06.05.1976
Neðri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3715 í B-deild Alþingistíðinda. (3032)

270. mál, ábúðarlög

(Halldór E. Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 632 er frv. til ábúðalaga. Frv. þetta er samið af n. og var lagt hér fram fyrir tveim árum eða svo, hefur svo verið endurskoðað, en á því hafa ekki verið gerðar miklar breytingar.

Nú eru í gildi lög um ábúð frá 1884, 1936, 1951 og 1961. Lögin eiga við eftir því hvenær ábúð hefst. Þannig fer eftir l. nr. 1 frá 1884 um ábúð þeirra sem hófu búskap fyrir 1. jan. 1934. Samkv. þeim lögum er réttarstaða leiguliða mun verri heldur en eftir yngri ábúðarlögum, þannig að landsdrottinn er t.d. ekki skyldur að kaupa hús sem leiguliði hefur látið gera þó að haganleg séu, og er leiguliða þá heimilt að rífa þau og hafa með sér efni og önnur verðmæti úr þeim. Ábúðarlögin frá 1933, 1951 og 1961 eru í höfuðatriðum efnislega lík. Þessi mörgu lög um nær sama efni hafa hins vegar oft orðið til þess að valda misskilningi. Í lögunum eru ákvæði sem eru óþörf vegna almennra reglna laga um breyttar búsháttar- og þjóðfélagsaðstæður.

Með þessu frv. hefur verið leitast við að haga efnisskiptingu þannig að saman færi það sem saman á að vera, stytta lögin eftir föngum án þess af þeim sökum að rýra þau að efni, og efni skyldi haldið svipuðu og í fyrri lögum. Var ákveðið að ráðgast við prófessor Gauk Jörundsson og gera till. um að fella úr gildi með þessum lögum eldri ábúðarlög, þó að samningar samkv. þeim lögum haldi gildi sínu að svo miklu leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum frv. þessa, ef að lögum yrði.

Rétt er talið að taka með í ábúðarlögum ákvæði um erfðaábúð sem hingað til hefur verið í sérstökum lögum, nr. 102 frá 21. des. 1962.

Frv. þetta er lagt fram til þess að fella nú saman í eina heild ákvæði, er varða ábúð á jörðum, og gera þau skýr og ákveðnari en verið hefur. Í þessu frv. eru líka ýmis ákvæði sem gera þessi atriði rýmri en verið hefur.

Aðalatriði málsins er þó það, að með þessu frv. eru gerð ein ábúðarlög er varða alla er við leiguábúð búa, og líka eru þau felld að þeirri reynslu, sem fengist hefur, og miðað við þær aðstæður, sem nú eru, bæði um erfðaábúð og fleira er skiptir máli í sambandi við ábúð á jörðum.

Ég ætla ekki við þetta tækifæri að hafa um þetta frv., þótt merkilegt og gott sé, fleiri orð, vil freista þess að það geti náð fram að ganga á þessu hv. þingi. Ég leyfi mér að fara þess á leit við hv. landbn. Nd., sem ég legg til að fái málið til meðferðar, að hún leiti eftir samstarfi við hv. landbn. Ed. um málið.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.