir stóran hluta af vörum á markaðinum. Og þetta er svo sannarlega ekki fyrsta gengisfellingin sem núv. ríkisstj. stendur fyrir. Hún var ekki búin að starfa meira en hálft ár þegar hún hafði þegar staðið fyrir tveimur stórfelldum gengislækkunum sem hvor um sig var milli 20 og 25% eftir því hvernig reiknað er. Þar við hefur svo bæst gengissig sem er hvorki meira né minna en 20% frá seinustu opinberu gengislækkun, þegar dollarinn var skráður á 149 kr., en er nú skráður á 179 kr. eða rétt um 180 kr. Til viðbótar þessu kemur svo vörugjaldið sem lagt var á á s.l. sumri og svo vörugjald á vörugjald ofan.

Það hefur verið meginreglan í sambandi við gengisbreytingar og lengstum óumdeilt að álagning verslunarinnar ætti ekki að hækka í krónutölu vegna ráðstafana sem í orði kveðnu væru gerðar til að bæta afkomu þjóðarbúsins og að ein stétt manna ætti ekki að hagnast stórlega á slíkum efnahagsaðgerðum. Þess vegna hefur það löngum verið ákveðið að álagningarprósenta skuli lækka í tengslum við slíkar efnahagsaðgerðir. Og þetta var lengstum óumdeilt. En nú í seinni tíð og þá fyrst og fremst í tíð þessarar stjórnar hefur verið farið inn á aðrar brautir. Er þess skemmst að minnast að þegar vörugjald var lagt á í sumar mun verslunarstéttin hafa hagnast mjög verulega á þeirri skattlagningu enda var þá engin breyting gerð á álagningarreglum. Það er því ekki að ófyrirsynju að stjórnarandstöðuflokkarnir og Alþýðusambandið hafa lagt ákaflega ríka áherslu á að þetta endurtaki sig ekki.

Hér kom fram áðan að viðskrh. hefði fjallað um þetta í Nd., við umr. um þetta frv. í dag, og hann hefði lýst þar yfir að þetta mál yrði athugað. Ekki náði nú yfirlýsingin lengra hjá hæstv. viðskrh. og fyrr hefur maður heyrt svo loðnar yfirlýsingar sem lítið hafa merkt í reynd.

Við alþb.-menn teljum sjálfsagt og eðlilegt að slá því föstu í eitt skipti fyrir öll, varðandi afgreiðslu þessa máls a.m.k., að álagning í heildsölu og smásölu skuli ekki hækka að krónutölu vegna hækkunar vörugjalds samkv. 1. gr. þessa frv. Við flytjum því, hv. þm. Geir Gunnarsson og ég, þá till. á þskj. 628 til viðbótar við till. um sérstakan 6% skatt. Um aðrar frvgr. get ég verið fáorður. Ég stend ekki gegn því að ákvæði II kafla frv., III. kafla þess og IV. kafla nái fram að ganga. Ég tel að vísu að ákvæði Il. kafla um breytingu á greiðslu persónuafsláttar séu nokkuð seint á ferðinni og í reynd mjög óeðlilegt að ætla að breyta þessu atriði eftir að allar sveitarstjórnir hafa gert sinar fjárhagsáætlanir. En þar sem ég tel ekki að það sé eðlilegt að sveitarstjórnir njóti tekna í þessu formi, þá læt ég það afskiptalaust persónulega þótt þessi breyting nái fram að ganga. Í sannleika sagt hafa stjórnarandstöðuflokkarnir ekkert sérstaklega fjallað um þetta atriði. Ég geri ráð fyrir að menn láti þetta ákvæði afskiptalaust. Eins er um önnur ákvæði hér, bæði skyldusparnað og fjármögnun orkuframkvæmda sveitarfélaga. Við alþb.- menn erum heldur hlynntir skyldusparnaðinum, og ég geri ráð fyrir því að við munum flestir greiða atkv. með því að hann nái fram að ganga. Og eins er um fjármögnun orkuframkvæmda sveitarfélaganna. Það skal hins vegar tekið fram að afstaða okkar til frv. mótast á engan hátt af afstöðu okkar til þessara kafla þess, enda eru þetta minni háttar mál. Við munum því greiða atkv. gegn frv. ef aðaltill. okkar um lækkun vörugjaldsins nær ekki fram að ganga.

Í þessu sambandi vil ég aðeins láta þess getið hér að ég er ekki algjörlega sammála því mikla umtali sem sem verið hefur um tröllslega skuldabyrði íslenska ríkisins, og ég get í ýmsu tekið undir það sem fram kom hjá hæstv. utanrrh. Einari Ágústssyni. Ég tel ekki neina sérstaka ástæðu til að örvænta þó að greiðslubyrðarhlutfall erlendra lána hafi nokkuð hækkað seinustu árin af skiljanlegum ástæðum. Þar er að sjálfsögðu fyrst og fremst um það að ræða að ráðist hefur verið í margs konar fjárfestingu sem er óhjákvæmileg og nauðsynleg og mun skila þjóðinni miklum arði. Er yfirborðskennt að minni hyggju að vera að amast við þeirri fjárfestingu sem að mestu leyti var óhjákvæmileg og sjálfsögð. Ég nefni t.d. framkvæmdir í orkumálum sem eiga eftir að skila þjóðinni miklum arði, og eins er hitt, að tölur af þessu tagi segja sjaldnast nema hálfa söguna því þær mótast fyrst og fremst af þeim sveiflum sem eiga sér stað í útflutningstekjum þjóðarinnar. Þegar verðlag á afurðum okkar hækkar og útflutningstekjurnar hækka, þá lækkar þetta hlutfall og svo aftur öfugt. Það er þess vegna engin tilviljun að á s.l. áratug skyldi þetta hlutfall verða langsamlega hæst á árunum eftir að síldin hvarf af miðunum og útflutningstekjur okkar urðu hvað lægstar.

Í sambandi við erlenda skuldabyrði er það mjög tíðkað að reyna að framreikna hana og áætla hversu mikið hún eigi eftir að vaxa á næstu árum. En ég tel að þeir útreikningar séu harla hæpnir, að ekki sé meira sagt, og hef margt við þá að athuga þó að ég fjölyrði ekki um það hér. En eitt af því, sem ævinlega gleymist að taka tillit til í slíkum útreikningum, er hin erlenda verðbólga sem einnig er fyrir hendi og þar með verðrýrnun erlendra gjaldmiðla, sem skuldir okkar eru einkum miðaðar við, en það hefur að sjálfsögðu í för með sér í reynd, ef til lengdar lætur, að þessi hlutföll hækka ekki nándar nærri eins mikið og þau mundu gera ef þetta er reiknað út einfaldlega stærðfræðilega án þess að tekið sé tillit til þessarar grundvallarstaðreyndar. Ég tel í sambandi við erlenda skuldabyrði að aðalatriðið sé að við erlenda lántöku sé þess gætt stranglega að lánsféð renni til framkvæmda sem eru annað tveggja gjaldeyrisaflandi eða gjaldeyrissparandi og að ekki séu tekin erlend eyðslulán. En varðandi þátt núv. ríkisstj. í þessum efnum, þá er það kannske einkum það sem mætti um sakast hvað hana snertir, að hún hefur haldið á gjaldeyrísmálum þjóðarinnar frámunalega illa og hún hefur sannarlega tekið hvert eyðslulánið af öðru. Það er fordæmanlegt, en ekki hitt, að tekin séu erlend lán til nauðsynlegrar fjárfestingar og framkvæmda sem eiga eftir að skila þjóðinni miklum arði.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um álit minni hl. n. og till. okkar alþb.-manna.