11.11.1975
Sameinað þing: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

Umræður utan dagskrár

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Tilefni þess að ég hef leyft mér að kveðja mér hljóðs utan dagskrár hér á hinu háa Alþ., er að ég vildi gjarnan koma fram leiðréttingu í sambandi við bók fjmrn., fjárlaga- og hagsýslustofnunar um stjórnir, nefndir og ráð ríkisins árið 1974, þar sem fjallað er um Kröflunefnd, á bls. 155, en þar stendur orðrétt, með leyfi forseta: „Þóknun. Engar upplýsingar fengist.“

Frá því að Kröfluvirkjun fékk fjármuni til umráða, til ráðstöfunar hefur sá háttur verið hafður á samkv. fyrirmælum fjmrn. að mánaðarlega er ríkisbókara sent yfirlit yfir greiðslur vegna n. ásamt fylgiskjölum. Hinn 27. des. s. l. var yfirlit sent ríkisbókara ásamt fylgiskjölum vegna greiðslu þóknunar til meðlima Kröflunefndar, en umræddar greiðslur voru eins og nú skal greina: Jón G. Sólnes, formaður n., fékk greiddar 182 160 kr. Páll Lúðvíksson verkfræðingur, sem hafði verið formaður n. að hluta, fékk greiddar 155 602 kr. Bragi Þorsteinsson verkfræðingur 136 632 kr. Ingvar Gíslason alþm. 136 632 kr. Ragnar Arnalds alþm., en nafn hans hefur fallið niður í upptalningu nm. í fyrrgreindri bók rn. fékk greiddar 136 632 kr. Samtals námu þessar greiðslur 747 658 kr.

Framangreindar greiðslur voru ákveðnar með hliðsjón af launum stjórnarmanna í Laxárvirkjunarstjórn.

Fyrir utan ofangreindar greiðslur fékk formaður n., Jón G. Sólnes, greitt upp í skrifstofukostnað 200 000 kr.

Engin fyrirspurn hefur borist Kröflunefnd eða skrifstofu hennar þar sem óskað hefur verið eftir upplýsingum um framangreindar greiðslur, sem að sjálfsögðu hefðu verið tafarlaust veittar.

Vegna fjarveru minnar á þingi hef ég því miður ekki getað verið fyrr á ferðinni með framaatgreindar upplýsingar. Við heimkomu mína hef ég orðið þess var að málefni Kröflunefndar og starfsemi mín sem formanns og framkvæmdastjóra hennar hafa verið allmikið í sviðsljósinu undanfarið og það á mjög ógeðfelldan hátt. Hafa í blöðum og jafnvel hér á hinu háa Alþ. verið viðhöfð svæsin og rætnisleg orð og bornar fram dylgjur og ásakanir sem ekki hafa átt við hin minnstu rök að styðjast. Þessa þróun mála harma ég mjög því að ég tel að ég og allir meðnm. mínir í Kröflunefnd höfum reynt að vinna að framgangi Kröfluvirkjunar af árvekni og ítrustu samviskusemi.

Ég mun ekki gera fyrrgreind skrif eða ummæli að frekara umtalsefni nú. Til þess kann kannske að gefast kostur síðar. Aðeins vil ég ljúka þessu máli mínu með því, að gefnu tilefni, að skýra hinu háa Alþ. frá því að heimsókn mín til Japans nú nýlega var Kröflunefnd algjörlega að kostnaðarlausu.