07.05.1976
Sameinað þing: 85. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3790 í B-deild Alþingistíðinda. (3110)

313. mál, leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 397 leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. félmrh., svo hljóðandi:

„1. Hverjar eru horfur varðandi framkvæmdir við leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga á yfirstandandi ári?

2. Hvað er líklegt að mikill fjöldi nýrra leiguíbúða verði leyfður á þessu ári og hver er skipting þeirra eftir kjördæmum?

3. Hvað mun miklu fjármagni verða varið til þessara framkvæmda í ár?“

Það er langt um liðið síðan þessi fsp. var borin fram. Ýmislegt hefur gerst síðan í þessu máli, m.a. hefur Húsnæðismálastofnun ríkisins gefið út fréttabréf og í tilefni af því hafa komið fréttir í blöðum sem hafa orðið þess valdandi að um misskilning ýmissa hefur orðið að ræða, og menn hafa jafnvel haldið að heildartalan 281 íbúð væri tala þessa árs og væri þá aldeilis um framför að ræða frá því sem verið hefur, en það sést auðvitað við nánari yfirlestur að er ekki. Fyrir þingi liggur svo frv. sem í Ed. tók þýðingarmiklum breytingum, þar sem í staðinn fyrir heimild til byggingar leiguíbúða og aðstoð Húsnæðismálastofnunarinnar þær varðandi, þeirri heimild var breytt í skyldu, fært yfir í 150 íbúðir að lágmarki á ári, sem var auðvitað geysileg breyting, þannig að nú má telja að þessar leiguíbúðir hafi í húsnæðismálakerfinu sama forgang og verkamannabústaðirnir hafa.

En fsp. er vitanlega jafntímabær um horfur á þessu ári varðandi nýframkvæmdir. Fjölmörg sveitarfélög bíða þess nú með óþreyju hvernig málum reiðir af varðandi þær leiguíbúðir sem sveitarfélögin setja nú Í æ ríkari mæli traust sitt á til að leysa þann mikla húsnæðisvanda sem þar er viða og knýr æ fastar á. Það þarf vitanlega að gera stórátak á þessu ári ef á að komast nálægt því marki sem upphaflega var sett, þó aðeins sem heimildarákvæði, þ.e.a.s. 200 íbúðir árlega í 5 ár, miðað við það að nú sé um þriðja framkvæmdaárið að ræða, og samkvæmt fréttabréfinu er ekki fullákveðið enn þá nema um þessa 281 íbúð. Það er að vísu ljóst að erfiðleikar lánakerfisins eru miklir og enn á t.d. hópur manna eftir að fá fyrirgreiðslu, fær hana að vísu Í þessum mánuði, sem gerði fokhelt á s.l. ári, og sem annað dæmi tek ég það að 15. apríl s.l. voru afgreidd lán til þeirra sem keyptu eldri hús, t.d. í júlí, ágúst og september í fyrra, og svo mætti áfram telja.

Í fréttabréfinu segir frá því að 19 sveitarfélög hafi hafið byggingu 61 íbúðar fyrir eigið fé á árinu 1975 og 4 sveitarfélög muni hefja framkvæmdir við samtals 20 íbúðir á árinu sem þær höfðu fengið lánsloforð fyrir í fyrra og máttu byrja þá fyrir eigið fé. Síðan segir — með leyfi forseta — orðrétt Í þessu fréttabréfi:

„Enn hafa ekki verið teknar endanlegar ákvarðanir um nýjar framkvæmdir á árinu 1976 umfram þær sem nefndar eru í svari b og c við fyrstu spurningunni, þ.e.a.s. um þessa 61+20 eða 81 íbúð. Að óbreyttu ástandi má búast við að nýjar framkvæmdir á árinu 1976 verði þær sem getið hefur verið í þessum liðum.“

Ég geri algeran greinarmun hér á, fjármögnun þessara íbúða og hins vegar þeirra sem í ár kynni að vera veitt leyfi til og þá ekki á sama hátt og s.l. ár, fyrir eigið fé sveitarfélaganna, heldur nýjar íbúðir með eðlilegri fyrirgreiðslu Byggingarsjóðs ríkisins. Og það er því fremur ástæða til að reikna með því að við þetta verði ekki látið sitja þegar þetta skylduákvæði er nú komið svo gott sem inn í lögin. En um viðbótina við þessa 81 íbúð, sem þarna er um að ræða, er ég fyrst og fremst að spyrjast fyrir, ef hæstv. ráðh. gæti hér og nú gefið skýrari og eindregnari og umfram allt auðvitað jákvæðari svör til sveitarfélaganna en þau hafa fengið hjá Húsnæðismálastofnuninni og á fréttabréfinu er að sjá. Mér þykir nokkur nauðsyn á því að fá fram hugsanlega skiptingu eftir kjördæmum, þó auðvitað hefði verið æskilegast að nöfn einstakra sveitarfélaga, sem leyfi hlytu, lægju fyrir sem allra fyrst. Hér er um að ræða þær framkvæmdir á félagslegum grundvelli sem einkenna nú allar fyrirætlanir sveitarfélaganna úti um land. Því er von að þrýst sé á um það að fá við því sem skýrust svör á hverju megi eiga von á þessu ári, og því er þessi fsp. borin fram, m.a. eftir eindregnum óskum sveitarstjórnarmanna.