06.05.1976
Neðri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3740 í B-deild Alþingistíðinda. (3040)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég lít svo á að það beri að fagna þessu frv. og það sé Í mörgum greinum til bóta. Það þarf ekki að fjölyrða um nauðsyn fiskverndar fyrir okkur íslendinga, og það þarf ekki að endurtaka það hér einu sinni enn að á fiskvernd og skynsamlegri hagnýtingu fiskimiða hlýtur lífsafkoma þessarar þjóðar að byggjast. Ég sé þó ástæðu til þess að vekja athygli á auknum erfiðleikum skuttogara fyrir norðan. Það er lokað með ákvæðum þessa frv. fyrir þeim veiðisvæði sem þeir hafa haft og hafa verði opin. Útgerð togara fyrir norðan er ýmsum erfiðleikum háð. M.a. þurfa þeir um lengri veg að fara nú heldur en áður hefur verið.

Það mun orka nokkuð tvímælis hvort ákvæði í þessu frv. eru Í öllum greinum nákvæmlega nógu skýr og réttlát. Í 3. gr. segir: „Þar sem í lögum þessum er rætt um skip 39 metrar að lengd og minni, eru undanskildir skuttogarar með aflvél 1000 bremsuhestöfl eða stærri.“ Síðan hefur í brtt. verið sett ákvæði til bráðabirgða sem svo hljóðar: „Skip, sem áður höfðu notið veiðiheimilda samkv. stærðarmælingu 105 brúttórúmlestir og minni og 350 brúttórúmlestir og minni, skulu áfram njóta sömu veiðiheimilda samkv. lögum þessum og skip 26 m og minni og 39 m og minni.“

Það mun a.m.k. um eitt skip á landinu orka nokkuð tvímælis hvort það fellur undir þetta ákvæði, ákvæði til bráðabirgða mun ekki taka af lagabókstafinn, en þetta skip, sem ég á við, er 256 brúttólestir. Lengdin er 38.22 m., svo að hvort tveggja liggur innan leyfilegra marka og meira að segja ríflega það. En hins vegar eru hestöfl vélar 1060. Hins vegar falla undir ákvæðin skip sem eru allmiklu stærri og lengri, en með vél sem samkv. nýjum mælingum hefur mælst innan ákveðinna marka, þeirra marka sem leyfð eru samkv. frv. Ég treysti hv. sjútvn. til þess að samræma þetta og finna á þessu réttláta lausn. Það er mikið atriði í viðkvæmri og vandasamri löggjöf eins og þessari að mönnum finnist hún vera réttlát, svo að þeir hlýði henni. Það er engan veginn auðvelt og engan veginn vandalaust. En ég treysti sem sagt n. til þess að leggja sig fram um að finna þarna eitthvert orðalag sem ekki verði misskilið, sem ekki sé hægt að hártoga og taki af öll tvímæli um hvernig skilja beri þetta og réttlætis sé gætt, þannig að minni skip séu ekki útilokuð þó að þau hafi ekki látið mæla niður vél eins og önnur.

Það er annað atriði sem ég er óánægður með í þessu frv., en ég er kannske einn um þá skoðun hér, henni hefur a.m.k. ekki verið haldið mjög á lofti. Það er hvað ákvæðin um flotvörpuna eru rúm. Ég lít svo á, að það væri ástæða fyrir okkur að takmarka mjög, jafnvel banna alfarið veiðar í flotvörpu. Flotvarpa er veiðitæki sem engu hlífir. Hún fer vítt um sjó og ef hún er notuð af mikilli grimmd samfara botnvörpu, þá tekur hún mestallt kvikt. Ég held að það ætti að spara a.m.k. veiðar í flotvörpuna og nota hana ekki á aðrar tegundir en þær sem ekki er hægt að nýta með öðrum hætti. Það kann að vera að einhverjar fisktegundir séu á sundi í sjónum sem ekki sé hægt að ánetja með öðrum hætti. En að nota flotvörpu til þorskveiða, það held ég að sé framúrskarandi fyrirhyggjulaust. Og eigi flotvarpan að verða okkar framtíðarveiðarfæri, þá kostar mikið að búa flotann þessu tæki. Þess vegna held ég að heppilegast hefði verið að banna notkun hennar. Ég tel það megingalla á fiskveiðisamningnum við þjóðverja að þeim er leyft að veiða í flotvörpu. Og meðan svo er og sá samningur er í gildi, þá er náttúrlega tómt mál að tala um það að banna íslendingum það sem þjóðverjum er leyft.