07.05.1976
Sameinað þing: 85. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3803 í B-deild Alþingistíðinda. (3125)

320. mál, rafdreifikerfi í sveitum

Fyrirspyrjandi (Ólafur B. Óskarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. svör hans við fyrirspurnum mínum, og ég fagna því, sem fram kom í máli hans, að Rafmagnsveitur ríkisins vinni að áætlunum um þessi mál. Eins og kom fram í máli ráðh. er hér um bæði tímafrekt verk og kostnaðarsamt að ræða. Því er nauðsyn að gerðar séu nákvæmar áætlanir um þetta verk þannig að sem skipulegast verði að því unnið.

Það er eðlilegt að á undanförnum árum og áratugum, þegar lagt var kapp á að hraða dreifingu rafmagns um byggðirnar eða raflýsingu sveitanna, eins og það var kallað, og þá að sjálfsögðu miðað við þá orkuþörf og þau viðhorf sem þá voru fyrir hendi, að það hafi veríð nokkuð á kostnað styrkleika þessara lína. En ég vil leggja áherslu á mikilvægi þess að framkvæmdum þessum við dreifikerfi raforku verði hraðað. Þetta er eitt af mikilsverðustu málum dreifbýlisins, bæði þéttbýlis og sveita, bæði hvað varðar húshitun og iðnaðaruppbyggingu, að þessi mál séu í góðu horfi. Með tilliti til aukinnar raforkuframleiðslu á næstu árum verður þessi þörf enn brýnni því það kemur að sjálfsögðu ekki að gagni að framleiða aukna raforku ef ekki er hægt að dreifa henni til þeirra staða þar sem notkun verður fyrir hendi. Ég vil því hvetja hæstv. ríkisstj. og Alþ. til að taka þessi mál föstum tökum og vinna markvisst að þeim á næstu árum.