05.05.1976
Sameinað þing: 84. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3675 í B-deild Alþingistíðinda. (2984)

318. mál, utanríkismál

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu þá um utanríkismál er hann hefur nú flutt þingheimi. Jafnframt þakka ég honum fyrir góða samvinnu við utanrmn.

Að lögum fer utanríkisþjónustan með utanríkismál og gætir í hvívetna hagsmuna Íslands gagnvart öðrum ríkjum. Hún skal einkum gæta hagsmuna Íslands að því er snertir stjórnmál og öryggismál, utanríkisviðskipti og menningarmál. Samkv. þingsköpum er utanríkismálum vísað til utanrmn. og skal rn. ávallt bera undir hana utanríkismál sem fyrir koma, einnig milli þinga. Þetta samstarf hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Hefur það tvímælalaust orðið til góðs fyrir alla aðila, glætt samstarfsvilja og gagnkvæman skilning og greitt úr ýmsum þáttum mála.

Því hefur verið haldið fram að skýrsla um utanríkismál yrði að koma fram það tímanlega á hverju reglulegu Alþ. þm. gæfist kostur á að kynna sér hana rækilega og ræða eftir vild. Hefur frv. til að tryggja þetta atriði verið flutt á þessu þingi af hv. 3. þm. Reykn. Þetta frv. er nú til meðferðar í n. Ég hygg að hæstv. utanrrh. sé síður en svo andvigur því að þessari ræðu séu einhver tímatakmörk sett á hverju þingi. Um þetta munu þó vera skiptar skoðanir þó að ekki sé stórvægilegt atriði. Það er jafnan svo að umhugsunarvert er hvort marka eigi ákveðna þætti mála með löggjöf eða ekki. Sumir telja jafnvel æskilegra að ákveðnar þingvenjur mótist ár frá ári og skapist ákveðin hefð sem þm. telja sér skylt að fara eftir eins og skráð lög væru. Ég skal ekki segja hvernig þessu frv. reiðir af. Það hefur ekki verið rætt til fulls eða afgr. úr n. enn þá. Hitt var rétt, sem hv. 3. þm. Reykn, gat um, að þessi mál eða umr. um utanríkismál eru með öðrum hætti en áður var, þ. e. a. s. eins og hann benti réttilega á, þá mátti það heita við~ burður ef utanríkismál bar á góma áður fyrr. Utanríkismálin voru hornreka, sumpart af eðlilegum ástæðum meðan landið var ekki fullvalda, sumpart af því að íslendingar hafa verið lítt vanir að fást við utanríkismál og jafnvel feimnir að ræða þau, eins og dæmi sanna um öryggismál, þar til nú á síðari árum að farið er að ræða þessi mál ögn frjálslegar og veita þeim þá athygli sem þau verðskulda. En það hefur nú að mínum dómi skapast nokkur venja í þá átt að síðustu árin hefur skýrsla um utanríkismál verið lögð fram og flutt af utanrrh. okkar, og fer vel á því. En það er hverju orði sannara hjá hv. 3. þm. Reykn., að vissulega væri æskilegt að gefa sér rýmri tíma til að ræða þessi mikilvægu mál hér á hv. Alþ. og jafnvel aðra málaflokka, eins og hann benti á um norska Stórþingið sem valdi sér norrænt samstarf að umræðuefni a.m.k. einn dag eigi alls fyrir löngu.

Skýrsla hæstv. utanrrh., er hann flutti að þessu sinni, er löng og efnismikil. Það eru því ekki nema fá orð sem látin verða falla um hana af minni hendi og þá aðeins vikið að fáum atriðum og stiklað á stóru.

Á alþjóðavettvangi hefur margt borið til tíðinda á liðnu ári og undanfarna mánuði. Hefur Ísland og íslenskir fulltrúar komið þar nokkuð við sögu og lagt lóð á vogarskálar eftir efnum og ástæðum. Svo sem eðlilegt er fjallar gildur þáttur eða kafli ræðunnar um þátttöku íslendinga í samtökum Sameinuðu þjóðanna og störf á þeim vettvangi. Hæstv. utanrrh, sótti Allsherjarþingið s.l. haust, flutti þar ræðu þar sem hann kom á framfæri sjónarmiðum íslendinga varðandi okkar stærstu mál, útfærslu fiskveiðilögsögu Íslands í 200 mílur og afstöðu á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Vafalaust hefur þessi kynning á málstað og markmiðum íslendinga haft sitt að segja. Það þykir jafnan með forvitnilegustu dagskrárefnum Allsherjarþingsins þegar leiðtogar og ráðamenn þjóðanna stíga í stólinn á öndverðu þingi og reifa helstu áhugamál sin og markmið.

Á Allsherjarþinginu þykir hverri þjóð nokkurs virði að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Íslenska sendinefndin er ekki fjölmenn á því þingi á borð við sendiflokka annarra þjóða, en reynir þó vafalaust að láta til sín taka eftir mætti. Oft hentar vel og er raunar alveg nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að hafa náið samstarf við sendinefndir annarra þjóða, svo sem Norðurlandaþjóðanna, sem þar hafa oft ráðið ráðum sínum með góðum árangri svo sem mörg dæmi sanna.

Margar hugmyndir og mörg stór mál koma að sjálfsögðu fram á hinu fjölmenna alþjóðaþingi. Nefna má, eins og raunar hv. síðasti ræðumaður, 3. landsk. þm., ræddi nokkuð, hugmynd um stofnun Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem fyrst var borin fram af U Thant, þáv. framkvæmdastjóra þeirra, fyrir 10 árum. Þessa hugmynd hafa íslendingar stutt og látið í ljós áhuga sinn um þátttöku. Hefur sérstaklega verið hugleidd samvinna við þessa menntastofnun að því er varðar rannsóknir á auðlindum hafsins og jarðhitaorku og nýtingu jarðhita. En í þessum málum fer sem oftar að margar þjóðir eru fúsari til að lýsa áhuga sínum á góðum framfara- og menningarmálum en að leggja þeim fé. En peningarnir eru afl þeirra hluta sem gera skal í lífi einstaklinga og þjóða. Vonandi er að hin ýmsu ríki, sem gefið hafa ádrátt um fjárframlög til þessa máls, láti þau af hendi rakna hið fyrsta.

Fjölmörg fleiri áhugaverð mál eru nefnd í þessum kafla í ræðu hæstv. ráðh., þótt fárra einna sé hér getið. Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna er nú að ljúka í New York, þ.e.a.s. þeim áfanga hennar sem hófst 15. mars s.l. Síðustu fréttir, sem þaðan hafa borist, gefa góðar vonir um að vænlega horfi þar í málefnum okkar íslendinga. Heildarlausn þessara mála hlýtur þó að byggjast á margþættri málamiðlun og flókinni samningagerð. Eins og segir í skýrslu ráðh. hefur aðalverkefni íslensku sendinefndarinnar verið frá upphafi að vinna að heildarlausn er tryggi yfirráð strandríkis yfir auðlindum allt að 200 mílum frá ströndum, þannig að strandríki ákveði sjálft leyfilegan hámarksafla fiskstofna og möguleika sína til að hagnýta hann svo og að úrskurður þriðja aðila um ágreining í því efni komi ekki til greina.

Utanrrh. rakti sögu landhelgismálsins frá 25. nóv. á síðasta ári er bretar sendu herskip sín inn í íslenska fiskveiðilandhelgi til aðstoðar togurum sínum í þriðja skipti á 17 árum, Ég mun ekki rekja þá sögu að þessu sinni, enda er hún flestum í fersku minni. Þar hafa mál yfirleitt verið borin undir álit utanrmn. Alþ. og áfangar í þeim efnum kynntir svo sem skylt er að lögum.

Landhelgisdeilan við breta hefur oft verið hörð og alvarleg að undanförnu. Ásiglingar á íslensk varðskip hafa verið tíðar og lífshættulegar, veiðar breta á alfriðuðum svæðum fordæmanlegar, ríkisstj. og ráðamenn á hinn bóginn oft harðlega gagnrýndir fyrir linkind og léleg vinnubrögð. Þó er það svo að tvö þorskastrið nægðu ekki til stjórnmálaslita við breta. Af því varð fyrst 19. febr. 1976, að liðnum þrem mánuðum hins þriðja þorskastríðs.

Vissulega teljum við og vonum að lokasigur sé í nánd í þessu máli, þessum sjóhernaði og hættulegu átökum. Ber þar að sjálfsögðu að lofa og meta að verðleikum vasklega framgöngu varðskipsmanna okkar sem seint verður fullþökkuð, miðað við vinnuaðstöðu alla, áhættu og erfiði. En dag skal að kvöldi lofa. Heimsiglingu breta var fagnað hér í salnum síðdegis í dag. En kvöldfréttir herma að þeir haldi nú aftur og enn á Íslandsmið, hvað sem við tekur að þessu sinni.

Þá ræddi hæstv. utanrrh. um norræna samvinnu. Taldi hann að allir íslendingar væru sammála um gildi hennar, hún væri einn helsti hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu. Ætla má að hér sé rétt með farið. Þó hygg ég að hér ráði nokkru um mat manna í hverju norrænt samstarf felst á hverjum tíma. Margir kunna illa fálæti frænda okkar í sumum málum, hneykslast jafnvel á því að norðmenn skuli ekki vera boðnir og búnir að lána okkur vopnaða knerri og langskip til að berja á bretum fyrir Austurlandi samstundis og farið er fram á það. Ég þykist þó vita að flestir kunni vel að meta norræna samvinnu þegar hún lýsir sér í verki og virkum stuðningi við stærstu hagsmunamál okkar. Að mínu mati á norræn samvinna að skipa öndvegi í samskiptum okkar við aðrar þjóðir.

Ég ætla enn fremur að þátttaka Íslands í vestrænu samstarfi á vettvangi Evrópuráðsins sé gagnleg. Þar hafa íslensk málefni verið kynnt á undanförnum árum og ýmis mál verið rædd sem varða Ísland miklu.

Einn kafli í skýrslu þeirri, sem hér er til umr., fjallar um viðskiptamál á árinu 1975. Greindi ráðh. frá því að þrír nýir viðskiptasamningar hefðu verið gerðir á árinu: við Sovétríkin, Pólland og Kúbu. Vissulega er hér um afar mikilvægt svið íslenskra utanríkismála að ræða sem hér gefst þó ekki tími til að fjalla um nánar. Meginatriðið er að íslendingar vilja eiga góð samskipti við allar þjóðir heims, hvaða trúnað sem þeir hafa að leiðarstjörnu.

Loks ræddi hæstv. utanrrh. nokkuð um öryggismál, varnarmál, framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli og utanríkismál almennt og „lauk vel máli sínu“, eins og þar stendur.

Ég hygg að hæstv. utanrrh. verði, ef svo má segja, varla hankaður að neinu marki fyrir þessa ræðu. Hún er vel og skilmerkilega samin og segir mikið frá óvefengjanlegum atburðum, þótt nýliðnir séu, og staðreyndum. En það má auðvitað öllum ræðumönnum gera að sakfella þá fyrir það, sem ósagt er látið. Þannig þótti hv. 3. þm. Reykn. of lítið rætt um aðstoð við þróunarlöndin og minntist eitthvað á vanþróaðan hugsunarhátt í því sambandi. Ég ætla ekki að gera ræðu þessa hv. þm. að sérstöku umræðuefni á þessu kvöldi. Hún var skilmerkilega saman sett að formi til, hvað sem um boðskapinn má segja. Það var ekki erfitt að greina rauða þráðinn í þeim spuna: Alheimssigur heimskommúnismans í vændum. „Sovét-Ísland, óskalandið, hvenær kemur þú?“ var eitt sinn kveðið. En það er hverju orði sannara hjá hv. 3. þm. Reykn. og öðrum ræðumönnum, sem að því hafa vikið, að utanríkismálin eru hin allra mikilvægustu mál sem öllum alþm. ber að rækja og virða, því að fáir málaflokkar og meðferð þeirra varða svo mjög hamingju íslensku þjóðarinnar, öryggi og heill í nútíð og framtíð.