11.11.1975
Sameinað þing: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

13. mál, fasteignamatslög og lög um sambýli í fjölbýlishúsum

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fsp. eru svo hljóðandi:

„1) Hvað líður framkvæmd ályktunar Alþ. um athugun og breyt. á fasteignamatslögum og lögum um sambýli í fjölbýlishúsum?

2) Hvenær má búast við að lagafrv. til breyt. á umræddum lögum samkv. ályktun Alþ. verði lagt fram?“

Sú ályktun, sem þarna er vitnað til, var svo hljóðandi:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta athuga um breyt. á fasteignamatslögum og lögum um sambýli í fjölbýlishúsum er feli í sér eftirfarandi breyt. frá gildandi lögum,

1) Að unnt verði að meta hverja íbúð sem sérstaka einingu, en nafn hússins eða númer ásamt lóðareiningu ekki eitt látið ráða án tillits til þess hve margar íbúðir eru byggðar á sömu lóð.

2) Að tryggja að í sambýlishúsum verði ekki aðrar íbúðir auglýstar til uppboðs eða aðfarar vegna vangoldinna gjalda en þær sem í skuld eru hverju sinni.“

Ég vil taka undir þau ummæli hv. fyrirspyrjanda að hér er brýn nauðsyn og hún í vaxandi mæli að gera breyt. á núgildandi lagaákvæðum í þessu efni.

9. nóv. 1973 var skipuð n. til að endurskoða lögin um sameign fjölbýlishúsa. Í n. eiga sæti Jón S. Ólafsson skrifstofustjóri í félmrn., sem er formaður, Hrafn Bragason borgardómari, Páll S. Pálsson hrl. N., sem hefur unnið að samningu nýrra laga um fjölbýlishús, hefur fengið framangreinda þál. til athugunar og n. er nú að leggja síðustu hönd að uppkasti að frv. til l. um fjölbýlishús. Í frv. verður við það miðað að hver íbúð í fjölbýlishúsi verði metin sem sérstök fasteign.

Eftir að þetta frv. liggur fyrir í félmrn. er gert ráð fyrir því að það verði fljótlega flutt á Alþ.

Þetta var um lögin um fjölbýlishús, en lög um fasteignamat heyra undir fjmrn. og samkv. upplýsingum frá því rn. var lagt fram á Alþ. 1973 frv. til l. um skráningu og mat fasteigna. Það frv. náði ekki afgreiðslu. Í frv. voru ákvæði sem tryggja mundu það að hver íbúð í fjölbýlishúsi yrði metin og skráð sem sérstök fasteign svo að ekki gæti til þess komið að auglýstar væru til uppboðs eða aðfarar aðrar íbúðir en þær sem skuld hvíldi á hverju sinni. Nú mun fjmrn. hafa til athugunar að leggja þetta frv. fram á ný með einhverjum breytingum.