06.05.1976
Efri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3709 í B-deild Alþingistíðinda. (3009)

263. mál, biskupsembætti

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég ætla aðeins út af því, sem hæstv. dómsmrh. sagði hér áðan, að segja örfá orð. Undir eitt tek ég mjög ákveðið, og það er varðandi það uppeldisstarf sem kirkjan getur og á að vinna að. Ég er nú ekki endilega að segja að það uppeldisstarf hafi alltaf fallið í réttan farveg að mínu áliti. En ég er hins vegar jafnsannfærður um að það uppeldisstarf getur gert það og margir prestar hafa sinnt því starfi, æskulýðsstarfinn, með miklum ágætum og haft mjög heillavænleg áhrif á ungt fólk Í því efni. Það er raunar frumskylda þeirra, finnst mér, að komast í sem best samband við börn og unglinga og ná sem heilbrigðustum tengslum við það unga fólk. Þá á ég vitanlega við að þeir sinni því hlutverki sínu að efla almennt siðgæði í stað þess kannske, eins og stundum hefur viljað við brenna, að reyna að troða upp á þetta unga fólk ýmsum hreinum kreddukenningum sínum. Það er sem betur fer í miklum minni hluta.

Ég skal lýsa því hér yfir, að því að mér varð svo tíðrætt um sparnað og það orð varð einnig hæstv. dómsmrh. einnig mjög oft á munni hér áðan, að ekki sé ég eftir því fé sem fer í heilbrigt og eðlilegt æskulýðsstarf hjá íslensku kirkjunni. Ég vildi glaður horfa á eftir einhverjum krónum í það. Ég vildi þá jafnframt tryggja það og mega vona það að íslenska kirkjan haldi áfram á þeirri frjálslyndisbraut sem hún hefur verið allt fram undir þetta. En ég yrði heldur óhress hins vegar yfir því, og þá mundi afstaða mín e.t.v. verða önnur til framlaga í þessu skyni, ef hún færðist í þá þröngsýnisátt, sem vindar berast nú að austan úr Skálholti.