07.05.1976
Sameinað þing: 85. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3802 í B-deild Alþingistíðinda. (3124)

320. mál, rafdreifikerfi í sveitum

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Húshitunarmálin hafa verið mjög til athugunar að undanförnu og munu allir sammála um að að því skuli stefnt að allir landsmenn geti hitað hús sín með innlendum orkugjöfum. Þar kemur tvennt til greina: Annars vegar hitaveitur, hins vegar rafhitun. Raunar kemur blönduð leið einnig til greina og skal ég ekki fara frekar út Í það hér, en þar sem nokkurt heitt vatn kann að finnast, en ekki nægilegt, getur komið til greina að hafa blönduð kerfi.

Varðandi hitun húsa með jarðhita hefur orðið mikil breyting nú á skömmum tíma. Fyrir réttum tveim árum var lögð fram á Alþ. álitsgerð um nýtingu innlendra orkugjafa og var talið í þeirri grg. að um það bil 65% landsmanna mundu geta á næstu árum fengið upphitun með jarðvarma. Síðan hefur það gerst að með auknum rannsóknum, jarðhitaleit og könnun, auknum borkosti og borunum hafa þessar horfur vænkast svo mjög að nú má telja víst að a.m.k. 80% landsmanna, e.t.v. meira, muni á næstu árum geta notið hitaveitna í stað 65% sem áætlað var fyrir tveim árum. Ég nefni þetta atriði hér fyrst af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að jarðvarminn er ódýrasta aðferðin til húshitunar, ódýrast fyrir notendur, sparar gjaldeyri í stórum stíl og hefur margvíslega kosti.

En því víðar sem hægt yrði að nýta jarðhitann til húshitunar, að sama skapi dregur úr þörfinni fyrir rafhitun og það dreifikerfi sem nauðsynlegt er hennar vegna. Hins vegar er ljóst að allvíða í landinu hagar svo til að ekki er hægt að vænta upphitunar með jarðvarma, og eins og hv. fyrirspyrjandi gat um á þetta auðvitað sérstaklega víð um sveitir og strjálbýli, þannig að í sveitum verður að mjög verulegu leyti að gera ráð fyrir rafhitun húsa.

Nú hefur um mörg undanfarin ár verið unnið að því að tengja sveitabýli landsins við samveitur. Í því skyni hafa verið veittar verulegar fjárhæðir árlega, og nú er svo komið að flest býli, sem eru ekki mjög afskekkt, hafa verið tengd samveitu. Hér er um kostnaðarsamt og oft erfitt verkefni að ræða. Þessi tenging hefur víða verið af vanefnum gerð vegna þess að kostað hefur verið kapps um að tengja sem flest býli. Auk þess er svo komið að þær tengingar, sem fyrst voru gerðar í sambandi við rafveitur sveitanna, eru nú orðnar of veikar vegna þess að þá var ekki gert ráð fyrir jafnmikilli aukningu raforkunotkunar og raun hefur á orðið. Framhald rafvæðingar strjálbýlisins er tvíþætt: annars vegar rafvæðing þeirra býla sem ekki hafa enn verið tengd samveitum, hins vegar er styrking núverandi dreifikerfis sem víða er of veikt til að taka við vaxandi orkuflutningi.

Iðnrn. og orkuráð hafa haft þessi mál til athugunar og verið rækilega um þau rætt. Fyrir rösku ári, eða í aprílmánuði 1975, var ákveðið eftir ítarlegar umr. í orkuráði og rn. að fela Rafmagnsveitum ríkisins að gera heildaráætlun fyrir allt landið um þær framkvæmdir sem gera þyrfti og nauðsynlegar teljast til styrkingar sveitakerfinu vegna fyrirhugaðrar hitunar húsa með rafmagni. Rafmagnsveitur ríkisins hafa unnið að þessari áætlunargerð. Henni er ekki lokið, en samkv. lauslegri frumáætlun frá Rafmagnsveitunum um umfang þessa verkefnis er talið að þurfi að verja um 1000 millj. kr. til þess að dreifikerfið geti annast flutning orku til húsahitunar. Ég vil taka fram að þetta eru bráðabirgðatölur og þessari rannsókn er engan vegna veginn lokið. Úr Orkusjóði hefur verið veitt nokkurt fé bæði til þessara rannsókna og byrjunarframkvæmda.

Þannig standa þessi mál, og það er ekki unnt að segja fyrir um tímamörk fyrr en heildaráætlun hefur verið gerð. Er ljóst að þar er annars vegar um mjög viðamikið og veigamikið verkefni að ræða, en um leið mjög aðkallandi. Strax þegar þessi áætlun, sem Rafmagnsveitum ríkisins var falið að gera á s.l. ári, liggur fyrir kemur til ákvörðunar bæði hvernig afla skuli fjár til þessarar styrkingar dreifikerfisins og hve langan tíma skuli ætla til þessara framkvæmda.