10.11.1975
Neðri deild: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

41. mál, söluskattur

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Það hefur komið fram máli hv. fyrra flm. þessa frv. sem skiptir í raun og veru meginmáll varðandi þetta frv. En það eru aðeins örfá atriði sem komu hér fram og þó sérstaklega eitt í máli hv. þm. Lárusar Jónssonar, hv. 4. þm. Norðurl. e.

Alltaf er það góðra gjalda vert þegar mikil ábyrgðartilfinning grípur menn og menn fara að verða landsföðurlegir og vilja taka allt landið í einni heild og deila þannig og drottna. En það var sérstaklega eitt sem ég tók eftir í hans orðum, sem mér kom nokkuð á óvart, og það var einmitt þriðja atriðið, sem hv. 3. landsk. þm., Ólafur Ragnar Grímsson, vék hér að áðan, sem sagt að það væri ekki hægt að draga línur sem þessar með þeim hætti að íbúar annars vegar við línuna borguðu minna heldur en hinir hins vegar við línuna. Mér kemur þetta nokkuð á óvart frá þessum hv. þm, vegna þess að ég man ekki betur en hann hafi í mþn. í byggðamálum verið einmitt á nákvæmlega sömu skoðun og hér kemur fram, að draga línur t. d. í sambandi við ákvörðun lánsupphæðar á íbúðarhúsnæði frá Byggingarsjóði ríkisins, að veita hærri lán til tiltekinna, afmarkaðra svæða úti á landi, sem eiga í vissum erfiðleikum, heldur en hinna. Ég sé ekki annað en hér sé um nákvæmlega sambærilegan hlut að ræða. (Gripið fram í: Ekki í framkvæmd.) Ekki í framkvæmd. Hverju breytir hún? Ég sé það ekki. Það er nákvæmlega það sama.

Mér kemur þess vegna mjög á óvart þessi rökstuðningur gegn þessu máli. Við búum við ótalmörg dæmi þess eins og kom fram áðan, að það er mismunað eftir landssvæðum, og það er mergurinn málsins. Það má vel vera og það er góðra gjalda vert kannske ef menn eru þeirrar skoðunar að það megi ekki mismuna á þann hátt sem þetta frv. gerir ráð fyrir að gert sé, þ. e. a. s. megi ekki breyta til hagsbóta fyrir þá sem hafa verið órétti beittir að einhverju leyti. En þetta er einmitt um það, mismunun, ef menn vilja ekki nota órétt.

Hitt er alveg rétt, sem hv. þm. Lárus Jónsson vék að, að hér er ekki gert ráð fyrir sérstakri tekjuöflun til handa ríkissjóði á móti hugsanlegu tekjutapi sem þetta hefði í för með sér. Hv. 3. landsk. þm. gerði hér grein fyrir því á hverju það byggist. Það er ótalmargt, sem kæmi til greina að vega upp á móti þeim tekjumissi sem ríkissjóður verður vissulega fyrir vegna þessa.

En ég verð að segja, það, að mér finnst það koma úr hörðustu átt þegar menn eins og hv. þm. Lárus Jónsson, 4. þm. Norðurl. e., koma hér upp nú á Alþ. og tala um að menn séu að gripa til ýmissa bragða til þess að koma sér í mjúkinn hjá fólki, þetta sé yfirborðstill., yfirborðsfrv. Ætli kjósendum þessa hv. þm. á Norðurl. e. þyki þetta mikill yfirborðsskapur, að gerð sé tilraun til þess í verki, — ekki bara í orði, eins og þessi hv. þm. hefur sannarlega gert í orði, — að reyna að leiðrétta þann mismun sem beitt hefur verið og beitt er enn gagnvart því fólki sem hér er fyrst og fremst um að ræða? En þessi hv. þm. og stjórnarliðar í heild hefðu átt að minnast þessa, þegar þeir léðu máls á því að setja hið svokallaða 12% vörugjald á á s. l. sumri, því að það er líklega einhver sú mesta mismunun eða það tæki til mestrar mismununar sem sett hefur verið á laggir í nokkuð mörg undanfarin ár. Þá hefðu menn eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. átt að hafa það ofarlega í huga hvort hér væri verið að mismuna eða ekki. Það er staðreynd, sem ekki verður í móti mælt, að í mörgum tilvikum þýðir þetta 12% vörugjald, sem þessi hv. þm. hefur að ég hygg örugglega staðið að að yrði sett á, það hefur í för með sér ekki 12% hækkun hjá hans kjósendum í Norðurl. e. velflestum, heldur allt upp í 21%. Það er sú mismunandi lína sem hann hefur dregið annars vegar milli Reykjavíkursvæðisins hér og hins vegar milli Norðurl. e., 12% hækkun hér, 21% þar. Ég held því að þessi hv. þm. hafi ekki efni á því að vera að tala um, eins og hann gerði hér áðan, ýmis brögð til að koma sér í mjúkinn hjá fólki eða yfirboðstill. eða málflutning. Ég held sem sagt að þessi mótbára sé ekki frambærileg, vegna þess að við búum við þetta á ótalmörgum sviðum, mismunun af þessu tagi. Menn verða þá að segja hreint út: Það má ekki mismuna á þennan veg, þannig að dreifbýlisfólk fái leiðréttingu sinna mála, þegar það hefur verið misrétti beitt um áraraðir.