06.05.1976
Neðri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3715 í B-deild Alþingistíðinda. (3030)

268. mál, hafnalög

(Halldór E. Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Frv. á þskj. 611 er um breyt. á hafnalögum og eru það tvær lítilfjörlegar breytingar um Hafnabótasjóð.

Fyrri breytingin lýtur að því að innheimt verði vörugjald af vöru, sem skipað er á land eða umskipað utan löggiltra hafnarsvæða, og renni þau gjöld beint í Hafnabótasjóð. Eðlilegt er að allir sitji við sama borð hvað snertir greiðslu vörugjalda, en nokkur dæmi eru um að hjá greiðslu þessara gjalda hafi verið komist þegar ferming eða afferming hefur farið fram utan hafnarsvæða. Jafnframt er eðlilegt að þessi vörugjöld renni í hinn sameiginlega fjárfestingar- og styrktarsjóð hafnanna.

Hin breytingin er fólgin í því að hækka lánsheimild Hafnabótasjóðs úr 350 í 750 millj. kr., en nú þegar hafa verið notaðar 335 millj. kr. af heimild Hafnabótasjóðs til lántöku. Ber brýna nauðsyn til að bæta úr þessu og rýmka þessa heimild, og enda þótt það hafi verið hugsunin að hafa fleiri atriði í þessu frv. var það ekki talið hyggilegt þar sem svo er á þingið liðið.

Ég vona, að þetta frv. geti gengið í gegn án mikillar fyrirhafnar því að það er svo augljóst að nauðsyn ber til þess og eðlilegt er að svo verði. Ég treysti því að hv. n. vinni fljótlega að málínu og leyfi mér að lokinni þessari umr. að leggja til að því verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.