07.05.1976
Neðri deild: 102. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3789 í B-deild Alþingistíðinda. (3106)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að rifja enn upp höfuðatriði þessa frv. og afstöðu mína til þess. Nú er enn komið fram yfir miðnætti. Það var einnig á síðkvöldi sem 2. umr. um þetta mál fór fram og maður fer að halda að svo nálgist að hér sé um einhvers konar myrkraverk að ræða.

Ég hygg að það hafi verið Í huga flestra hv. þm. að með þessum breyt. á framleiðsluráðslögunum væri höfuðtilgangurinn að koma í höfn hinu svokallaða mjólkurmáli, þ.e.a.s. að afnema einkarétt Mjólkursamsölu og mjólkurbúa til þess að hafa mjólk í smásölu. En aftan við frv., aftan við mjólkurmálið eða þann hluta frv., er svo hnýtt algjörlega óskyldum málum og af þeim sökum gat ekki orðið samkomulag um afgreiðslu þessa máls. Ég hygg þó að allir hv. dm. séu sammála um að mjólkurmálinu hefði þurft að koma í höfn með samkomulagi allra þm. Þau nýmæli, sem hnýtt er aftan í þann hluta frv. sem lýtur að lausn mjólkurmálsins, eru þau að verðjöfnunargjald og fjármagnskostnaður skuli skilyrðislaust tekin inn Í dreifingarkostnaðinn. Þetta er gert núna, um leið og endurskoðun verðlagsmála landbúnaðarvara er að hefjast með störfum sérstakrar n. sem m.a. verkalýðshreyfingin á aðild að. Ég hef talið þessa málsmeðferð hreina móðgun við neytendur og verkalýðshreyfinguna alveg sérstaklega, og ég færi enn fram hin sterkustu mótmæli gegn þessari málsmeðferð. Vegna þess að við lausn mjólkurmálsins hafa verið tengd algjörlega óskyld mál, mál sem geta reynst neytendum mjög afdrifarík, er ekki annar kostur fyrir hendi en að fella þetta frv. eins og það nú er.