06.05.1976
Neðri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3775 í B-deild Alþingistíðinda. (3068)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Virðulegi forseti. Þetta frv. er einnig komið frá Ed. og var samþ. þar óbreytt. N. hefur rætt þetta frv. á fundum sínum og mælir með samþykkt þess, Tveir nm. skrifa undir nál. með fyrirvara, þeir hv. alþm. Eðvarð Sigurðsson og Benedikt Gröndal.

Þegar n. ræddi þetta mál í n. kom í ljós að hv. þm. Eðvarð Sigurðsson og Benedikt Gröndal höfðu það við frv. að athuga að þeir voru á móti því að fjölga bankastjórum, og enn fremur var fyrirvari hv. þm. Benedikts Gröndals um það að hann taldi að Búnaðarbankinn ætti að heyra undir bankamrh., en ekki landbrh. Það voru þessir fyrirvarar sem ég tel mér skylt að nefna í þessari framsögu.

Ég vil geta þess að þegar lögin um Seðlabanka Íslands voru sett 1961, þá voru endurskoðuð lögin um Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands og aðlöguð þeim breyttu aðstæðum sem urðu við tilkomu Seðlabankans og margs konar breytingum sem höfðu orðið í þjóðfélaginu frá þeim tíma sem löggjöf þessara banka var sett. Lögin um Búnaðarbanka Íslands eru frá 1941. Mörg ákvæði laganna, meira að segja heilir kaflar þeirra, eru orðin óraunhæf og úrelt og því komið mál til að löggjöfin um Búnaðarbanka Íslands sé samræmd lögum hinna ríkishankanna og sniðnir af þeim vankantar sem eru á lögunum, t.d. vegna þeirra breyt. sem hafa orðið á lögum um stofnlánadeild landbúnaðarins.

Þær höfuðbreytingar, sem eru í þessu frv., eru þær að nú er gert ráð fyrir að Búnaðarbankinn fái leyfi til þess að hafa þrjá bankastjóra í stað tveggja og enn fremur að ráða aðstoðarbankastjóra.

Hv. 3. þm. Reykn. sagðist ekki hafa heyrt nein rök fyrir því að það væri þörf á því að fjölga bankastjórum við Búnaðarbankann. Það kom fram hjá honum við 1. umr. þessa máls. Ég vil benda á að Búnaðarbankinn er næststærsti banki þjóðarinnar. Spariinnlán Í þessum banka eru að nálgast 10 milljarða. Samkv. orlofslögunum eiga bankastjórar að hafa mánaðarorlof. Það leiðir af sér að í hálfan þriðja mánuð er aðeins einn bankastjóri starfandi í þessum banka, jafnvel þó að engin forföll önnur séu hjá bankastjórunum. Ég tel það alveg óhugsandi að einn maður sé bankastjóri svona stórrar stofnunar og í raun og veru óverjandi að bjóða nokkrum manni að vera þarna einn í starfi, þannig að ég held að það séu alveg fullkomin rök fyrir því að þessu sé breytt, enda vil ég benda á það í þessu sambandi að í hinum bönkunum, Landsbankanum og Útvegsbankanum, sérstaklega Útvegsbankanum sem er miklu minni banki, eru 3 bankastjórar og 2 aðstoðarbankastjórar, En eftir núgildandi lögum um Búnaðarbanka Íslands er ekki leyfilegt að hafa aðstoðarbankastjóra. Þetta hefur verið mjög bagalegt á undanförnum árum. Það hefur meira að segja komið fyrir heilar vikur að hvorugur af þessum bankastjórum hefur verið við, annar hefur verið í sumarfríi og hinn veikur. Ég held því að það séu fjölmörg rök fyrir því að full þörf sé á að fjölga bankastjórum við Búnaðarbankann, og það er því undarlegra að það skuli ekki hafa verið búið fyrir löngu.