06.05.1976
Neðri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3754 í B-deild Alþingistíðinda. (3048)

212. mál, upptaka ólöglegs sjávarafla

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég tók með mér stjórnarskrá lýðveldisins Íslands hingað í ræðupúltið til þess að lesa upp úr þeirri ágætu löggjöf hinu háa Alþ. til upprifjunar. En í 2. gr. stjórnarskrárinnar íslensku segir, með leyfi forseta:

„Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnvöld samkv. stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdavaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.“

Þessi þrískipting, sem fram kemur í 2. gr. stjórnarskrárinnar, er hinn rauði þráður í stjórnarskrá Íslands og rauði þráður í allri lagasetningu ; lýðræðisríki eins og okkar.

Það frv., sem hér er á dagskrá, brýtur því miður þvert gegn þessum grundvallarreglum. Í 3. gr. frv. segir t.d.: „Sjútvrn. úrskurðar hvort um ólöglegan sjávarafla er að ræða samkv. lögum þessum: Síðan segir í sömu gr.: „Leiki vafi á um magn ólöglegs sjávarafla er heimilt að áætla það magn eftir fram komnum gögnum.“ Og áfram segir í sömu gr.: „Rn. úrskurðar enn fremur hvert skuli vera andvirði hins ólöglega afla sem gera skal upptækan“ o.s.frv.

Öll þessi grein og reyndar frv. allt felur það í sér að rn., embættisvaldið fær heimild til þess að kveða upp úrskurði og dóma og fylgja þeim eftir. Þetta er kannske ekki fullkomin nýlunda í lagasetningu, en engu að siður þannig úr garði gert að það stangast algjörlega á við þær grundvallarreglur sem hér hafa verið, þ.e.a.s. að stjórnvöld, ríkisstj., forseti og stjórnarráðið, sjái um stjórnsýsluna og framkvæmd hennar, en að dómendur fari með dómsvaldið, enda segir í grg. með frv., með leyfi forseta: „Má vera að hér þyki nokkuð gengið inn á verksvið dómstóla, en því er til að svara að þetta fyrirkomulag mun væntanlega flýta mjög afgreiðslu þessara mála.“ Rn. viðurkennir að það orki mjög tvímælis hvort rétt sé að ganga inn á verksvið dómstóla, gerir sér grein fyrir því hvað er að ske með framlagningu þessa frv., en réttlætir það með því að það kunni að hraða afgreiðslu mála. Hvenær má finna takmarkanir fyrir slíkri ráðabreytni þegar það er nægileg ástæða að mati stjórnvalda að það geti flýtt fyrir afgreiðslu mála að embættisvaldið kveði upp dóma og framfylgi þeim og það sé best að sleppa alveg að fela dómstólum að skoða mál af hlutlægni og réttsýni? Að mínu mati er frv. algjörlega óaðgengilegt því að það virðir ekki þessa grundvallarreglu sem ég hef gert að umtalsefni. Það viðurkennir ekki þann sjálfsagða rétt að hver maður skuli saklaus vera þangað til sekt sannast.

Það hefur líka komið á daginn að hv. sjútvn. hefur talið frv. mjög hæpið og fengið prófessor í stjórnlagafræði til þess að segja álit sitt á frv. Það er ákaflega óvanalegt að slíks þurfi með og sýnir auðvitað hvers eðlis þetta frv. er. Prófessorinn kemst að vísu að þeirri niðurstöðu að frv. muni standast gagnvart stjórnarskrá Íslands. Sú niðurstaða er að sjálfsögðu mjög umdeilanleg og ekki mundi ég vilja skrifa undir hana. En það er athyglisvert að í umsögn hans segir m.a., með leyfi forseta: „Fyrirmælum frv. um upptöku afla án tillits til þess, hvort um refsiverðan verknað hefur verið að ræða eða ekki, er einkum ætlað að girða fyrir að ólöglegar veiðar verði stundaðar, í trausti þess að ekki verði komið fram sönnun um að um sök hafi verið að ræða, en sú sönnun getur oft verið erfið. Þessi regla getur að vísu leitt til þess að afli sé gerður upptækur enda þótt sök eða önnur refsiskilyrði séu ekki fyrir hendi.“ Prófessorinn segir þarna fullum fetum að reglan geti leitt til þess að menn séu dæmdir, að þeir þurfi að bera tjón af eða þurfi að láta nokkuð af hendi rakna vegna atferlis síns, enda þótt þeirra sök sé alls ekki sönnuð og hugsanlega muni hið þveröfuga koma Í ljós, þ.e. að þeir séu algjörlega saklausir.

Ég vonast til þess að hv. d. geri sér grein fyrir því hvað hér er á ferðinni. Það er beinlínis verið að setja reglu um það að stjórnvöldum sé heimilt að kveða upp dóma og láta menn gjalda fyrir einkaframferði enda þótt það atferli sé alls ekki saknæmt.

Prófessorinn kemst að þeirri niðurstöðu, eins og ég sagði áðan, að reglan réttlætist vegna hinnar ríku nauðsynjar á verndun fiskstofna, og þetta hefur, að mér skilst, verið forsendan fyrir því að hv. n. hefur fallist á eða samþ. að mæla með afgreiðslu og samþykkt þessa frv. Nú hef ég ekki á móti því að fiskstofnar séu verndaðir og tel að það sé fátt brýnna heldur en að sú verndun eigi sér stað og að komið sé í veg fyrir ólögmæta veiði. En er það samt réttlæting, sú nauðsyn sem á þessari verndun er, er það réttlæting fyrir því að gengið sé þvert á þær grundvallarreglur sem viðhafðar hafa verið um lagasetningu á Íslandi? Hvenær er sú réttlæting fyrir hendi? Er það ekki margvíslega og iðulega í hinu daglega lífi að það þarf að grípa fram fyrir hendur manna, stöðva eða hindra eitthvert ákveðið atferli. Til þess eru lög, til þess eru fógetar, lögregla og dómstólar að hindra að ólöglegt framferði eigi sér stað. Það má grípa til kyrrsetningar, löghalds og ýmissa annarra fógetaaðgerða til þess að koma Í veg fyrir hugsanlegt ólögmætt atferli. En það hefur aldrei eða a.m.k. í aðalatriðum ekki verið farið út á þá braut að veita stjórnsýslunni, embættismannavaldinn, þetta dómsvald og láta það ganga beinlínis fram hjá venjulegri málsmeðferð og dómstólaleið.

Ég óttast það, ef farið er út á þessa braut, að þá sé vegurinn vísaður fyrir stjórnvöld á hverjum tíma til þess að gefa sér einhverjar ástæður til þess að setja slík lög, segja: Það er rík nauðsyn, sem réttlætir svona lagasetningu. Og ég á eftir að sjá hvar takmörkin eru fyrir því. Það er einmitt forsendan fyrir þrískiptingunni í lýðræðisríkinu að áður fyrr voru einmitt stjórnvöld sem gerðu ekki greinarmun á þessum mikilvægu atriðum, misstu sjónar á því, hver væru takmörk valdsins, og settust í dómarasæti jafnframt því sem þeir settu lögin og framkvæmdu þau.

Ég hvet Alþ. til þess að halda þessa reglu í heiðri. Ég er ekki að gera sjútvrn. eða þeim, sem þar stjórna, upp annarlegar hvatir og ég skil að fyrir þeim vakir það eitt að taka föstum tökum gagnvart ólögmætum veiðum og að búa svo um hnútana að fiskstofnar verði verndaðir í reynd. En ég bendi á að það sé hægt að fara aðrar leiðir heldur en þetta frv. gerir ráð fyrir, og ég mælist eindregið til þess að þær séu athugaðar. Það má, eins og fyrr segir, gripa til alls kyns fógetaaðgerða. Það má heimila sjútvrn. og starfsmönnum þess að stöðva veiðar viðkomandi skips, gera ákveðnar kröfur um tryggingar eða setja lagaákvæði um sérstakan forgang og hraða mála sem upp kunna að koma og orka tvímælis. Þannig mundi sjútvrn. geta sinnt sínu hlutverki að annast stjórnsýsluna og sjá um að lög og reglur séu framkvæmd og stöðva hugsanlega ólögmætar aðgerðir, en láta síðan dómstólunum eftir að meta það og dæma hvort álit og skoðanir rn. ættu við rök að styðjast. Ég vil trúa því að með þeim aðferðum og ýmsum öðrum megi ná fram því meginmarkmiði sem þetta frv. stefnir að, þ.e.a.s. vernda fiskstofna og koma í veg fyrir ólögmæta veiði. Hvað sem líður nauðsyn þessa máls og hvað sem líður lögfræðilegu mati og jafnvel þótt hægt sé að færa rök fyrir því að frv. brjóti ekki í bága við stjórnarskrána, verðum við að hafa líka í huga annað mat og aðrar meginreglur: Það er hið siðferðilega mat. Það er réttlætiskennd okkar allra. Það er dómgreindin. Og það er skylda okkar alþm. að sjá um að stjórnvöld, hver sem þau eru og hverjir sem þar eru, gangi ekki inn á athafnafrelsi og skerði ekki þær leikreglur sem í heiðri hafa verið hafðar á Íslandi. Við hljótum af þeim ástæðum að mæla gegn þessu frv. og mælast til þess að það sé lagað svo við verði unað. Ég vil því, herra forseti, láta það í ljós hér að ég er algjörlega á móti svona lagasetningu, því ég er á móti því að embættisvaldið sé jafnframt dómsvald.