07.05.1976
Sameinað þing: 85. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3799 í B-deild Alþingistíðinda. (3119)

195. mál, skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. mjög skýr og mjög jákvæð svör. Ég skal játa að ég orðaði fsp. mína þannig að ég átti í rauninni von á neitandi svari, því mér er alveg fullkunnugt um og skil mætavel að ríkisstj. getur ekki farið af stað með undirbúning og áform í svo viðamiklu máli fyrr en gerð hefur verið margfalt meiri athugun og farið hefur fram — og það vil ég leggja áherslu á með hæstv. ráðh. — að farið hefur fram margfalt meiri almenn umr. um málið frá öllum hliðum. Eins og ég gat um er þetta vafalaust mjög vandasamt verk og má með engu móti rasa um ráð fram í þessum efnum, og mjög mikið ber að sjálfsögðu að leggja upp úr að haft sé samráð við marga aðila, ekki síst hin ýmsu sveitarfélög úti um landið, hver væru viðhorf og óskir manna almennt úti um landsbyggðina á þessu máli.

Hæstv. ráðh. vitnaði til Noregs og Svíþjóðar, og ég sé það í nál. hinu mikla, sem ég gat um áðan, að þar eru þessum málum Í nágrannalöndum einmitt gerð nokkur skil. Svíar stofnuðu sérstaka n. í þessu skyni árið 1957 og hafa þegar hafið framkvæmdir í þessa átt. 10 ríkisstofnanir hafa verið fluttar frá Stokkhólmi og aðrar 20 telur n., að ætti að koma til greina einnig um flutning út á landið. Í Noregi var þessi n. stofnuð árið 1961, en málið enn á undirbúningsstigi.

Ég vil minna á að þetta er ekki í fyrsta skipti sem slík n. tekur til starfa hér á landi. 6 manna n. vann að sama verkefni á árunum 1958–1962, og till. þeirrar n. vora m. a. þær að Alþ. skyldi flutt til Þingvalla og biskupsstóll úr Reykjavík til Skálholts. Hvorug þessara till. hefur enn komist í framkvæmd, og ég held að það sé margt sem við þurfum að huga að áður sem gerlegra er og skynsamlegra, alla vega hvað Alþ. viðvíkur, heldur en þessar eldri till. tvær. En ég endurtek, að tilgangur þessarar fsp. er fyrst og fremst að koma hreyfingu á þetta mál, skapa um það umr. og kanna viðhorf allra landsmanna til málsins.