07.05.1976
Sameinað þing: 85. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3801 í B-deild Alþingistíðinda. (3123)

320. mál, rafdreifikerfi í sveitum

Fyrirspyrjandi (Ólafur B. Óskarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. iðnrh. á þskj. 519 um rafdreifikerfi í sveitum, svo hljóðandi:

„1. Hefur ríkisstj. áform um endurbyggingu rafdreifikerfis í sveitum landsins til að gera mögulega rafhitun húsa?

2. Ef svo er: a) hefur áætlun verið gerð um þessa framkvæmd, b) hver er áætlaður kostnaður, e) hvenær er áætlað að framkvæmdum ljúki?“

Þessi fsp. skýrir síg nú held ég sjálf að mestu leyti, en um ástæður til hennar er það að segja að nú að undanförnu hefur verið mikið talað um að nýta innlenda orkugjafa til húshitunar, og þá kemur tvennt til greina: hitaveitur eða rafhitun. Það er svo með sveitirnar að þær eru að langmestu leyti á þeim svæðum sem heyra undir rafhitun, og þá vaknar sú spurning, hvort rafdreifikerfin þoll þá auknu raforkunotkun sem því er samfara. Skv. upplýsingum frá starfsmönnum Rafmagnveitna ríkisins mundi þurfa u.þ.b. 1 mw. á hver 100 hús í rafhitun, og þá sést að þarna er um verulega orkunotkun að ræða. Auk þess má búast við aukinni orkunotkun að öðru leyti. T.d. er af leiðbeinendum í landbúnaði lögð aukin áhersla á súgþurrkun sem knúin er þá að sjálfsögðu af raforku, auk ýmissar iðnaðaruppbyggingar.

Þó að ég takmarki þessa fsp. víð sveitirnar er þetta að sjálfsögðu mál sem snertir þéttbýlisstaðina ekki síður því dreifikerfi þessara aðila eru að miklu leyti samtengd. Til þess að taka dæmi af handahófi fór ég að spyrjast fyrir um þetta hvað snertir mitt byggðarlag, Húnavatnssýslu. Þá kom í ljós að flutningslínan frá Laxárvatnsvirkjun við Blönduós og vestur um Húnavatnssýslur til Hvammstanga væri fullnýtt eins og er, og sama var að segja um flutningslínu til Skagastrandar, hún væri fullnýtt líka, og væri hægt að bjarga því máli við með spennustillingu í 4–5 ár, en þá sé fyrirsjáanleg endurbygging sem væri mjög mikið fyrirtæki. Nú hygg ég að t.d. Skagaströnd sé á því svæði sem sennilegt væri að þyrfti að nota rafhitun. Mér er ekki kunnugt um að áætlanir séu þar fyrir hendi um hitaveitu. Þó get ég að sjálfsögðu ekki um það sagt.

Þetta eru í stuttu máli þær ástæður sem lágu til þessarar fsp., að spyrjast fyrir um hvort áætlanir hefðu verið gerðar um þessa hluti.