06.05.1976
Efri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3703 í B-deild Alþingistíðinda. (3006)

263. mál, biskupsembætti

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fyrir hv. Ed., er um það að biskupsdæmi hinnar íslensku þjóðkirkju skuli vera tvö: Skálholtsbiskupsdæmi og Hólabiskupsdæmi, en sú skipan, sem gert er ráð fyrir í frv., skal þó ekki komast á fyrr en fé hefur verið veitt til þess á fjárlögum.

Þetta frv. er samið af dr. Ármanni Snævarr hæstaréttardómara að tilhlutan dóms- og kirkjumrn. Með frv. fylgir mjög ítarleg grg. sem Ármann Snævarr hefur samið og get ég þess vegna látið nægja að mestu leyti að vísa til þeirrar grg.

Ákvæði er um það í þessu frv. að jafnframt því sem þessi nýja skipan taki gildi er gert ráð fyrir að þá mundu leggjast af embætti vígslubiskupa.

Sú skoðun, að það skuli sett hér upp tvö biskupsembætti, virðist njóta nokkurs fylgis um þessar mundir. Sú skoðun er að hluta til sjálfsagt reist á því að það sé ofviða einum biskupi að inna af hendi öll þau störf sem honum eru lögð á herðar, en að hluta til og e.t.v. fyrst og fremst er hún þó byggð á sögulegri hefð.

Það er að sjálfsögðu óþarfi hér að rekja alla þá sögu sem liggur að baki þessu frv. Eins og kunnugt er voru í öndverðu sett á fót þessi tvö biskupsdæmi hér í Skálholti og á Hólum, og í kjölfar þess að þessi biskupsdæmi voru þar sett á stofn, þá byggðust báðir þessir staðir upp, um aldaraðir helstu menningarsetur Íslands.

Á hinu myrkasta skeiði í Íslandssögunni, ofanverðri 18. öld, var biskupssetur fyrst flutt frá Skálholti til Reykjavíkur og biskupsstóll á Hólum síðan lagður niður. Má segja að það sé undarlegt með hve hljóðlátum hætti þetta gat í raun og veru gerst, að biskupsstóll og skóli væru þannig fluttir til og lagðir niður. Að vísu gerðust fleiri breytingar í íslenskri sögu, eins og kunnugt er. Þá var Alþ. líka lagt niður. En þá er þess að geta að Alþ. það, sem þá var starfandi, var ekki orðið annað en dómstóll og þess vegna var það eðlileg breyting þegar landsyfirrétturinn kom í stað þess og ekki nema tilflutningur á staðnum sem þar átti sér stað. Hitt er svo annað mál, að Alþ. var aftur endurreist, fyrst sem ráðgjafaþing og síðan í þeirri veru sem það upphaflega var.

En annað hlutskipti beið aftur á móti hinna fornu biskupsstóla. Hvorki Skálholt né Hólar urðu að nýju biskupssetur, og við svo búið situr enn í dag. Á síðari árum hefur vegur Skálholts þó farið vaxandi, fyrst og fremst með endurbyggingu hinnar fornu dómkirkju og síðan með stofnun lýðháskóla á staðnum. Því má með sanni segja að Skálholt sé nú í hópi þeirra menningarsetra hérlendis sem hæst ber. Um Hóla er það að segja, að þeirra niðurlæging varð aldrei alger eins og Skálholts að því leyti til að hin forna kirkja stóð þar þó og seinna var þar settur á fót bændaskóli, eins og kunnugt er, á síðari hluta síðustu aldar, sem hefur síðan starfað og þannig sett svip sinn á Hólastað, þannig að vegur Hóla hefur að vísu verið á sinn hátt alltaf mikill og haft sína þýðingu. En sá skóli, sem þar var fyrr, var þó ekki endurreistur þar, heldur endurreistur á Akureyri, ef svo má segja, og biskupsstóll hefur ekki verið endurreistur á Hólum.

Það, sem stefnt er að með þessu frv., er að endurreisa biskupsstól á Hólum. Ég dreg ekki í efa að sú ráðstöfun yrði til þess að efla Hólastað og gera hann á ný að þeirri kirkjulegu og menningarlegu miðstöð sem hann óneitanlega var í tæpar sjö aldir.

Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir því að biskupsdæmi þjóðkirkjunnar verði tvö, Skálholtsbiskupsdæmi og Hólabiskupsdæmi. Þessi skipan er mjög í ætt við frv. sem Magnús Jónsson prófessor flutti á Alþ. árið 1941 svo og frv. það sem samþ. var af Kirkjuþingi 1958. Af fjárhagsástæðum þykir aftur á móti ekki fært að leggja til að biskupsdæmin verði þrjú, eins og ráðgert er í frv. því sem samþ. var á Kirkjuþingi árið 1968.

Við afmörkun biskupsdæmanna tveggja hefur verið tekið mið af núverandi skiptingu landsins í prófastsdæmi í stað þess að fylgja hinni fornu skiptingu milli Skálholts- og Hólabiskupsdæma. Þannig er lagt til að Hólastifti nái til Strandasýslu, Norðurlands alls og Austurlands að undanskilinni Austur-Skaftafellssýslu. Tekur það þar með til sex prófastsdæma með um það bil 45 þús. íbúum. Undir Skálholtsbiskup heyra þá 9 prófastsdæmi með liðlega 170 þús. íbúum. Umdæmi hans yrði því miklu fjölmennara heldur en Hólabiskupsdæmi, en hins vegar landfræðilega litlu stærra en umdæmi Hólabiskups.

Í frv. er gert ráð fyrir að Skálholtsbiskup sitji í Reykjavík, en Hólabiskup á Hólum. Þó er heimilt að flytja biskupssetur frá þessum stöðum með forsetaúrskurði sé meiri hluti þjónandi presta og safnaðarfulltrúa í viðkomandi biskupsdæmi því meðmæltur.

Önnur efnisatriði þessa frv. lúta m.a. að verkefnum biskupa og verkaskiptingu milli þeirra, vörslu sjóða og annarra kirkjueigna, stöðu biskupa, þ. á m. á Kirkjuþingi og í kirkjuráði, lögkjörum og vígslum. Um þessi atriði er ekki ástæða til að fjölyrða, heldur vísast í því sambandi til grg. Þó er rétt að vekja athygli á því, að ætlunin er að endurskoða sérstaklega lög um biskupskosningu og önnur þau lög er biskupsembætti varða og því er ekki að finna nein ákvæði um kosningu biskupa Í þessu frv.

Drög að þessu frv. voru lögð fyrir kirkjuráð og biskup hefur sent svo hljóðandi svar, dags. 1. apríl 1976, sem ég vil leyfa mér að lesa hér upp, með leyfi forseta:

„Fyrir nýafstöðnum aðalfundi kirkjuráðs lágu m.a. til athugunar og umsagnar drög að frv. til laga um biskupsdæmi hinnar íslensku þjóðkirkju, sbr. bréf hins háa dóms- og kirkjumrn. frá 9. f.m. Nokkur dráttur varð á því fram yfir það sem áformað var að kirkjuráð gæti haldið aðalfund sinn. Að þessu sinni ollu því forföll sumra kirkjuráðsmanna sakir veikinda og annarra orsaka.

Um téð frv. gerði kirkjuráð eftirfarandi samþykkt samhljóða:

Kirkjuráð fagnar frv. kirkjumrh. um tvö biskupsdæmi hinnar íslensku þjóðkirkju og felur biskupi að kynna ráðh. þessa skoðun sína, jafnframt því að það telur eðlilegt að norðlendingar sjálfir ráði embættissetri Hólabiskupsdæmis.

Af þessu tilefni vill kirkjuráð einnig minna á frv. um biskupsdæmi þjóðkirkjunnar er samþ. var á Kirkjuþingi 1968.“

Þetta var samþykkt sem kirkjuráð gerði, en síðar segir svo í bréfi biskups:

„Mér er það ánægja að kynna hæstv. ráðh. þessa afstöðu kirkjuráðs til umrædds máls. Ég vil jafnframt leyfa mér að minna á að ég hef bæði á Prestastefnu og á Kirkjuþingi látið uppí ósk og flutt till. um að norðlendingar fengju hið fyrsta sinn eigin sjálfstæðan biskupsstól. Var sú till. mín samþ. á Kirkjuþingi 1972 að þjóðkirkjan fengi þessa umbót sem gjöf í tilefni þjóðhátíðarársins 1974. Það var vitaskuld ekki tilgangur minn né Kirkjuþings 1972 að brigða þeirri stefnu sem Kirkjuþing markaði 1968 með samþykkt frv. um þrjú biskupsdæmi í landinu, en þar eð frekari hreyfing hafði ekki komist á málið á þeim grundvelli þótti eðlilegt að benda á þann möguleika að sækja að fyrrgreindu marki í áföngum.

Öllum er ljóst að Hólabiskupsdæmi hinu forna hefur ekki verið bættur sá missir sem það varð fyrir er hinn norðlenski biskupsstóll var lagður niður. Má því þykja tímabært að bæta hér um.

Þar er um að ræða sanngirnisrök auk annarra röksemda sem styðja að breytingu á skipun mála að þessu leyti. Kunnugt er og augljóst að söguleg ræktarsemi við biskupssetrin að fornu, Skálholt og Hóla, ræður miklu um áhuga manna á nýskipan biskupsdæma. Verður ekki heldur hjá því komist að hvor staður um sig fylgi hinum í meginatriðum um aðhlynningu og uppbyggingu. Staðirnir skipa vegna sögu sinnar áþekkan sess í hugum þjóðarinnar. Á undanförnum árum hefur Skálholt risið úr rústum. Alþ. afhenti þjóðkirkjunni staðinn til eignar og umsjár með lögum 1963. Síðan hefur staðnum verið þokað áleiðis að því marki að verða kirkjulegt höfuðsetur.“

Ég hirði ekki um að lesa meira úr þessu bréfi biskups, en það mun að sjálfsögðu eða afrit þess verða lagt fyrir þá n., sem fær þetta frv. til meðferðar. Sömuleiðis vil ég geta þess að það hafa borist allmargar samþykktir til ráðuneytisins, einkanlega frá sóknarnefndum á þessu svæði og þó sérstaklega á Norðurl. v. og einnig frá Prestafélagi hins forna Hólastiftis. Þær áskoranir liggja í rn., en munu að sjálfsögðu verða sendar þeirri n. sem fær þetta frv. til meðferðar.

Eins og ég áðan sagði er grg. með frv. það ítarleg að ég sé ekki ástæðu til þess að vera að endurtaka það hér sem þar segir, en vænti þess að hv. þm. kynni sér hana.

Það er að sjálfsögðu ekki ætlast til þess eða gert ráð fyrir því að þetta frv. verði afgr. á þessu þingi þó að rétt þætti að leggja það fram til kynningar. Það er eðlilegt að það taki nokkurn tíma og menn vilji fá nokkurt svigrúm til þess að athuga það áður en afgr, verður.

Ég skal svo, herra forseti, ekki fara fleiri orðum um þetta, en leyfi mér að óska þess að frv. verði að umr. þessari lokinni vísað til 2. umr, og hv. menntmn.