05.05.1976
Sameinað þing: 84. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3690 í B-deild Alþingistíðinda. (2993)

133. mál, Menningarsjóður Norðurlanda

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 293 er till. til þál. um heimild fyrir ríkisstj. til að fullgilda samning um Menningarsjóð Norðurlanda. Menntmrn. hefur staðið að þessari samningsgerð, en það kemur í minn hlut að leggja það fram og því fylgja svo hljóðandi aths.:

Hinn 1. júlí 1967 tók gildi samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um Menningarsjóð Norðurlanda. Samningur þessi hefur nú verið endurskoðaður og gerðar á honum nokkrar breytingar. Á 23. þingi Norðurlandaráðs, er haldið var í Reykjavík í febr. 1975, var lýst stuðningi við samninginn í hinni endurskoðuðu gerð og var hann síðan undirritaður af fulltrúum ríkisstjórnanna á fundi ráðherranefndar Norðurlanda, menntamálaráðherrunum, í Stokkhólmi 12. júní 1975. Með þáltill. þessari er leitað heimildar Alþ. til að fullgilda samninginn fyrir Íslands hönd.

Breytingar þær, sem samningurinn felur í sér frá hinni fyrri gerð, eru þessar helstar:

1. Gerðar hafa verið nokkrar breytingar formlegs eðlis sem eiga rætur að rekja til þeirrar skipunar sem komst á samkv. samningi milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar frá 15. mars 1971 um samstarf á sviði menningarmála. Meðal breytinga af þessu tagi má nefna að fulltrúar ríkisstj. í sjóðsstjórn verða að formi til skipaðir af ráðherranefnd Norðurlanda, en ekki hverri einstakri ríkisstj.

2. Í fyrri gerð samningsins var fjárhæð árlegra fjárveitinga til sjóðsins tilgreind svo og Í hvaða hlutföllum framlög til sjóðsins skyldu greidd af aðildarríkjunum. Var sú skipting miðuð við fólksfjölda. Í hinni endurskoðuðu gerð er mælt fyrir um að sjóðnum skuli árlega ákveðið ráðstöfunarfé í hinni norrænu fjárhagsáætlun um samstarf á sviði menningarmála. 4. gr. Greiðsluhlutfalla er hins vegar ekki getið sérstaklega, enda leiðir af sjálfu sér að skipting framlaga verður eftir hinni almennu reglu sem á hverjum tíma gildir um fjárveitingar samkv. hinni sameiginlegu fjárhagsáætlun. Miðað við núverandi skiptireglur veldur þetta ekki breytingu á greiðsluhlutfalli Íslands sem er 1%. Fjárveitingar til Menningarsjóðs Norðurlanda hafa farið hækkandi og undanfarin ár verið hærri en samningurinn mælti fyrir um. Upphaflega var heildarfjárveitingin 3 millj. danskra kr., en er í fjárhagsáætlun fyrir árið 1976 ráðgerð 6.5 millj. danskra kr.

3. Ákvæðum þeim, sem fjalla um starfslið sjóðsins, hefur verið breytt nokkuð. Í fyrri gerð voru nefnd dæmi um tiltekna þætti menningarstarfsemi sem styrkhæfir væru. Með almennara orðalagi greinarinnar hafa menn viljað reisa skorður við því að nokkurt svið menningarmála yrði af formlegum ástæðum talið falla utan við verksvið sjóðsins. Til aukins sveigjanleika horfa og breytingar á 3. gr. þar sem ræðir um almenn skilyrði til að verkefni sé styrkhæft.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að þáltill. þessari verði vísað til hv. utanrmn. þegar umr. um hana hefur nú verið frestað.