07.05.1976
Sameinað þing: 85. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3794 í B-deild Alþingistíðinda. (3114)

196. mál, leir í Dalasýslu til iðnaðarframleiðslu

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fsp. þeirra alþm. Ingibergs Hannessonar og Friðjóns Þórðarsonar er á þessa lund:

„1. Leiðir könnun sú, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum á notagildi leirs í Dalasýslu, til þess að fyrirhuguð sé vinnsla leirsins með stofnun tilraunaverksmiðju í sýslunni?

2. Ef um jákvæðar niðurstöður er að ræða í þessu sambandi, hvenær má þá vænta þess að hafist verði handa um stofnun og starfrækslu slíkrar verksmiðju?“

Eins og hv. 4. þm. Vesturl., Friðjón Þórðarson, rakti í ræðu sinni, var samþ. á Alþ. 13. febr. 1957 þál, samkv. till. sem hann flutti á því þingi, en hún var á þessa leið:

Alþ. skorar á ríkisstj, að láta nú þegar fullrannsaka hvort hagkvæmt muni vera að reka leirverksmiðju í Dalasýslu og jafnframt að gera athugun á því hvar leirlög séu í landinu sem best henta til leiriðnaðar í stórum stíl.“

Af opinberri hálfu mun lítið hafa verið aðhafst í málinu á næstu árum, enda skorti þá auk frekari rannsókna ýmis almenn skilyrði til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd, svo sem nægilega raforku.

Á Alþ. 1970 bar Ásgeir Bjarnason fram fsp. um hvað liði undirbúningi að rannsóknum í þessu máli. Iðnrh. fól Rannsóknastofnun iðnaðarins og jarðkönnunardeild Orkustofnunar árið 1970 að framkvæma rannsóknir á leirlögum í nágrenni Búðardals og raunar annars staðar á landinu. Þessar stofnanir skiluðu álitsgerðum í okt. 1971, jan. 1973 og okt. 1973. Árið 1972 var aftur gerð fsp. sem þeir stóðu að, Ásgeir Bjarnason og Friðjón Þórðarson, um það hver væri niðurstaða rannsókna þeirra sem fram hefðu farið á íslenskum leirtegundum og hvort grundvöllur væri fyrir leirverksmiðju í Dalasýslu. Ráðh. gerði grein fyrir rannsóknum þeim, sem fram höfðu farið. Það kom fram að nægur leir væri í Dalasýslu, leirinn væri viðkvæmur, en bæta mætti það með íblöndun annarra efna. Kanna þyrfti frekar markaðsmöguleika og hvaða vörur hægt væri að framleiða úr leirnum. Síðar fór fram á vegum Rannsóknaráðs ríkisins könnun á leirnum við Búðardal og Rannsóknaráðið sendi frá sér skýrslu um málið í okt. 1974.

Nú skulu raktar í höfuðdráttum niðurstöður af þessum athugunum og rannsóknum.

Besta leirsvæðið er mynni Lagárdals, það er um 5 km2 að flatarmáli og eru efstu 3–5 metrar af leirmynduninni þar líklega nýtilegir. Sé svo má vinna a.m.k. 40 millj. tonna af leir í Hvammsfirði. Efnasamsetning Búðardalsleirsins er yfirleitt eins hvar sem hann er tekinn á svæðinu. Vegna efnasamsetningar leirsins, en hann inniheldur mikið af járni og alkalísamböndum, er hann viðkvæmur í brennslu. Hann er grófkornóttur og veldur það því að erfitt er að þurrka hann án þess að hann springi. Styrkleiki leirsins er ekki mikill og er hann vandmeðfarinn í vinnslu. Þessi atriði, sem hér voru rakin, mætti þó lagfæra með íblöndun annarra leirtegunda og steinefna. Þessar niðurstöður benda til þess að með hreinsun og íblöndun annarra leir- og steinefna sé mögulegt að bæta svo vankanta Búðardalsleirsins að hægt verði að framleiða úr honum iðnvarning með sjálfvirkum vélum. Til þess að sannreyna þetta eru prófanir og frekari rannsóknir nauðsynlegar.

Með tilliti til þess, sem hér hefur verið greint, virðist koma til greina að stofna undirbúningsfélag í þeim tilgangi að rannsaka nánar möguleika þá sem eru til að bæta þá vankanta sem Búðardalsleirinn hefur, að rannsaka nánar hvaða iðnaðarvörur er hægt að framleiða úr þeim leir blönduðum eða óblönduðum, að kanna markað fyrir hinar ýmsu tegundir hugsanlegs iðnvarnings og loks að beita sér fyrir stofnun framleiðslufélags ef hagkvæmt þætti.