06.05.1976
Neðri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3776 í B-deild Alþingistíðinda. (3069)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Frsm. n. hefur raunar gert grein fyrir fyrirvara mínum, en ég verð því miður að bæta örlitlu við þó það taki 2 eða 3 mínútur.

Hann nefndi réttilega að ég lýsti andstöðu við það að fjölga nú upp í 3 bankastjóra í Búnaðarbankanum. Ég skal viðurkenna að miðað við það, sem tíðkast í hinum ríkisbönkunum, væri fyllilega eðlilegt að Búnaðarbankinn hefði 3 bankastjóra, og er hann raunar, eins og hér hefur komið fram, sá bankinn sem örast hefur vaxið. En ég tel mjög illa til fallið af ríkisstj. að gangast fyrir fjölgun hæst launuðu embættismanna í landinu eins og nú er komið efnahagsmálum.

Það hefur heyrst mikill barlómur um fjárhagsástand ríkisins og verið lagðar álögur á þjóðina út á það síðustu daga. En samt lifum við dag eftir dag að það eru lagðir fram bunkar af nýjum frv. frá ríkisstj., og hvað segja þessi frv. okkur um opinbera starfsmenn sem ríkisstj. telur sig vanhaga um? Það er, grá fyrir járnum, bremsunefnd í fjmrn. til að skera niður hvern einasta venjulegan mann í þeim launaflokkum sem alþýða manna hefur hjá ríkisbákninu. En svo koma þessi frv. á borð hjá okkur: Það er nýr bankastjóri, það er nýr biskup, og í dag kom enn ein bókin sem gerir ráð fyrir 15 nýjum dómurum. Annað frv., sem við fengum í dag, gerir ráð fyrir nýjum forstjóra og nýrri deild í stórri ríkisstofnun, það er að vísu Í staðinn fyrir tvo kommissara, en varla verður það ódýrara. Og svo er hér frv. sem gerir ráð fyrir því að á þessu ári verði bætt við 7 manns, aðallega sérfræðingum og verkfræðingum, hjá Vegagerðinni. Er tilkynnt að á næstu 4 árum eigi að bæta við 23.

Það ganga ein lög yfir miðlungsmennina í þessu þjóðfélagi, en önnur lög þegar hæstv. ríkisstj. þarf að fá meira af fínum silkihúfum. Þá vantar ekki í kassann.

Þetta er engin stefna. Það eru ístöðulausir menn með öllu sem tala þannig við almúga manna, en geta svo ekki sagt nei þegar þarf að búa til nýja bankastjórastöðu eða biskupsstöðu eða 15 dómaraembætti eða nýtt forstjóramætti eða nýja deild með framkvæmdastjóra eða 23 embætti sérfræðinga í Vegagerð landsins.

Ég held að við ættum að láta þetta allt saman bíða þangað til ríkisstj. getur sýnt okkur ríkiskassa með örlítið betri afkomu og ekki þarf að taka árlega 5 til 10 milljarða úr Seðlabankanum, nýprentaða seðla, sem engin verðmæti eru fyrir og ekkert annað eru heldur en loft til að blása út verðbólguna.

Hitt atriðið, sem ég geri athugasemd við, er að Búnaðarbankinn á að heyra undir landbrh. Það er alkunna að uppi eru mismunandi skoðanir um það hvort bankarnir, sem hér á landi eru oft kenndir við ákveðna atvinnuvegi, eigi að heyra undir fagráðh. viðkomandi atvinnuvegar eða hvort þeir eigi sem bankar að heyra undir bankamrh., sem er viðskrh. Ég tel að það sé miklu eðlilegra að bankarnir heyri allir undir bankamrh. og séu þar á einum stað, en sá ráðh. hafi yfirsýn yfir þá alla. Það er í raun og veru enginn greiði við fagráðh. eins og landbrh. að setja hann yfir Búnaðarbankann, vegna þess að honum er falið að gæta hagsmuna landbúnaðarins og ekki er alveg víst að það sé heppilegt að hann eigi að gæta beggja aðila, af því að fyrir kemur að það þurfi að segja annað en já í bönkum.

Ég get viðurkennt að það má færa fram rök með og á móti báðum þessum sjónarmiðum. En í þingflokki Alþfl. hölluðust menn frekar að því að skynsamlegra væri að Búnaðarbankinn og hinir bankarnir heyrðu undir bankamrh., en bankamálin heyra undir viðskrn. Ég ætla því að leyfa mér að flytja skriflega brtt., sem er breyting á tveim orðum, en felur þetta í sér, að í stað landbrh. heyri Búnaðarbankinn undir viðskrh. sem fer með bankamál.