06.05.1976
Efri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3708 í B-deild Alþingistíðinda. (3008)

263. mál, biskupsembætti

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að vera fjölorður. Það er auðvitað eðlilegt að hver og einn hafi sína skoðun á þessu og er ekkert við því að segja þó að hv. síðasti ræðumaður sé andstæður því að sett verði upp tvö biskupsdæmi.

Ég vil hins vegar segja það, að þó að hv. þm. ætti að vera sparnaður mjög ríkt í huga, þá verður að líta á það um hvað er að ræða hverju sinni. Ég hygg að kirkjan, hin íslenska þjóðkirkja, sé ekki sérstaklega þung á vogarskál fjárlaga. Ég held að það séu æðimargir liðir aðrir sem eru þar hlutfallslega þyngri. Og ég held að það sé ekki ástæða til þess út af fyrir síg að telja það eftir, borið saman við ýmsa aðra þætti málanna, þó að það væri varið eitthvað örlitlu meira til hennar, þá vitaskuld í þeirri trú að það starf, sem unnið er af kirkjunni, skili einhverjum árangri, og ég vil vona að svo sé, bæði að því er varðar hið trúarlega og eins að því er varðar hið siðferðilega uppeldi þjóðarinnar. Ef það er ekki svo að kirkjulegt starf skili einhverjum góðum árangri að því leyti, þá er það að einhverju leyti ekki eins og það ætti að vera. Ég efa það ekki að kirkjulegt starf presta og safnaða, sem auðvitað á að vera samtvinnað, getur haft heillavænleg uppeldisleg áhrif ekkert síður en skólastarf, og það er vissulega svo að á því þurfum við nú að halda Í okkar þjóðlífi að fá þannig heillavænleg uppeldisáhrif, heillavænlegri uppeldisáhrif en nú eru. Ég veit að kirkjan tekur ákaflega lítinn hlut á móti því t.d. sem jafnágæt menningarstofnun og Sjónvarp tekur. En ég held að það sé umhugsunarefni hvort uppeldisáhrif sjónvarpsins muni að öllu leyti vera jafnþroskavænleg og t.d. kirkjunnar ef rétt væri á haldið.

Þetta vildi ég aðeins segja, að kirkjan hefur ekki verið eyðslusöm og það hefur ekki verið ausið í hana fé, hvort sem það er af því að skipan Alþ. er talsvert á aðra lund en var áður fyrr. Þá sátu á Alþ. margir sæmdar- og höfuðklerkar um áratugabil, settu sinn svip á Alþ. og voru þar til sæmdar, en hafa vafalaust einnig borið hag kirkjunnar nokkuð fyrir brjósti. Nú hefur verið fátt um presta á Alþ. um hríð, og ég er raunar ekki að halda því fram að þeir geti ekki og eigi ekki fyrst og fremst að vinna sín störf utan Alþ. Auk þessa vildi ég bæta því við, að þó að menn hugsi um sparnað, þá hafa menn líka í huga viss byggðarsjónarmið. Þau byggðarsjónarmið komu fram hjá þeirri ágætu n. sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Helgi F. Seljan, sat í. Þau komu fram í því að lagt var til að ýmsar stofnanir þótti vel mega flytja út á land. En það er í flestum tilfellum gefið mál að flutningnum mundi fylgja nokkur kostnaður og að það mundi líka í sumum tilfellum vera dýrara að reka stofnanirnar utan Reykjavíkur heldur en í Reykjavík. Samt sem áður getur staðið svo á að þetta sé fyllilega betrumbætanlegt, að dreifa þannig ýmsum stjórnstöðvum um landið. Að þessu er þegar talsverður vísir kominn. Það er búið að dreifa út vegaskrifstofum, það eru komnar vegaskrifstofur í flestöll eða öll kjördæmi landsins. Það er núna að koma fræðslustjóri í hvert kjördæmi landsins. Það er ekki nokkur vafi á því að þessi dreifing valdsins hefur talsverðan kostnað í för með sér, það mætti spara með því að taka alls ekki upp þetta skipulag, ljá alls ekki máls á því, heldur hafa það allt hér í Reykjavík. En samt sem áður hafa menn ekki lagt í það.

Þegar allt kemur til alls, þá er það ekki víst, það á eftir að sýna sig hvort biskup á Hólum mundi kosta miklu meira en einn fræðslumálafulltrúi í einhverju kjördæmi, að ég nú ekki tali um vegamálastjóra í einhverju kjördæmi. Þetta bið ég menn að hafa í huga.