07.05.1976
Sameinað þing: 85. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3791 í B-deild Alþingistíðinda. (3111)

313. mál, leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fyrsta spurning hv. þm. er á þessa lund:

„Hverjar eru horfur varðandi framkvæmdir við leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga á yfirstandandi ári?“

Samkvæmt upplýsingum húsnæðismálastjórnar eru þær horfur þessar:

Samkvæmt þegar gerðum samningum er gert ráð fyrir að á árinu 1976 komi til greiðslu samtals 439 millj. kr. til íbúða sem bygging hófst við 1974–1975. Þá stendur yfir gerð lánssamninga við 23 sveitarfélög, sem ýmist hafa þegar hafið framkvæmdir eða munu hefja framkvæmdi á næstu vikum, um byggingu 82 íbúða að fjárhæð samtals 518 millj. kr. Gert er ráð fyrir að þessi fjárhæð skiptist jafnt á árin 1976 og 1977, þ.e. 259 millj. kr. hvort ár. Auk þess er gert ráð fyrir greiðslu verðbóta vegna hækkunar byggingarkostnaðar á árinu 1976 að fjárhæð 229 millj. kr. Samtals er þannig gert ráð fyrir 927 millj. kr. til byggingar leiguíbúða sveitarfélaga.

Önnur spurning er þessi:

„Hvað er líklegt að mikill fjöldi nýrra leiguíbúða verði leyfður á þessu ári og hver er skipting þeirra efir kjördæmum?“

Enn hafa ekki verið teknar endanlegar ákvarðanir um nýjar framkvæmdir á árinu 1976 umfram þær sem nefndar voru hér áður, þ.e.a.s. 82 íbúðir, og skipting þeirra eftir kjördæmum er þessi: Vestfirðir 31, Norðurland vestra 12, Norðurland eystra 9, Austurland 11, Suðurland 19.

Þriðja spurningin:

„Hvað mun miklu fjármagni verða varið til þessara framkvæmda í ár?“

Eins og kom fram í svari við fyrstu spurningu mun væntanlega um 927 millj. kr. verða varið til byggingar leiguíbúða á vegum sveitarfélaga árið 1976.

Þessi svör eru byggð á upplýsingum frá húsnæðismálastjórn varðandi það sem þegar hefur verið ákveðið. Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, þá var gerð breyting í Ed. á frv. sem fyrir liggur um breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, þar sem gert er ráð fyrir að 150 leiguíbúðir séu reistar á ári hverju. Ef það frv. verður að lögum með þessari breytingu mun þetta mál að sjálfsögðu tekið til nýrrar skoðunar.